17. júní í tíma og rúmi

Það er hverjum Íslendingi hollt að rifja upp að lágmarki einu sinni á ári af hverju Ísland er sjálfstætt ríki, og þjóðhátíðardagurinn sjálfur er kjörið tækifæri til þess. Það verður þó ekki gert að þessu sinni.

Það er hverjum Íslendingi hollt að rifja upp að lágmarki einu sinni á ári af hverju Ísland er sjálfstætt ríki, og þjóðhátíðardagurinn sjálfur er kjörið tækifæri til þess. Það verður þó ekki gert að þessu sinni heldur verður litið á dagsetninguna 17. júní með augum heimsborgarans og tímaflakkarans, auk þess sem að í tilefni dagsins verður íslenskri tungu haldið hátt á lofti.

Þó nokkrir markverðir atburðir hafa átt sér stað á þessum degi í heimssögunni. Til að mynda eignaði landkönnuðurinn Sir Francis Drake sér árið 1579 það landsvæði sem nú kallast Kalifornía, og árið 1773 varð Kolumbía til. Fyrir áhugamenn um blóðsúthellingar má nefna að á þessum degi árið 1775 fór fram orrustan um Sandgryfjuhæð, sem var reyndar háð á allt annarri hæð fyrir mistök, en hver er að festa sig í svoleiðis smáatriðum?

Af helstu atburðum 20. aldarinnar á þessum merka degi, má nefna að Vatnshliðshneykslið hófst með handtöku fimm starfsmanna Hvíta hússins (ekki þó auglýsingastofunnar) fyrir að brjótast inn í skrifstofur hins bandaríska Lýðræðisflokks. 1991 var aðskilnaðarstefnan afnumin í Suður-Afríku, og í Bandaríkjunum árið 1994 var bæði stórleikarinn O.J. Simpson (ranglega) handtekinn fyrir tvö morð og heimsmeistarakeppnin í knattspyrnu hófst.

Í mannkynssögunni eru ekki mörg mikilmenni sem hafa fæðst á þessum degi, og kunnum við þeim góðar þakkir að vera ekki að draga athygli frá sjálfum Jóni okkar Sigurðssyni, sem kom í heiminn árið 1811. Þó voru þrír menn sem fæddust í miðri heimsstyrjöld og hafa náð árangri á ólíkum sviðum, en eiga það sameiginlegt að vera nógu merkilegir til að vera nefndir í þessum þjóðhátíðarpistli. Þetta eru herramennirnir Mohamed ElBaradei (1942), yfirmaður Alþjóða kjarnorkumálastofnunarinnar, Newt Gingrich (1943), fyrrum leiðtogi Lýðveldisflokksins á Bandaríkjaþingi, og Barry Manilow (1943), sem að mati Bandaríkjamanna (og engra annarra) hefur samið fjölmörg úrvals dægurlög.

Að lokum vil ég svo óska Íslendingum öllum, og íbúum Vestur-Þýskalands, til hamingju með þjóðhátíðardaginn.

Latest posts by Þorgeir Arnar Jónsson (see all)