Siðferðislega sinnuð stríðsvélmenni

Tilburðir Arnolds Schwarzeneggers í Terminator-myndunum koma upp í hugann þegar lesið er um áform varnarmálayfirvalda í Bandaríkjunum um að fjölga vélmennum í herliðinu. Ekki nóg með það, heldur eiga þessi vélmenni að geta vegið og metið aðstæður og tekið siðferðislegar ákvarðanir á vígvellinum og þannig lágmarkað skaða og mannfall. En eru hugmyndir sem þessar raunhæfar?

„I need your clothes, your boots, and your motorcycle.“

Þessa ódauðlegu línu lét Arnold Schwarzenegger falla í kvikmyndinni Terminator II, sem pistlahöfundur fór á í bíó með móður sinni, 9 ára gamall og þar af leiðandi 7 árum frá því að vera nógu gamall til að sjá hana að mati Kvikmyndaeftirlits ríkisins. Upplýsingum um bíófélagann var að vísu sleppt þegar bekkjarfélögum og vinum var sagt frá myndinni.

En nóg um þessa villtu æsku pistlahöfundar. Hugmyndin um vélmenni í stríði er ef til vill ekki jafnfjarlæg og hún leit út fyrir að vera í sal 2 í Regnboganum á sínum tíma. Í nýjasta hefti Economist er sérstakur blaðauki um tækninýjungar á ýmsum sviðum vísinda, þar sem meðal annars er greint frá því að varnarmálaráðuneytið í Bandaríkjunum stefni að því að skipta út þriðjungi vopnaðra farartækja og vopnabúnaði fyrir vélmenni árið 2015. Þ.e. að vægi vélmenna í hernaði verði aukið stórlega.

Ekki skortir ástæðurnar og rökin fyrir slíkum breytingum – gefi menn sér þá forsendu á annað borð að hernaður og hermennska sé staðreynd. Vélmenni þurfa ekki að skilja eftir fjölskyldur heima við til þess að fara á vígvöllinn og sorgin yfir þessum föllnu vélhetjum yrði án efa mun minni en hermönnum af holdi og blóði. Svo ekki sé minnst á kostnaðinn í bæði fjárhagslegu og pólitísku tilliti.

Vélmenni og annar sjálfvirkur búnaður er reyndar nú þegar notaður talsvert af hernum. Til að mynda eru ómannaðar flugvélar notaðar af hálfu bandaríska hersins og ef til vill ekki stórtíðindi að slík tækni sé nýtt. Breytingin sem felst í nýjustu hugmyndunum er hins vegar að hanna vélmenni með aukið sjálfstæði, ef svo má að orði komast, þ.e. að vélmennin gætu sjálf tekið ákvarðanir í ríkara mæli. Þar á meðal ákvarðanir um að taka líf annarra.

Þessi hugmynd hljómar í fyrstu sem algerlega klikkuð. En því má velta því fyrir sér hvort slík breyting kynni að vera til hins betra. Ronald Arkin, prófessor í Georgia Institute of Technology, hefur unnið að því að hanna slík vélmenni og í greininni er haft eftir honum að vélmenni kynnu að sýna mannúðlegri viðbrögð á vígvellinum en venjulegir hermenn. Álag og streita hafa ekki áhrif á dómgreind véla ólíkt því sem er með venjulega hermenn. Hugmynd Arkins gengur út á að forrita vélmennin þannig að þau velji siðferðislega rétta kosti. Út frá upplýsingum sem vélmennið vinnur úr, t.d. um staðsetningu mótherja og stöðu mála, getur það tekið ákvarðanir sínar. Þannig myndi það lágmarka mannfall og eyðileggingu.

Tilraunir Arkins eru að þessu leyti ekki alveg út í bláinn, þó maður eigi erfitt með að sjá fyrir sér vélmenni berjast hvort við annað, sama hve siðferðislega sinnuð þau verða. Ennfremur er erfitt að átta sig á því hvernig hægt verði að forrita vélmenni með þeim hætti að þau geti brugðist eðlilega við í öllum þeim óteljandi flóknu aðstæðum sem upp kunna að koma en flókinn mannshugurinn þekkir vel. Loks má ekki gleyma því að á sama hátt og yfirmenn gefa hermönnum skipanir, væri einhver maður, með allan okkar breyskleika, sem forritaði vélmennið og þyrfti þar að reiða sig á eigin dómgreind og siðferðiskennd. Þegar öllu er á botninn hvolft eru réttar ákvarðanir þeirra sem fara með vald og ábyrgð besta leiðin til þess að draga úr stríðsátökum og hörmungum.

Umfjöllun Economist

Árni Helgason skrifar

Árni hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.