Rugl í Reykjavík

Myndin er eins konar “mocumentary” í tveimur hlutum þar sem sá fyrri fjallar um fyrsta starfsár BD bandalagsins, sem ræður ríkjum í borginni, en í þeim seinni er rýnt inn í framtíðarborgina undir þeirra stjórn.

Í ár eru liðin 25 ár frá því að hin fræga kvikmynd Rokk í Reykjavík var frumsýnd. Það er því kominn tími til að framhaldsmyndin líti dagsins ljós. Sú mun kallast Rugl í Reykjavík.

Ólíkt fyrirrennaranum fjallar framhaldsmyndin ekki um tónlistarlífið í höfuðstað Íslands í nútímanum heldur um stjórnmálalífið á sama stað. Myndin er eins konar “mocumentary” í tveimur hlutum þar sem sá fyrri fjallar um fyrsta starfsár BD bandalagsins, sem ræður ríkjum í borginni, en í þeim seinni er rýnt inn í framtíðarborgina undir þeirra stjórn. Í aðalhlutverkum eru Kofa-Villi og Hafnar-Björn forsvarsmenn D-lista annars vegar og B-lista hins vegar.

Sé litið til aðalpersónanna í myndinni þá virðist Kofa-Villi vera fylgismaður gamla íhaldsarmsins sem enn er sterkur í D-listanum þrátt fyrir vonir yngri manna um að frjálslyndari og víðsýnni gildi séu á uppleið. Hafnar-Björn er öllu óskilgreindari stærð og erfitt að draga þau gildi sem hann stendur fyrir í sérstaka dilka enda virðist oft sem baráttumál hans og B-listans sveiflist eftir þjóðarsálinni hverju sinni.

Í aðdraganda myndarinnar hafði R-listinn látið af völdum eftir 12 ára samfellda stjórnartíð. Við þau sinnaskipti héldu margir fylgismenn flokks Kofa-Villa að betri tíð væri í vændum og horfðu fram á stórbætta borg, ekki síst þegar litið væri á lóðamál sem voru í molum í tíð fyrri stjórnarherra. Þessar vonir virðast í dag hafa verið byggðar á sandi. Í stað þess að taka málið föstum tökum og fara þá leið sem markaðshyggjumenn, sem flestir eru dyggir stuðningsmenn D-lista, telja rétta valdi Bd-bandalagið handónýta leið með flóknum sérákvæðum við framsal lóða. Kerfi sem tryggir neðanjarðarhagkerfi með lóðaviðskipti og veitir heppnum íbúum dágóða búbót verði nöfn þeirra dregin út í lóðaríinu.

Í fyrri hluta myndarinnar má enn fremur sjá fjölda annarra atburða sem teljast ekki vatn á myllu BD-bandalagsins. Má þar nefna sölu á eignarhlut í Landsvirkjun til ríkisins á lágu verði, líklega gjafverði sé litið til þess verðs sem ríkið fékk fyrir sölu á hlut sínum í Hitaveitu Suðurnesja nokkrum mánuðum síðar. Enn fremur var átakanlegt að sjá Kofa-Villa og Hafnar-Björn reka saman síðasta naglann í líkkistu Strætó bs. með stórskertu leiðaframboði og ferðatíðni.

Umdeild atriði mátti enn fremur sjá í myndinni t.a.m. þegar Kofa-Villi talsmaður flokks frjálshyggju og frelsis tilkynnir að það séu ekki allir velkomnir til borgarinnar bláu við sundin. Hann gerði öllum þeim, sem hafa komið nálægt gerð klámmynda á einn eða annan hátt, ljóst að þeir ættu ekki að koma í heimsókn til Reykjavíkur því þá yrði ekki tekið vel á móti þeim. Sama sagði hann við þá sem vildu opna spilakassasal í einu af hverfum borgarinnar. Hann taldi salinn ekki passa inn í það umhverfi sem var fyrir. Bannaði opnun löglegs spilasalar en gaf eigendunum flotta sjávarlóð í staðinn. Hafnar-Björn var heldur ekki laus við umdeild atriði og sem formaður Faxaflóahafna úthlutaði hann bróður Kofa-Villa lóð á uppbyggingarsvæði við höfnina. Sú lóð var laus undan öllum framsalskvöðum sem almennir íbúar þurfa að hlýta enda var hún seld áfram sex dögum síðar.

Umfangsmesta atriði myndarinnar var þó án efa þegar Kofa-Villi brá sér í líki Rudy Giuliani fyrrum borgarstjóra Nýju-Jórvíkur íklæddur galla slökkviliðsmanna. Þegar gömlu kofarnir brunnu í miðbæ Reykjavíkur sást Kofa-Villi með grátstafina í kverkunum í fréttum allra ljósvakamiðlanna lýsa því yfir að kofarnir skyldu rísa aftur. Hinn mikla menningararf þarf að varðveita að hans mati en ekki má horfa fram á við og skoða hvort hægt sé að gera borgina betri með annars konar byggingum. Ekki einu sinni skoða hvort það sé hægt.

Það er full ljóst að fyrri hluti myndarinnar Rugl í Reykjavík er mikil vonbrigði. Seinni hlutinn er þó eftir, öllu lengri en sá fyrri og það er von að aðalleikararnir girði sig í brók og sjái til þess að myndin sem heild geti talist sómasamleg. Ef ekki styrkir pistlahöfundur kvikmyndagerðarmennina ekki aftur næst.

Latest posts by Þórður Heiðar Þórarinsson (see all)