Aflamark í efsta gír

Jeremy Clarksson er skemmtilegur maður. Fyrir þá sem ekki þekkja til er hann stjórnandi bílaþáttanna Efsti gír sem sýndir eru á Skjá einum við miklar vinsældir. Hugmyndir hans og hegðun hafa hins vegar víðari skírskotun til íslensks samfélags en hann órar fyrir.

Það væri óráðlegt fyrir Jeremy Clarkson að fara til Malasíu á næstunni. Ástæðan fyrir hatri Malasíubúa á Jeremy er sú að hann tók í þætti sínum fyrir bílinn Perodua Kelesa, sem er framleiddur í Malasíu.

Eftir reynsluakstur réðst hann á bílinn með sleggju og barði hann sundur og saman. Svo lét hann hífa hann upp í krana og sprengdi hann síðan í tætlur með dýnamíti. Líklega hefði það dugað til að Malasíubúar áttuðu sig á skoðun hans á bílnum.

Málið hefur verið tekið fyrir á þinginu í Malasíu. Og þar var ekki rætt um að gera Jeremy Clarkson að heiðursborgara.

Vondar hugmyndir eru vondar hugmyndir og talandi um vondar hugmyndir:

Á sjómannadaginn þverfótaði ekki fyrir álitsgjöfum sem töldu að svört skýrsla Hafrannsóknarstofnunar um þorskstofninn kallaði á sértækar aðgerðir til að veita dreifðum byggðum landsins liðveislu. Enn eina ferðina ætti að íhlutast til um gangverk fiskveiða með úthlutun byggðakvóta í því augnamiði að tryggja atvinnu í afskekktum byggðarlögum.

Hagræðing í sjávarútvegi verður ekki stöðvuð. Hún er einfaldlega kall og svar tímans. Afla 40 dagróðrabáta fyrir tveimur áratugum er í dag aflað á einum togara – og þessi þróun mun halda áfram. Hagkvæmni spyr ekki um búsetu.

Hagræðing getur verið sársaukafull, því skal ekkert neitað og hvað sem hugmyndum um byggðakvóta líður munu fiskveiðiheimildir halda áfram að leita til hagkvæmustu útgerðanna. Þær geta greitt hæst verð fyrir aflaheimildir þar sem þær kosta minnstu til við að nýta þær. Skynsemi 101.

Það er algert lykilatriði í kerfinu að rétthafarnir njóti ávaxta af uppbyggingu stofnsins. Byggðakvóti er handahófskennd viðbót sem riðlar uppskeru rétthafa aflaheimildanna. Það skiptir engu máli þótt talað sé um að byggðakvótinn verði skapaður við aukningu aflamarks. Sú hugmynd er jafnslæm því þá taka rétthafar aflaheimilda á sig skerðingu en fá ekki að njóta aukningu aflamarks þegar vel gefur. Hvatinn til skynsamlegrar sjálfbærrar nýtingar í kerfinu er þá horfinn.

Hugmyndin er því einhvers konar Perodua Kelesa sjávarútvegsfræðanna.

Eitt annað að lokum:

Fréttamaður sjónvarpsþáttarins Íslands í dag tók viðtal við Geira á Goldfinger síðastliðinn föstudag og spurði hann hreint frábærrar spurningar. Spurningin var þessi: “[…] hefur vændi átt sér stað á skemmtistaðnum þér óaðvitandi

Já, það er ekki að ástæðulausu sem guð skapaði manninn með munninn fyrir neðan nefið.

Latest posts by Halldór Benjamín Þorbergsson (see all)