Kindþáttafordómar

Ef sagan getur kennt okkur eitthvað er það sennilega það að hún endurtekur sig. Guðni Ágústsson, fráfarandi landbúnaðarráðherra, sannaði það fyrir okkur í síðustu viku þegar hann lagði enn einu sinni stein í götu innflytjenda búfjárafurða.

Surprise, surprise – fráfarandi landbúnaðarráðherra hefur hafnað beiðni fyrirtækjanna Haga og Dreifingar um leyfi til að flytja inn rétt um 100 kílógrömm af nýsjálensku lambakjöti. Ráðherrann sagði orðrétt að það geti verið hættulegt og íslenskt sauðfé og neytendur eigi að njóta vafans.

Þetta hljómar kunnuglega, ekki satt?

Fyrir rétt um tveimur árum síðan fjallaði Deiglan um þá einkennilegu ákvörðun landbúnaðarráðherra að banna innflutning á nautakjöti frá Argentínu. Á þeim tíma var ákvörðun landbúnaðarráðherra einnig byggð á þeirri þreyttu tuggu að íslenskur landbúnaður yrði að fá að njóta vafans. Eins og nú var meintur vafi settur fram með skírskotun til stórhættulegra sjúkdóma í kjötvörum sem skv. lýsingum Guðna ættu að halda öllum jarðarbúum nema Íslendingum í heljargreipum einnar allsherjar sóttkvíar.

Í greininni var bent á þau augljósu sannindi að allir angar mannlegrar tilveru eru undirorpnir áhættu. Galdurinn er hins vegar að meta áhættu á móti ábata og taka rökréttar ákvarðanir byggðar á því mati. Ekkert er hættulaust – en við hljótum hins vegar að gera þá kröfu til æðstu embættismanna að þeir fari eftir mati færustu sérfræðinga sem telja að það sé hverfandi hætta á því að umræddar kjötafurðir séu sýktar.

Deiglan hefur áður bent á að menn þurfi í sífellu að gera upp við sig hvort ávinningur í lífinu sé áhættu virði. Við ferðumst með bifreiðum til vinnu þótt svo möguleiki sé á að við lendum í slysi og þegar sá gállinn er okkur borðum við jafnvel innflutt grænmeti frá vondum löndum, þrátt fyrir að t.a.m. salmonella geti leynst í innfluttu grænmeti. Áhættan sem við tökum er vegin á móti ábatanum og við ákveðum að leggja á vaðið. Hvers vegna?

Jú, við metum ábatann meiri en hugsanlegt tap okkar.

Yfirdýralæknir er sammála þessari aðferðafræði. Hann sér ekkert athugavert við að Hagar og Dreifing fái leyfi frá ráðherra til að flytja inn lambakjötið frá Nýja-Sjálandi – og hann mælti einnig með því að annað fyrirtæki fengi að flytja inn nautakjöt frá Argentínu árið 2005.

Yfirdýralæknir mælir með innflutningi.

Í þessu samhengi verður það að teljast afar eftirtektarvert að landbúnaðarráðherra ákveður hið minnsta í tvígang að ganga gegn faglegu mati yfirdýralæknis, þar sem ráðherrann hefur í tvígang hunsað tilmæli yfirdýralæknis sem lagði til að innflutningur ofangreinds kjöts yrði leyfður. Með þessu er ráðherrann annað hvort að gefa faglegri þekkingu yfirdýralæknis langt nef – eða að ráðherra byggir mat sitt á annari kríteríu – og spennið nú beltin:

Á síðustu dögum hefur verið haft eftir landbúnaðarráðherra að ,,það sé nóg til af lambakjöti [á Íslandi]…”. Sennilegast er þetta nú mergurinn málsins.

Forsendur ákvörðunarinnar hafa kannski ekkert með sjúkdóma að gera. Heldur gömlu góðu söguna af framboði, eftirspurn og sérhagsmunum. Fyrir þá sem hafa reynt að telja sér trú um að ríkisforsjáin tilheyri fortíð, ættu að hugsa sig um. Landbúnaðarráðherra segir það kinnroðalaust við fréttamenn að það sé nóg til af einhverri vöru í landinu og því sé algerlega óþarft fyrir einkaaðila að flytja inn aðra tegund af áþekkri vöru – hin varan sé bara alveg nógu góð.

Framleiðendavernd?

Stjórnsýsla af þessum togar er fyrir neðan lágmarkskröfur okkar. Það er erfitt að sjá að viðlíka nálgun væri liðin á nokkrum öðrum stað en í ráðuneyti landbúnaðarmála. Geðþóttaákvarðnir embættismanna eru bara ekki kúl á 21. öldinni.

Þetta sjúkdómadrama sem landbúnaðarráðherra beitir fyrir sig í hvert sinn sem innflutningur landbúnaðarafurða kemst í umræðuna er farið að vera vandræðalegt. Í fyrsta lagi þá held ég að menn trúi mati yfirdýralæknis um hverfandi hættu á sjúkdómum og svo vita menn að innflutningsbannið er ekkert nema grímulaus vernd fyrir íslenska framleiðendur landbúnaðarafurða.

Gríman er fallin og það er mál að linni.

Að lokum þetta: Í hvert skipti sem pistlahöfundur fer í matvörubúð kaupir hann a.m.k. tvær krukkur af fetaosti frá einkafyrirtækinu Mjólku – borðar aðra en hendir hinni án nokkurrar eftirsjár – og lítur á kaupin sem stuðningsyfirlýsingu við frjálsa samkeppni í landbúnaði.

Það er mikilvægt að styðja einkaaðila í baráttunni við ofurafl í ríkismynd og það skálkaskjól sem ósanngjarn og illa rökstuddur landbúnaðarstuðningur veitir samkeppnisaðilum þeirra.

Í samtíðinni á Mjólka nefnilega ekki séns í Guðna Ágústsson.

Framtíðin er hins vegar á hennar bandi.

Latest posts by Halldór Benjamín Þorbergsson (see all)