Heilbrigðisútgjöld vaxa og vaxa

Útgjöld hins opinbera til heilbrigðismála hafa aukist um 10 milljaða frá árinu 2002 og um 30 milljarða frá árinu 1998 miðað við fast verðlag. Aukningin frá 1998 er ríflega 50%. Mun minni áhersla hefur hins vegar verið lögð á aðgerðir til þess að tryggja að sem mest þjónusta fáist fyrir alla þá tæplega 90 milljarða sem hið opinbera ver til heilbrigðismála árlega.

Biðlistar í heilbrigðiskerfinu hafa verið talvert til umræðu nú fyrir kosningar. Samfylkingin lofar að útrýma þeim á næsta kjörtímabili. Hún segir þá vera birtingarmynd vanrækslu og skorts á samfélagslegri ábyrgð. Í þessu sambandi er vert að hafa það í huga að útgjöld hins opinbera til heilbrigðismála hafa aukist um 10 milljaða frá árinu 2002 og um 30 milljarða frá árinu 1998 miðað við fast verðlag. Aukningin frá 1998 er ríflega 50%.

Á komandi árum má gera ráð fyrir því að eftirspurn eftir heilbrigðisþjónustu muni halda áfram að vaxa hröðum skrefum. Raunar er líklegt að heilbrigðisútgjöld muni taka til sín æ stærri hluta af heildartekjum þjóðarinnar. Slík þróun er eðlileg fyrir tvær sakir. Í fyrsta lagi er þjóðin smám saman að eldast. Og í öðru lagi, verður þjóðin efnaðari og efnaðari með hverju árinu. En hlutfall heilbrigðisþjónustu í heildarneyslu fólks hefur tilhneyingu til þess að hækka þeim mun efnaðara sem fólk verður.

Núverandi ríkisstjórn hefur aukið útgjöld til heilbrigðismála stórum skrefum á síðustu árum. Mun minni áhersla hefur hins vegar verið lögð á aðgerðir til þess að tryggja að sem mest þjónusta fáist fyrir alla þá tæplega 90 milljarða sem hið opinbera ver til heilbrigðismála árlega. Á meðan grettistaki hefur verið lyft til þess að auka hagkvæmni víða annars staðar í hagkerfinu svo sem í fjármálakerfinu hefur heilbrigðiskerfið setið eftir nánast óbreytt.

Kerfisbreytingar sem auka hagkvæmni í heilbrigðisþjónustu eru hins vegar auðveldari um að tala en í að komast. Kannski er það þess vegna sem stjórnvöld hafa ákveðið að leggja meiri áherslu á kerfisbretingar annars staðar í hagkerfinu á undanförnum árum. En það er óumflýjanlegt að vægi heilbrigðismála í þjóðfélagsumræðunni aukist á komandi árum þar sem stærri og stærri hluti þjóðartekna okkar Íslendinga er varið í heilbrigðisútgjöld ár hvert.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.