Lítilla breytinga að vænta

Síðari umferð frönsku forsetakosninganna fer fram á morgun. Lítið hefur borið á umræðu um utanríkisstefnu frambjóðendanna, Nicolas Sarkozy og Segolene Royal. Ljóst er að lítilla breytinga er að vænta frá stefnu Jacques Chirac, fráfarandi Frakklandsforseta.

Síðari umferð frönsku forsetakosninganna fer fram á morgun. Hægrimaðurinn Nicolas Sarkozy og Segolene Royal, frambjóðandi sósíalista, berjast um hylli kjósenda, en skoðanakannanir benda til þess að Sarkozy muni standa uppi sem sigurvegari annað kvöld. Kjósendur eru vel með á nótunum og fylgdust meira en tuttugu milljónir manna með sjónvarpskappræðum Sarkozy og Royal nú í vikunni. Er það svipað áhorf og á úrslitaleikinn á HM í knattspyrnu í fyrra. Þá var kosningaþátttakan í fyrri umferð kosninganna sú hæsta síðan 1974.

Með kosningunum tekur ný kynslóð við í frönskum stjórnmálum, enda eru báðir frambjóðendurnir meira en tuttugu árum yngri en Jacques Chirac, fráfarandi Frakklandsforseti. Royal er fyrsta konan sem nær í aðra umferð forsetakosninga og Sarkozy er fyrsti frambjóðandinn sem á erlendan föður – en faðir hans flúði Ungverjaland í tíð kommúnista.

Formleg kosningabarátta, sem lauk í gær, hefur að langmestu snúist um innanríkismál. Lítið hefur borið á umræðu um utanríkisstefnu frambjóðendanna, sem þykir nokkuð svipuð. Bæði Sarkozy og Royal hafa lýst því yfir að þau hyggist viðhalda í flestu utanríkisstefnu Chirac – einkum í málefnum Mið-Austurlanda. Royal hefur þó greint frá því að hún vilji hertari aðgerðir gagnvart Íran og kjarnorkuvopnavæðingu landsins, sem gengur þvert á sameiginlega afstöðu Frakklands, Bandaríkjanna, Bretlands, Þýskalands, Kína og Rússlands.

Almennt er talið að Royal hafi ekki farið vel af stað er hún lét í ljós stuðning við hugmyndir um sjálfstæði frönskumælandi hluta Quebec. Þá tók hún undir orð Hezbollah-manna um brjálæði bandarísku utanríkisstefnunnar. Royal dró þau ummæli reyndar tilbaka en skaðinn var skeður. Á sama tíma hefur Sarkozy verið gagnrýndur fyrir of náinn tengsl við Washington. Þykir hann helst til hliðhollur Bandaríkjamönnum.

Bæði Sarkozy og Royal hafa greint frá því að þau vilji ganga harðar fram í mannréttindamálum heldur en Chirac hafi gert. Þrýsta þurfi frekar á þau ríki sem hafa gerst sek um mannréttindabrot, t.d. Súdan vegna málefna Darfur og Rússland vegna Tsjetsjeníu. Spekingar segja þó að auðvelt sé að lýsa slíku yfir fyrir kosningar, en eflaust muni Frakkar draga í land gagnvart Rússum.

Afstaða frambjóðendanna til málefna ESB er með nokkuð öðrum hætti. Sarkozy vill, líkt og Angela Markel, kanslari Þýskalands, styttri sáttmála í stað fyrirliggjandi stjórnarskrár sambandsins, sem franskir kjósendur höfnuðu árið 2005. Royal vill bæta við félagslegum ákvæðum í texta stjórnarskrárinnar og láta Frakka taka afstöðu til hennar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Loks hefur Sarkozy lýst því yfir að hann sé mótfallinn inngöngu Tyrklands í ESB.

Hver svo sem niðurstaða kosninganna á morgun verður er ólíklegt að mikilla breytinga sé að vænta á utanríkisstefnu Frakklands.

Latest posts by Fanney Rós Þorsteinsdóttir (see all)