Hvers vegna þetta lyklaborð?

Lyklaborðið sem við notumst við í dag á sér skemmtilega sögu en upphaflega var það hannað til að hægja á innslætti fólks.

Á skólagöngu minni var sagan af upphaflega tilgangi lyklaborðsins sem við notumst við í dag afar vinsæl á meðal kennara. Hún var þá iðulega sögð sem dæmi um hvernig venjur í hug– og vélbúnaði hafa fest sig í sessi.

Lyklaborðið kallast QWERTY lyklaborð eftir fyrstu bókstöfum efstu raðar en það var hannað af Christopher Sholes árið 1860. Í þá daga notuðust menn við ritvélar þar sem uppsetning lyklaborðsins var eftir stafrófsröð. Menn áttu auðvelt með að læra á þau og náðu því fljótt upp góðum hraða í vélritun. Ritvélarnar voru hannaðar þannig að þegar ýtt var á takka lyklaborðsins slóst upp armur með tilheyrandi staf. Það var síðan í höndum þyngdaraflsins að koma arminum aftur á sinn stað. Ef slegið var of ört á takkana náðu armarnir ekki að komast í upphafsstöðu áður en næsti fór upp og því flæktust þeir oft á tíðum saman.

Sholes hóf því að hanna nýtt lyklaborð til að koma í veg fyrir þetta vandamál. Hann fann út hvaða stafir voru algengastir að vera slegnir inn hver á eftir öðrum og setti þá sem lengst frá hver öðrum. Með þessu móti náðu menn ekki eins góðum vélritunarhraða en þar að auki var erfiðara að læra á lyklaborðið sem hægði enn frekar þeim. Vandamál flæktu armanna minnkaði því töluvert. Með góðri markaðsetningu breiddist lyklaborðið fljótt út og er í dag það útbreiddasta.

Margir hafa reynt að koma með lyklaborð í stað QWERTY og er eitt þekktasta þeirra Dvorak lyklaborðið nefnt eftir upphafsmanni þess. Það var hannað með það í huga að flýta fyrir innslætti m.a. með því að hafa algengustu stafina í miðlínunni þar sem upphafsstaðsetning fingrasetningarinnar er. Þrátt fyrir að algengustu stýrikerfin styðji Dworak lyklaborðið hefur það aldrei náð flugi ekki frekar en önnur sem hafa verið fundin upp.

Við notumst enn við lyklaborð sem upphaflega var hannað til að hægja á innslætti. Vaninn kemur í veg fyrir að fólk skipti um lyklaborð þrátt fyrir hugsanlega kosti sem því gætu fylgt.

Latest posts by Hrefna Lind Ásgeirsdóttir (see all)

Hrefna Lind Ásgeirsdóttir skrifar

Hrefna Lind hóf að skrifa á Deigluna í maí 2005.