Af konum og landsfundi

Þá er landsfundur Sjálfstæðisflokksins yfir staðinn og er óhætt að segja að hann hafi tekist vel til í alla staði. Eitt stóð þá helst upp úr að margra mati ef marka má umfjöllun fjölmiðla og bloggara, jafnvel þó að sá atburður sé alls ekki nýr af nálinni á landsfundi Sjálfstæðisflokksins.

Þá er landsfundur Sjálfstæðisflokksins yfir staðinn og er óhætt að segja að hann hafi tekist vel til í alla staði. Margar prýðilegar ályktanir voru samþykktar, skemmtilegar umræður voru teknar, skoðanabræður- og systur sem hittast ekki nema á 2 ára fresti settust niður og fengu sér kaffi og með því, tekist var á og síðast en ekki síst var dansað og skemmt sér. S.s. vel heppnaður og skemmtilegur landsfundur.

Eitt stóð þá helst upp úr að margra mati ef marka má umfjöllun fjölmiðla og bloggara, jafnvel þó að sá atburður sé alls ekki nýr af nálinni á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Hér er ég að tala um miðstjórnarkjörið og þá skemmtilegu staðreynd að mikill meirihluti þeirra sem náðu þar kjöri voru konur, eða 8 af 11 fulltrúum. Já, konur. Þessar sömu og aldrei komast til valda í Sjálfstæðisflokknum. Þessar sömu og haldið er niðri af jakkafataklíkunni frá því að þær stíga fæti inn í Valhöll. Já, einmitt þær. Femínistar fagna þessu ákaft þó að gleðin nái nú ekki alveg að skína í gegnum málflutning þeirra í þeim efnum. Furðulegt þykir mér þó að þær skuli fagna nú, en á síðasta landsfundi voru enn fleiri konur kosnar heldur en í ár, en þá náðu ekki nema tveir karlmenn kjöri, af þeim 11 sætum sem í boði voru. Þá heyrðust ekki háværar gleðiraddir. Aftur á móti heyrðust háværar óánægjuraddir í hverju því prófkjöri sem konur voru ekki annaðhvort í meirihluta eða ef kynjahlutfallið var ekki alveg hnífjafnt. Var þá ekkert litið til þess hversu margir af hvoru kyni voru á annað borð að bjóða sig fram heldur eingöngu hver útkoman var. Lýðræðið þótti þá ekki merkilegt hugtak.

Hjálpartæki, á borð við þau sem Samfylking og Vinstri Græn notast við og hylla, og kallast ýmist kynjakvótar eða fléttulistar eru óþörf og stríða gegn eiginlegu jafnrétti. Ljóst er að hvorki konur né aðrir þurfa á slíkum tækjum að halda, svo framarlega sem þeir hafi hæfni til þeirra verka sem þeir bjóða sig fram til. Konur ættu að taka því sem hreinni móðgun við sig þegar þeim er rétt út hjálparhönd við að koma sér á þann stað sem þær óska eftir, rétt eins og þær séu verri eða óæðri hinu kyninu.

Það er ávallt skemmtilegt að sjá útkomuna þegar að einstaklingum er leyft að njóta sín án afskipta annarra. Kraftur kvenna, án “hjálpar” frá kóngi eða presti, í Sjálfstæðisflokknum er mikill, og því ber að fagna, rétt eins og krafti karla. Er ekki réttast að segja að kraftur fólksins hafi verið mikill og fagna því? Vonandi fer sá tíma að ganga í garð þar sem hætt verður að setja fólk í flokka eftir kyni og við förum að tala um fólk, sem jafningja, ekki andstæðinga. Tími þar sem fólki er ekki rutt fram fyrir aðra, einfaldlega vegna kyns síns, án þess að litið sé til annarra þátta líkt og hæfni, áhuga, dugnaðar eða reynslu. Ég á mér draum…

Latest posts by Margrét Elín Arnarsdóttir (see all)