Krónikan deyr á lifandi fjölmiðlamarkaði

Útgáfu Krónikunnar hefur verið hætt eftir að blaðið hafði komið út í um einn og hálfan mánuð. Það verður að teljast stuttur líftími blaðs. Víða erlendis er blöðum sem þessum ætluð allt upp í nokkur ár að koma sér fyrir á markaðnum og síast inn hjá lesendum. Það er hins vegar mikið ánægjuefni hvað fjölmiðlamarkaðurinn er lifandi um þesasr mundir.

Útgáfu Krónikunnar hefur verið hætt eftir að blaðið hafði komið út í um einn og hálfan mánuð. Það verður að teljast stuttur líftími blaðs. Víða erlendis er blöðum sem þessum ætluð allt upp í nokkur ár að koma sér fyrir á markaðnum og síast inn hjá lesendum. Þetta á ekki bara við um prentmiðla heldur fjölmiðla almennt. Vefmiðlar eins og mbl.is væru ekki til í dag ef aðstandendur hans hefðu horft í beinar afkomutölur fyrstu árin. Til þess að geta haft slíkt úthald þarf hins vegar fjármagn og nóg af því. Samkvæmt því sem forsvarsmenn blaðsins hafa látið hafa eftir sér stóð salan engan veginn undir væntingum og ekki annað í stöðunni en að hætta útgáfunni áður en tapið yrði of mikið.

Blaðið var að mörgu leyti gott og vandað til verka enda margir hæfir blaðamenn sem unnu þar. Margir hafa orðið til þess að benda á að hér sé þörf á fjölmiðli sem leggi upp úr fréttaskýringum og úttektum, sem dagblöðin og ljósvakamiðlar ná ekki alltaf að sinna sem skyldi. Forsvarsmenn Krónikunnar höfðu talað um slíkra efnistaka mætti vænta í blaðinu. Þær úttektir sem birtust í þessum fáu tölublöðum stóðu hins vegar ekki undir væntingum og voru í raun ekki jafnstór hluti blaðsins og maður hefði haldið. Mikið pláss í blaðinu fór undir viðtöl og greinar um lífstíl en pólitíkin og þjóðmálin voru hins vegar aftarlega og fengu oft minna vægi en búast mátti við.

Fjölmiðlafólk og athafnamenn á fjölmiðlamarkaði hafa verið nokkuð stórhuga á vetrinum sem nú er að líða og margir hafa gengið með fjölmiðil í maganum, eins og það er orðað. Ekki nóg með að Krónikan hafi litið dagsins ljós, heldur hefur DV verið endurreist og útgáfudögum Viðskiptablaðsins fjölgað. Ekki er langt síðan tímaritið Ísafold hóf göngu sína en þar hafa fréttaúttektir og skýringar verið birtar. Samkeppnin á markaðnum er því hörð um þessar mundir og ekki ólíklegt að blöðin sem fyrir eru finni fyrir því. Einhver þeirra kunna að leggjast af en önnur lifa af samkeppnina.

Áhrif samkeppninnar sjást ekki hvað síst á Morgunblaðinu um þessar mundir. Útlit blaðsins var lengi vel greypt í stein og nánast friðað. Á skömmum tíma hefur hins vegar gjörbreyting orðið þar á og blaðið hefur tekið stakkaskiptum. Það er hins vegar til marks um hörkuna á markaðnum að þrátt fyrir allt er blaðið enn á niðurleið miðað við lestrarkannanir.

Væringar sem þessar eru eðlilegar á öflugum markaði. Mikilvægast af öllu er að slíkur markaður sé fyrir hendi, jafnvel þótt það hafi í för með sér að ákveðnir fjölmiðlar detti upp fyrir. Í könnun samtakanna Reporters Without Borders frá því í fyrra kom í ljós að fjölmiðlar á Íslandi eru með þeim frjálsustu í heiminum. Það eru ekki lítil verðmæti.

Árni Helgason skrifar

Árni hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.