Vond og verri ríkisútgjöld

Gagnrýni á opinber útgjöld mun aldrei ná að yfirgnæfa eða vega upp á móti háværum röddum þeirra sem sífellt krefjast meiri útgjalda úr sameiginlegum sjóðum skattgreiðenda. En er kröftum þeirra sem andvígir eru síauknum ríkisútgjöldum beint í réttan farveg?

Það fer að verða fullt starf að fylgjast með fréttum af bráðnauðsynlegum samgöngubótum. Landshlutar keppa sín á milli við að forgangsraða fyrir hönd ríkisins hvar næstu jarðgöng verði boruð. Samanlagðar kröfur um bráðnauðsynleg jarðgöng fara langt með að ná allri þjóðarframleiðslu Íslendinga.

Fram hefur komið, með nokkuð afgerandi hætti, að Vestmannaeyingar telja jarðgöng til Eyja mikið þjóðþrifamál. Sama máli gegnir um jarðgöng í gegnum nokkur fjöll austur á fjörðum. Vestfirðingar þurfa jarðgöng bæði á milli Bolungarvíkur og Hnífsdals og svo auðvitað til að tengja saman norðurfirðina og suðurfirðina. Fyrir norðan þarf göng í gegnum Vaðlaheiði og höfuðborgarsvæðið og nágrenni þess þarf göng undir Grafarvoginn.

Umræður um síðastnefndu framkvæmdina hafa farið á skrið á síðustu dögum eftir að Faxaflóahafnir lýstu yfir vilja sínum til að koma að verkefninu. Faxaflóahafnir eru opinbert fyrirtæki og því ekki fráleitt að kalla þetta bókhaldshjáleið, eins og gert hefur verið. Sömu röksemdir eiga við gegn framkvæmdinni.

Gagnrýni á ríkisútgjöld rís yfirleitt hæst þegar í tal berast framkvæmdir fyrir opinbert fé, oftar en ekki í tengslum við vegalagningu eða annars konar samgönguvirki. Þessi gagnrýni er að því leyti ósanngjörn að aðkoma ríkisins að slíkum verkefnum er alla jafna afmörkuð og gagnsæ. Öðru máli gegnir því miður um þau verkefni sem ríkið tekur að sér og falla undir opinberan rekstur. Sjálfvirk útgjaldaaukning, óhagræði og ótrúleg útþensluþörf einkennir allan ríkisrekstur, hvaða nafni sem hann nefnist.

Á undanförnum árum hafa ýmsir áfangasigrar unnist í baráttunni gegn ríkisbákninu. Farsæl einkavæðing stórra ríkisfyrirtækja og aukin einkaframkvæmd á ýmsum sviðum sýnir að hægt er að þoka málum í rétta átt ef pólitískur vilji er fyrir hendi. En á sama tíma hafa umsvif ríkisins jafnframt verið vaxa með hægum og hljóðlátum hætti. Upp hafa sprottið margs konar „stofur“ sem eru í raun ekkert annað en gömlu ríkisstofnanirnar, en eru væntanlega kallaðar „stofur“ af því að það þykir benda til þess að þar fari fram lítil og sæt starfsemi, en ekki starfsemi einhverrra ríkisstofnana.

Ýmis ráðuneyti, sem hafa fá aðkallandi viðfangsefni – landbúnaðarráðuneytið, svo dæmi sé tekið af algjöru handahófi – hafa búið til ný verkefni og undirstofnanir svo að réttlæta megi tilvist viðkomandi ráðuneytis. Þannig hafa á skömmum tíma verið settar á fót háskólastofnanir sem eru ekki hluti af menntakerfinu heldur landbúnaðarkerfinu. Ríkisreknar umboðskrifstofur hafa verið settar á fót fyrir hesta og neytendur. Fiskistofa hefur vaxið hröðum skrefum og er nú svo komið að eftirlit hennar er orðið eftirlitsskylt. Og hvað halda lesendur að vinni margir ríkisstarfsmenn hjá Umferðarstofu?

Gagnrýni á opinber útgjöld á yfirleitt rétt á sér og víst er að sú gagnrýni mun aldrei ná að yfirgnæfa eða vega upp á móti háværum röddum þeirra sem sífellt krefjast meiri útgjalda úr sameiginlegum sjóðum skattgreiðenda. Kröfur um að verja tugmilljörðum af opinberu fé til vegaframkvæmda eru margar hverjar algjörlega út úr kortinu. Við sem gagnrýnum slík áform eða hugmyndir megum hins vegar ekki gleyma því að aukin umsvif í rekstri hins opinbera eru sínu verri til lengri tíma litið.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.