Markmiðið er ekki að hvetja til vændis

Ísland hefur um hríð verið eina Norðurlandið þar sem vændi er refsivert. Mikið hefur verið deilt um það undanfarin ár hvaða leið skuli farin í tengslum við refsinæmi eða refsileysi vændis. Flestir, hvort sem þeir teljast til hægri eða vinstri, hafa þó verið sammála um að enginn hagur sé í því að refsa þeim sem lenda í vændi.

Ísland hefur um hríð verið eina Norðurlandið þar sem vændi er refsivert. Mikið hefur verið deilt um það undanfarin ár hvaða leið skuli farin í tengslum við refsinæmi eða refsileysi vændis. Flestir, hvort sem þeir teljast til hægri eða vinstri, hafa þó verið sammála um að enginn hagur sé í því að refsa þeim sem lenda í vændi.

Nýsamþykkt lög frá alþingi gera nú ráð fyrir að vændi sé refsilaust þeim sem það stundar. Það er hins vegar enn refsivert að hafa milligöngu um vændi, að stuðla að vændi með öðrum hætti og auglýsa það opinberlega.

Viðhorf til vændis hér á landi hefur ætíð verið frekar neikvætt og langt frá því að vændi hafi verið stundað fyrir opnum tjöldum og á jafn viðurkenndan hátt og víða í nágrannalöndum okkar. Er þetta vel. Það er æskilegt að þessi afstaða breytist ekki þrátt fyrir að vændi sé ekki lengur refsivert.

Það er eitt hlutverk laganna að senda skilaboð um það hvað telst viðunandi og hvað telst óviðunandi hegðun og þá út frá því grunnviðhorfi að samfélag okkar sé í heild betur sett ef viðkomandi hegðun er stunduð eða ekki stunduð þar. Þetta er hins vegar ekki eina hlutverk laganna enda erum við sem betur fer flest búin ákveðinni siðgæðisvitund og getum sjálf metið hvað er æskileg hegðun og hvað ekki án þess að um það komi skýr skilaboð frá ríkisvaldinu.

Að því er varðar vændi er ljóst að þeir sem mestann skaða bera af því að vændi sé refsivert eru þeir sem lenda í því að stunda vændi. Þær takmörkuðu rannsóknir sem fram hafa farið hér á landi benda til þess að vændi sé ekki síst að finna hjá unglingum og börnum í aldurshópnum 13-18 ára. Þetta eru börn sem standa höllum fæti félagslega, hafa verið misnotuð kynferðislega og eru í vímuefnaneyslu.

Markmiðið með þeim breytingum sem gerðar voru á lögunum er að hjálpa þeim einstaklingum sem lent hafa í vændi í stað þess að refsa þeim. Þeir þurfa ekki lengur að óttast málshöfðun ef þeir ákveða að kæra ofbeldisverk, geta nú borið vitni og kært þá sem hafa milligöngu um vændi og vonandi verða þeir viljugri til að leita sér nauðsynlegrar aðstoðar hjá félagsþjónustu og heilbrigðiskerfinu. Það er mikilvægt í umræðunni á næstu mánuðum og árum að þetta viðhorf sem lagabreytingin byggir á hljómi skýrt – markmiðið er ekki að hvetja til vændis.

Latest posts by Katrín Helga Hallgrímsdóttir (see all)

Katrín Helga Hallgrímsdóttir skrifar

Katrín Helga hóf að skrifa á Deigluna í október 2003.