Hlutlægt hagsmunamat ráði för

Evrópunefnd undir forystu Björns Bjarnasonar hefur skilað af sér góðu verki. Afar mikilvægt er að afstaða stjórnmálamanna til stórra mála á borð við ESB byggi á hlutlægu mati á því hvernig hagsmunum Íslendinga sé best borgið.

Evrópunefnd undir forystu Björns Bjarnasonar hefur skilað af sér góðu verki. Nefndin komst sameiginlega að þeirri niðurstöðu að áfram skuli byggt á EES-samningnum og að samskipti Íslands og Evrópusambandsins skuli aukin.

Ljóst má vera að formaður nefndarinnar hefur haldið vel á málum, en fyrirfram hefðu ekki margir spáð því að nefndin gæti komist að sameiginlegri niðurstöðu. Skýrsla nefndarinnar varpar ágætu ljósi á stöðu Íslands innan EES og gagnvart Evrópusambandinu og verður án efa grundvöllur umræðu um þessi mál í framtíðinni.

Ekki þarf að koma á óvart að fulltrúar VG og Sjálfstæðisflokksins í nefndinni skuli komast að sameiginlegri niðurstöðu í afstöðu sinni til hugsanlegrar aðildar Íslands að ESB. Lengi hefur legið fyrir að þessir flokkar væru andvígir aðild, þótt á ólíkum forsendum kunni að vera.

Þessir fulltrúa draga þá rökréttu ályktun af skýrslu nefndarinnra ekki séu neinir brýnir hagsmunir í þágu þróunar eða vaxtar íslensks samfélags sem kalla á aðild að Evrópusambandinu. Vissulega kann sú staða að koma upp að hagsmunum Íslendinga verði betur borgið innan ESB en utan sambandsins og í áliti fulltrúa þessara flokka er þetta áréttað með eftirfarandi hætti:

„Þótt aðild að ESB fylgi ýmsir kostir er hitt fullljóst að þeir hagsmunir og réttindi sem glatast Íslendingum við aðild vega miklu þyngra en kostirnir við aðild. Þess vegna er óhjákvæmilegt fyrir Íslendinga að standa áfram utan Evrópusambandsins eins og málum er nú háttað.“

Afar mikilvægt er að afstaða stjórnmálamanna til stórra mála á borð við ESB byggi á hlutlægu mati á því hvernig hagsmunum Íslendinga sé best borgið. Ótækt er með öllu að huglæg sjónarmið á borð við þjóðernishyggju eða hugsjón um sambandsríki Evrópu ráði för.

Nú um stundir og um fyrirsjáanlega framtíð er hagsmunum Íslendinga betur borgið utan sambandsins. Ávinningur Íslendinga af aðild er ekki nánda nærri nógu mikill til að réttlæta afsal á yfirráðum yfir auðlindum sjávar, framsal á fullveldisrétti til stofnana ESB og niðurfellingu á rétti til að gera sjálfstæða viðskiptasamninga við önnur ríki.

Skýrsla Evrópunefndarinnar í heild sinni.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.