Hvar stendur Samfylkingin í Hafnarfirði?

Í DV á dögunum birtist lítil frétt um bæjarmálafund Samfylkingarinnar í Hafnarfirði og tillögu sem þar var borin upp. Tillagan gekk út á að bæjarfulltrúar flokksins gæfu upp afstöðu sína til fyrirhugaðrar stækkunar álversins í Straumsvík. Skemmst er frá því að segja að tillögunni var vísað frá fundinum.

Í DV á dögunum birtist lítil frétt um bæjarmálafund Samfylkingarinnar í Hafnarfirði og tillögu sem þar var borin upp. Tillagan gekk út á að bæjarfulltrúar flokksins gæfu upp afstöðu sína til fyrirhugaðrar stækkunar álversins í Straumsvík. Skemmst er frá því að segja að tillögunni var vísað frá fundinum.

Í frétt DV um þetta mál segir ennfremur: „Bæjarfulltrúarnir hafa hingað til þvertekið fyrir að gefa upp afstöðu sína til stækkunar.“

Þessar fregnir og afgreiðsla fundarins eru athyglisverðar, ekki síst í því ljósi að bæjarfulltrúarnir gerast æ þokukenndari og óljósari í afstöðu sinni eftir því sem nær dregur atkvæðagreiðslunni um stækkun álversins 31. mars nk. Á vef Ríkisútvarpsins má hins vegar finna frétt frá 26. október sl. þar sem rætt er við Lúðvík Geirsson, bæjarstjóra í Hafnarfirði, um þetta sama mál. Fyrirsögn þeirrar fréttar er svohljóðandi: „Bæjarstjórn vill stærra álver“.

Í frétt RÚV kemur svo eftirfarandi fram: „Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði, segir að bæjarstjórn Hafnarfjarðar mæli með stækkun álversins í Straumsvík ef Alcan gengur að þeim skilyrðum sem hún setur. Íbúar Hafnarfjarðar eigi þó síðasta orðið því kosið verður um stækkunina“.

Ennfremur segir í fréttinni að Lúðvík sjálfur hafi ekki tekið skýra afstöðu til málsins.

Í stuttu máli var bæjarstjóri Samfylkingarinnar í Hafnarfirði reiðubúinn til þess að lýsa bæjarstjórnina, sem er að meirihluta til skipuð Samfylkingunni, fylgjandi stækkun álversins í lok október sl. Nú þegar nær dregur kosningum er enginn af bæjarfulltrúum Samfylkingarinnar tilbúinn til þess að standa við þessa afstöðu.

Hverju sætir?

Árni Helgason skrifar

Árni hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.