Öryrkjar á vinnumarkað

Nýjar tillögur ríkisstjórnarinnar um endurskoðun örorkumats fela í sér grundvallarbreytingar á kjörum öryrkja. Nú skal tekið mið af starfsgetu en ekki örorku.

Nýjar tillögur ríkisstjórnarinnar um endurskoðun örorkumats fela í sér grundvallarbreytingar á kjörum öryrkja. Nú skal tekið mið af starfsgetu en ekki örorku.

Nefnd á vegum forsætisráðuneytisins var falið að gera tillögur um samræmingu á viðmiðunum til örorkumats. Í fyrsta lagi verður horft til getu einstaklinga til að afla sér tekna. Í öðru lagi verður starfsendurhæfing efld. Þetta verður gert til að hjálpa þeim sem af einhverjum ástæðum hafa ekki fest rætur á vinnumarkaði vegna örorku.

Ljóst er að núverandi örorkumatskerfi er barn síns tíma. Mat örorku í gamla kerfinu, út frá vangetu til vinnu er ekki til þess fallið að hvetja fólk til starfa. Aftur á móti fela nýju tillögurnar í sér hvatningu til þess að fólk afli sér tekna, enda örorka metin út frá starfsgetu.

Gildandi örorkumat veitir 75% öryrkja fullar bætur. Þeir sem metnir eru á bilinu 50% til 74% öryrkjar fá mjög lítið og þeir sem metnir eru 49% eða minna fá ekki neitt. Það var mat nefndarinnar að þetta hindri endurhæfingu og komi í veg fyrir að fólk með minni örorku fái nauðsynlega aðstoð.

Því var ákveðið að líta frekar til getu einstaklinga til að afla sér tekna og að örorkubætur verði að jafnaði háðar skilyrðum um atvinnuleit og endurhæfingu. Þetta felur í sér skyldur í báðar áttir, ekki aðeins að ríkinu beri að veita aðstoð og annan stuðning heldur einnig að örorkulífeyrisþegarnir sjálfir og vinnuveitendur leggi sitt af mörkum.

Þegar núverandi örorkumatskerfi er borið saman við slík kerfi í nágrannalöndum má sjá að nágrannar okkar eru mun framar á þessu sviði en við Íslendingar. Í Noregi er lögð áhersla á að efla endurhæfingarúrræði og auka þátttöku öryrkja á atvinnumarkaði. Áhersla er lögð á þann ávinning sem felst í því að fara af bótum í vinnu. Þannig hefur þróunin sömuleiðis verið í Danmörku og Svíþjóð.

Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri ASÍ segir að með þessu muni framboð á vinnumarkaði aukast til muna og að nauðsynlegt sé bæði fyrir þjóðfélagið sem og fyrirtækin að bregðast við því. En hvaða þýðingu hefur þetta í raun og veru? Eru vinnuveitendur tilbúnir að ráða til sín öryrkja sem búa við skerta starfsgetu eða verða þeir liðsinninu fegnir? Munu einstaklingar með skerta starfsgetu treysta sér út á vinnumarkaðinn? Hversu miklu vinnuframboði getur markaðurinn tekið við? Hvað gera öryrkjar ef atvinnuleysi verður 5-10%?

Fjöldi örorkulífeyrisþega við árslok 2006 nam ríflega 13.000 eða um 7,5% af vinnuafli. Þetta segir þó ekki alla söguna enda ekki ljóst hversu margir hafa á annað borð starfsgetu og þá hve mikla. Rúm 4% öryrkja voru í starfsendurhæfingu hér á landi árið 2003. Þetta hlutfall var mun hærra á hinum Norðurlöndunum og langhæst í Noregi eða 39%. Þetta sýnir best árangur hins nýja kerfis en óvíst er hver áhrifin verða hér á landi fyrr en breytingarnar taka gildi.

Nýtt örorkumat er löngu tímabær breyting. Hún stuðlar ekki aðeins að betri kjörum öryrkja heldur eykur hún þátttöku þeirra í samfélaginu. Stór hópur fólks nýtur góðs af þessum breytingum og þjóðfélagið sömuleiðis. Hins vegar er erfitt að meta heildaráhrif þessara breytinga á ríkissjóð. Til lengri tíma má ætla að þjóðhagslegur ávinningur sé fólginn í því að efla endurhæfingarúrræði. Skatttekjur ríkisins aukast og sjúkra – og lyfjakostnaður minnkar. Með hliðsjón að þessu virðast þessar breytingar vera til batnaðar.

Heimildir
Skýrsla nefndar um endurskoðun örorkumats og eflingu starfsendurhæfingar, 5. mars 2007
www.ruv.is

Kristín María Birgisdóttir
Latest posts by Kristín María Birgisdóttir (see all)

Kristín María Birgisdóttir skrifar

Kristín María hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2005.