Reglugerð um uppgjör í erlendri mynt

Fjármálaráðherra setti nýlega reglugerð sem þrengir heimildir fyrirtækja til þess að gera upp í erlendri mynt. Þessi reglugerð er skólabókardæmi um óskynsamlega forsjárhyggju af hálfu stjórnvalda. Hvaða rök mæla gegn því að fyrirtæki hafi frelsi til þess að velja hvaða gjaldmiðil þau nota þegar þau færa bókhald og semja ársreikninga? Í stað þess að ætla sér að standa vörð um krónuna ætti stefna stjórnvalda að snúast um það að gera allt það sem þau geta til þess að viðskipti á Íslandi gangi eins greiðlega fyrir sig og unnt er.

Fjármálaráðherra setti nýlega reglugerð sem þrengir heimildir fyrirtækja til þess að gera upp í erlendri mynt. Reglugerðin kveður á um að fyrirtæki geti einungis fengið heimild til uppgjörs í erlendri mynt ef viðkomandi mynt vegur hlutfallslega mest allra gjaldmiðla í viðskiptum félagsins. Hún kveður einnig á um að ársreikningaskrá skuli leita umsagnar Seðlabanka Íslands við meðhöndlun á umsóknum lánastofnana um heimild til uppgjörs í erlendri mynt.

Þessi reglugerð er skólabókardæmi um óskynsamlega forsjárhyggju af hálfu stjórnvalda. Hvaða rök mæla gegn því að fyrirtæki hafi frelsi til þess að velja hvaða gjaldmiðil þau nota þegar þau færa bókhald og semja ársreikninga? Það sem virðist búa að baki þessari reglugerð er gamaldags hugarfar um ríkiseinokun á myntsláttu. Slíkt einokunarvald hefur í gegnum tíðina verið vinsælt af hálfu stjórnvalda þar sem það hefur skapað tekjur í formi myntsláttuhagnaðar. En eins og önnur einokun getur ríkiseinokun á myntsláttu haft í för með sér verulega óhagkvæmni.

Í stað þess að ætla sér að standa vörð um krónuna ætti stefna stjórnvalda að snúast um það að gera allt það sem þau geta til þess að viðskipti á Íslandi gangi eins greiðlega fyrir sig og unnt er. Stjórnvöld eiga að líta svo á að með því að halda úti sérstökum gjaldmiðli séu þau að bjóða upp á ákveðna þjónustu. Hversu mikið krónan er notuð ræðst af því hversu gagnleg hún er í samanburði við aðra gjaldmiðla.

Ef fyrirtæki ákveða að notast við aðra gjaldmiðla er það til marks um að íslenska krónan sé ekki nægilega gagnlegur gjaldmiðill. Stjórnvöld geta brugðist við slíkri þróun með því að breyta peningamálstjórn sinni eða með því að hætta að bjóða upp á íslensku krónuna. Að þrengja heimildir fyrirtækja til að nota aðra gjaldmiðla eru fráleit viðbrögð.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.