Stjórnarjafnan

Ef stjórnmálaflokkar væru reikniaðgerðir og ríkisstjórnin jafna, hvaða flokkur væri í hvaða hlutverki? Engar vísindalegar rannsóknir liggja að baki pistlinum, né stærðfræðilegar sannanir.

Það má líkja stjórnmálaflokkunum við reikniaðgerðir eins og hvað annað. Stjórnarsamstarf á Íslandi mun sennilega alltaf í fyrirsjáanlegri framtíð, fela í sér einhvers konar jöfnu mismunandi reikniaðgerða. Hvaða flokkur stendur á bak við hvaða reikniaðgerð?

MARGFÖLDUNIN: Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið í forsvari undanfarinn áratug, og vel það, og leitt þær efnahagslegu framfarir sem orðið hafa á Íslandi. Íslendingar hafa það betra en áður og leiðin liggur upp á við, svo framarlega sem aðrar reikniaðgerðir verða ekki of mikið áberandi í lokajöfnunni. Margföldunin getur unnið með flestum reikniaðgerðum, nema Mínusnum, sem getur snúið öllu á verri veg, bara með því að skipta sér af. Margföldunin þarf helst að gæta þess að láta ekki eingöngu til sín taka þar sem þegar eru fyrir stórar summur, heldur einnig nota krafta sína til að byggja upp þær minni.

DEILINGIN: Vinstri grænir. Deilingin þolir illa að sjá stórar tölur og leggur sig fram um að fletja allt út. Þetta er ókostur þegar allt stefnir upp á við, en getur verið ágætt þegar allt stefnir niður á við. Þegar allt er í góðum gír er best að halda deilingunni fyrir utan völlinn, því hún getur veitt ágætt aðhald með hótunum sínum um að láta til sín taka þar sem hún getur hæglega klofið stórar summur niður hratt og örugglega. Það er öruggast að hleypa henni ekki að, nema þá í félagi með margfölduninni. Sögulega hefur þessum tveimur reikniaðgerðum hins vegar gengið illa að ná saman.

PLÚSINN: Sennilega er lætur næst að Framsókn leiki hlutverk plússins – allavega nú um stundir. Plúsinn bætir oft litlu við þegar margföldunin lætur að sér kveðja á annað borð, en getur þó hjálpað til við að hækka útkomuna. Gallinn við plúsinn er hins vegar að hann getur verið haldinn stórmennskubrjálæði og telur sig á stundum geta gert jafnmikið og margföldunin. Það eru hins vegar í flestum tilfellum óraunhæfir draumar, en stöku sinnum þó, tekst plúsnum að framkvæma drauma sína. Annar stór galli við plúsinn er sá, að ef lóðrétti bitinn í honum hrynur, þá stendur ekkert eftir nema mínus.

MÍNUSINN: Samfylkingin er mínus. Mínusinn dregur hlutina niður, eins og reyndar deilingin, en munurinn er sá að deilingin getur ekki látið það sem stefnir upp á við, fara niður á við. Mínusinn getur, með því einu að sýna sig, snúið öllu á verri veg. Að auki veit mínusinn stundum ekki hvaða áhrif hann hefur á útkomuna. Hann getur bara haft góð áhrif á aðra neikvæða útkomu. Tveir mínusar gera að vísu plús, en það þýðir um leið að Samfylkingin getur í mesta lagi orðið önnur Framsókn eins og ástandið er hjá þeim núna. M.ö.o. “þar sem tveir mínusar koma saman… þar er plús.”

Öðru hvoru skjóta aðrar reikniaðgerðir upp kollinum, en eru þá alltaf einhvers konar sambræðingur af hinum reikniaðgerðunum. Frjálslyndir spruttu upp af margföldun, en hafa nú fengið til liðs við sig reikniaðgerðir frá ýmsum áttum og eru sennilega næst því að vera Modulus* aðgerð. Það er, mest í að höndla með afganga héðan og þaðan. Modulus er hins vegar ekki hreinræktuð reikniaðgerð og er, eins og áður sagði, samansett úr hinum reikniaðgerðunum. Kannski liggja möguleikar Frjálslyndra frekar í því að vera svigi.

Það verður gaman að sjá hver niðurstaðan verður eftir kosningar í vor. Vonandi verður sú stjórnmálajafna sem kemur út úr kosningunum í vor landi og þjóð til heilla.

Fyrirvari: Höfundur er hvorki stærðfræðingur né stjórnmálaspekingur.

Latest posts by Birgir Hrafn Hafsteinsson (see all)