Um samræmd próf

Samræmd próf eru orðin hornsteinn í stefnu Bandaríkjastjórnar í menntamálum. Mjög skiptar skoðanir eru um ágæti slíkra próf í Bandaríkjunum.

Á sunnudaginn birtist í The New York Times afskaplega áhugaverð grein um samræmd próf í Bandaríkjunum. Mikil umræða hefur átt sér stað í Bandaríkjunum á síðustu árum um leiðir til þess að bæta menntakerfið og hafa samræmd próf verið áberandi þáttur í þeirri umræðu. Margir telja að aukin notkun samræmdra prófa sé besta leiðin til þess að bæta menntakerfið og hefur það leitt til þess að þó nokkur fylki hafa aukið til muna hlutverk slíkra prófa. Á síðasta ári tókst Bush forseta að koma í gegn frumvarpi um menntamál sem skyldar öll fylki til þess að nota samræmd próf í 3.-8. bekk grunnskóla. Með þessum lögum urðu samræmd próf einn af hornsteinunum í menntastefnu alríkisstjórnarinnar.

Þrátt fyrir gríðarlega aukningu í notkun samræmdra próf í Bandaríkjunum á síðustu árum eru Bandaríkjamenn langt frá því að vera á einu máli um ágæti slíkra prófa. Stór hópur fólks er afskaplega mótfallinn samræmdum prófum, aðallega á tveimur forsendum. Annars vegar eru margir sem telja að allt of mikill skólatími fari beint eða óbeint í að læra undir prófin. Hins vegar eru margir sem telja að prófin séu tímaeyðsla fyrir stóran hluta barna í skólum sem hvort eð er gera meiri kröfur en prófin gera.

Það kemur kannski ekki á óvart að stærstur hluti þess fólks sem er mótfallið samræmdum prófum er fólk sem býr í efnuðum úthverfum þar sem skólarnir eru fyrsta flokks. En eins og flestir vita eru ekki allir skólar í Bandaríkjunum fyrsta flokks. Margir bandarískir skólar eru svo slakir að meðalnemendur ná ekki tökum á grundvallaratriðum eins og lestri og reikningi. Mikill meirihluti fólks sem kemur frá hverfum með slíka skóla er fylgjandi samræmdum prófum þar sem þau veita nemendum og kennurum utanaðkomandi hvata til þess að standa sig vel. Af grein New York Times að dæma er engin spurning að í slökum skólum hefur innleiðing samræmdra prófa veruleg jákvæð áhrif á færni nemenda í lestri, reikningi og stíl.

Þegar ég var í menntaskóla var ég mótfallinn upptöku samræmdra prófa þar af svipuðum ástæðum og ríka fólkið í Bandaríkjunum er mótfallið samræmdum prófum. Ég verð hins vegar að viðurkenna að þegar ég lít á þetta mál í dag úr eilítið meiri fjarlægð sýnist mér samræmd próf vera í stórum dráttum af hinu góða. Það er held ég einfaldlega mikilvægara að allir læri að lesa, reikna og skrifa þolanlegan texta en að bestu nemendurnir í bestu skólunum fái nokkrar auka vikur til þess að lesa Shakespeare.

Best væri náttúrulega ef unnt væri að búa til kerfi þar sem allir gætu tekið próf við sitt hæfi. Ef til vill væri unnt að búa til kerfi þar sem nokkur próf af mismunandi þyngd væru í boði í hverju fagi og hver nemandi fyrir sig gæti valið hversu mörg og hversu þung próf hann tæki. Þá væri hægt að meta árangur bestu nemandendanna út frá árangri þeirra í erfiðu prófunum en á sama tíma nota grunnprófin til þess að halda uppi grunn gæðastöðlum innan menntakerfisins.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.