Á að banna vangadansinn næst?

Er nema að von að menn spyrji? Nú þegar sveitarstjórnir á höfuðborgarsvæðinu virðast vera komnar í keppni um að banna fólki að bera sig hvert fyrir öðru í lokuðum vistarverum, þá er þessi spurning Gunnars I. Birgissonar, bæjarfulltrúa í Kópavogi, hreint ekki svo mjög út í bláinn.

Er nema að von að menn spyrji? Nú þegar sveitarstjórnir á höfuðborgarsvæðinu virðast vera komnar í keppni um að banna fólki að bera sig hvert fyrir öðru í lokuðum vistarverum, þá er þessi spurning Gunnars I. Birgissonar, bæjarfulltrúa í Kópavogi, hreint ekki svo mjög út í bláinn. Deilurnar um nektarstaði og svokallaða „einkadansa“ í bæjarstjórn Kópavogs virðast reyndar ætla að verða skarpari og skemmtilegri en þegar sama mál var til umfjöllunar í borgarstjórn Reykjavíkur. Í Kópavogi deila menn um grundvallaratriði málsins, en ekki útfærsluatriði. Forseti bæjarstjórnar segir að stjórnvöld varði ekkert um þessi mál, en bæjarstjórinn segir nektarstaðina til lítillar prýði fyrir bæinn.

En þrátt fyrir góðan vilja og mikla málafylgju einstakra stjórnmálamanna, þá er nú blessað mannlífið einu sinni þannig að því er erfitt að stjórna til hlítar með boðum og bönnum, reglum og lögreglusamþykktum. Sjálfsagt er og í hæsta máta eðlilegt að stjórnvöld setji reglur sem banna og leggja refsingu við því að borgararnir vinni hverjir öðrum tjón. Deilurnar um nektarstaðina og einkadansinn lúta hins vegar að siðgæðisvitund manna. Siðgæðisvitund getur eðli málsins aldrei verið rétt eða röng, einungis mismunandi.

Vissulega má hafa samúð með þeim einstaklingum sem þurfa á því halda að kaupa sér kynlífsþjónustu, hvort sem það er hefðbundið vændi eða einhverjar dillingar í lokuðum klefa. Eins má hafa samúð með þeim sem slíka þjónustu veita. Hver og einn getur í hugskoti sínu þannig annað hvort fyrirlitið þessa aðila eða vorkennt þeim. En eftir stendur að um er að ræða fullorðna einstaklinga sem taka þátt í athæfinu af fúsum og frjálsum vilja. Hvert er þá verndarandlag bannsins við einkadansi? Almenn siðgæðisvitund fólks? En almenn siðgæðisvitund getur varla verið til í samfélagi þar sem einstaklingar hafa sjálfstæðan vilja og hugsun. Siðgæðisvitund er einstaklingsbundin og almenn siðgæðisvitund getur þar með varla orðið raunverulegt verndarandlag slíks banns.

Vera má að margir Kópavogsbúar séu á sama máli og bæjarstjórinn, að nektarstaðirnir séu til lítillar prýði. En eru það nægileg rök til að banna starfsemi þeirra eða að banna fólki að bera sig í lokuðum vistarverum? Ef slík „almenn siðgæðisvitund“ á að vera grundvöllur banns við einkadansi, þá er spurningin um hvort næst eigi að banna vangadans ákaflega eðlileg, því ef hægt er yfir höfuð að tala um almenna siðgæðisvitund, þá er hún í fyrsta lagi mjög óljós og í öðru lagi ákaflega breytileg frá einum tíma til annars.

Grundvallarmannréttindi eru ekki einhverjar sunnudagsreglur sem brúkaðar eru við sérstök hátíðleg tækifæri. Þeim er einmitt ætlað að vernda frelsi borgaranna fyrir slíkum hugarfarsbylgjum. Þegar menn eru á annað borð byrjaðir að hunsa þessi grundvallarmannréttindi til að halda mannlífinu innan ímyndaðra velsæmismarka, þá er ómögulegt að segja hvað mönnum dettur í hug næst – jafnvel bann við vangadansi…

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.