Ekki lengur stóryrtur smáflokkur

Landsfundur Vinstri grænna um nýliðna helgi var heldur tilþrifalítill og lágstemmdari en oft áður. Stóryrði þau sem einkenna smáflokka eiga kannski ekki lengur við að mati talsmanna flokksins, þar sem VG keppir nú í alvöru við Samfylkinguna um forystuhlutverk á vinstri væng íslenskra stjórnmála.

Það er byr í seglum Vinstri grænna um þessar mundir. Þeir njóta mikils fylgis í skoðanakönnuninni og standa nú jafnfætis Samfylkingunni á vinstri væng íslenskra stjórnmála. Fer þar saman talsverð fylgisaukna Steingríms og félaga og fylgishrun Samfylkingarinnar eftir að Ingibjörg Sólrún tók við formennsku. Í ljósi þessarar jákvæðu stöðu VG í skoðanakönnunum er eðlilegt að landsfundur þeirra um nýliðna helgi hafi hlotið nokkra athygli. Fátt nýtt kom hins vegar fram á fundinum og „málefnapakkinn“ sem formaðurinn lofaði í setningarræðunni reyndist heldur innihaldslítill.

Í málefnaáherslur VG fyrir komandi kosningar er fátt nýtt og engin nýmæli sérstaklega til bóta. Ekki kemur á óvart að nota á skattkerfið í ríkari mæli en nú er gert sem tekjujöfnunartæki og opinber þjónusta á að verða meira og minna á kostnað skattgreiðenda. Hvorugt getur talist mikil breyting frá núverandi ástandi. Heldur afdráttarlausari er yfirlýsingin um að stóriðjuframkvæmdir verði stöðvaðar. Annars er umhverfisstefna flokksins nokkuð hógvær; að forgangsraða í þágu umhverfisins, friðlýsa mikilvæg svæði og taka frumkvæði í loftlagsmálum á alþjóðavettvangi.

Í þeirri miklu baráttu sem nú á sér stað milli VG og Samfylkingarinnar um hylli íslenskra femínista ætla Vinstri grænir, afsakið, Vinstri græn, ekki að láta deigan síga. Þau ætla að gefa Jafnréttisstofu heimildir til eftirlits með fyrirtækjum og umbuna þeim fyrirtækjum sem reka virka jafnréttistefnu. Athygli vekur að hugmyndir um að lögbinda jafnt hlutfall kynjanna í stjórnum fyrirtækja hafa ekki náð fram að ganga á landsfundinum.

Af öðrum kosningaáherslum VG má nefna að taka á af ríkisfjármálunum af ábyrgð í stað óráðsíu. Ekki er gott að segja hvort hér er átt við að hverfa eigi af þeirri braut sem mörkuð hefur verið er að greiða niður skuldir í stað þess að safna þeirra, að eyða um efni fram í stað þess að skila myndarlegum rekstrarafgangi, að láta reka á reiðanum í stað þess að leggja fyrir til að mæta langtímaskuldbindingum ríkissjóðs eða að lánshæfismat ríkissjóðs verði á nýjan leik það sem það var árið 1991 – á stall með vanþróuðu ríkjum þriðja heimsins.

Í þeirri miklu baráttu sem nú á sér stað milli VG og Samfylkingarinnar um hylli íslenskra femínista ætla Vinstri grænir, afsakið, Vinstri græn, ekki að láta deigan síga.

Hin sterka staða VG í skoðanakönnunum er einkum tilkomin vegna þess að talsmenn flokksins hafa getað talað afdráttarlaust í helstu málum og stefna VG hefur almennt verið talin skýr, hvort sem það er verðskuldað eða ekki. Þetta kann að breytast nú þegar VG hyggst festa sig í sessi sem breiðfylking vinstri manna. Samfylkingunni hefur í öllu falli mistekist það ætlunarverk. Nú fyrst reynir fyrir alvöru á Steingrím og félaga.

Væntingar gætu orðið VG fjötur um fót. Verði fylgi VG umtalsvert minna í kosningunum í vor en það er um þessar mundir, mun verða erfitt fyrir forystumenn flokksins að hrósa sigri, þó svo að fylgi flokksins aukist verulega frá síðustu kosningum. Sú kosningabarátta sem framundan er mun því væntanlega einkennast mjög af baráttu VG og Samfylkingarinnar um forystuhlutverkið á vinstri vængnum. Ógjörningur er að segja til um hvernig þeirri baráttu lyktar.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)