Forsetinn verður að gæta orða sinna og athafna

Ummæli Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta, í Silfri Egils um helgina hafa vakið athygli. Þar gaf hann í skyn að forsetinn heyrði ekki undir nein ráðuneyti heldur væri nær að líta á ráðuneytin sem deild í forsetaembættinu. Forsetinn væri þjóðkjörinn og sækti aðeins umboð sitt til þjóðarinnar.

Ummæli Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta, í Silfri Egils um helgina hafa vakið athygli. Þar gaf hann í skyn að forsetinn heyrði ekki undir nein ráðuneyti heldur væri nær að líta á ráðuneytin sem deild í forsetaembættinu. Forsetinn væri þjóðkjörinn og sækti aðeins umboð sitt til þjóðarinnar. Umræðan núna um hlutverk forsetans tengist ákvörðun hans um að taka sæti í þróunarráði Indlands án þess að ráðfæra sig við utanríkisráðuneytið.

Sá skilningur sem Ólafur virðist leggja í hlutverk forsetans er varhugaverður en þó mjög í takt við annað sem frá honum hefur komið. Þannig fór hann með forsetaembættið inn á algerlega nýjar brautir þegar hann synjaði því að skrifa undir fjölmiðlafrumvarpið árið 2004. Sú ákvörðun hans var fordæmalaus og færði embætti forseta Íslands niður í svað deilna og átaka.

Það sem ruglar umræðuna er hins vegar að forsetinn gerir í því að grauta saman vinsældamálum annars vegar og því hlutverki sem honum er ætlað hins vegar. Vitandi að fjölmiðlafrumvarpið mætti mikilli andstöðu víða í þjóðfélaginu (meðal annars á þessu vefriti) ákvað hann að nýta sér þennan mjög svo umdeilda rétt sinn til að synja lögum Alþingis staðfestingar. Að sama skapi veit Ólafur að seta hans í þróunarráði Indlands er langt í frá umdeild meðal almennings. Sennilega hafa fæstir aðra skoðun á því að hann sitji í þróunarráðinu aðra en að það sé bara ágætismál. Fínt ef hann getur hjálpað til. Og vissulega er jákvætt að hjálpa til í fátækari löndum heims en hlutverk forsetans í stjórnskipun landsins má ekki þróast út frá vinsældabólum. Óháð því hvaða afstöðu almenningur hefur til þeirra mála sem forsetinn blandar sér í, verður forsetinn að virða þann bás sem ákvæði stjórnarskrárinnar markar hans embætti.

Stjórnskipun landsins grundvallast á þingræðisreglunni og að hér sitji ríkisstjórn í skjóli Alþings. Forsetinn lætur ráðherra framkvæma sitt vald og það veit Ólafur manna best sjálfur. Það er ekki forseti sem skipar ráðherra og ríkisstjórnir heldur forsætisráðherra. Það er ekki forsetinn sem fer með málefni utanríkisþjónustunnar heldur utanríkisráðherra. Það er ekki forseti sem er æðsti maður ríkisstjórnarinnar heldur forsætisráðherra. Það er því algerlega út í hött að völd forsetans séu annað en formlegs eðlis.

Það kann að vera rétt sem formaður Samfylkingarinnar bendir á í Morgunblaðinu í dag að ummæli Ólafs á sunnudaginn hafi verið í gamansömum tón og að í þau megi ekki megi leggja of mikla merkingu. En sporin hræða og ef einhver ætti að vera orðvar og gæta sín, þá er það forseti þjóðarinnar. Sérstaklega eftir að hafa sýnt ítrekaða tilburði til að útvíkka sitt hlutverk umfram það sem stjórnarskráin heimilar honum. Ef hlutverk forsetans á að verða annað og meira en gert er ráð fyrir í dag, ætti sú breyting að koma fram í stjórnarskránni en ekki með athöfnum forsetans.

Árni Helgason skrifar

Árni hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.