Allt er þegar þrennt er?

Það er fátt sem kætir íslenska þjóð líkt og Evróvision, keppnin kemur árlega eins og jólin. Tilhlökkunin fyrir Evróvision er þvílík og væntingarnar alltaf miklar, ég held raunar að í flestöll skipti sem við höfum haldið út, vorum við alveg að fara að vinna.

Það er fátt sem kætir íslenska þjóð líkt og Evróvision, keppnin kemur árlega eins og jólin. Tilhlökkunin fyrir Evróvision er þvílík og væntingarnar alltaf miklar, ég held raunar að í flestöll skipti sem við höfum haldið út vorum við að fara að vinna. Þó ung ég væri að árum þegar Ísland tók fyrst þátt í Evróvision þá kann ég Gleðibankann jafnvel og kennitöluna mína, það var lagið sem hóf þetta allt og nú fer fyrsta Evróvision stjarnan okkar út aftur til að koma sjá og sigra í Evróvision.

Eiríkur Hauksson, eða rauða faxið úr Gaggó Vest átti að sigra 1986 en það gekk ekki alveg upp og Ísland var harmi slegið því íslensku stórstjörnurnar slógu ekki í gegn. En nú skal Eiríkur sigra en þetta verður jafnframt 20 skiptið okkar í Evróvision og þannig bara við hæfi að Eiríkur taki lagið í Helsinki. Spurningin er samt mun Eiríkur geta verið sá fulltrúi Íslands sem lætur Evrópu gleyma Silvíu Nótt?

Það er erfitt að segja en Eiríkur þekkir vel til í Evróvision því hann keppti líka fyrir Noreg árið 1991 með lagið Mrs. Thompson en þá endaði hann í 17. sæti. Hann er því vel þekktur meðal Norðmanna og flestra Eurovision aðdáenda og því er mikil von að það tryggi okkur einhver 12 stig en væntanlega bara ef hann nær að láta fólk gleyma Silvíu okkar.

En ef litið er á sögu Eiríks og Íslands í þessari keppni er ekki mikil von fyrir okkur því fram til ársins 2004 er meðal stigafjöldi okkar aðeins rúm 45 og meðal árangur Eiríks er aðeins tæp 17 stig.

En hvað þurfum við þá að gera til að vinna? Eða bara til þess að komast upp úr þessari blessaðri forkeppni? Við erum búin að senda út Selmu aftur í þeirri von að hún myndi skína eins og þegar hún náði 2. sæti en ekki tókst það, síðan sendum við út fígúruna Silvíu Nótt og það sló okkur svo sannarlega út af laginu því hún varð bara ekki eins vinsæl úti og hér. Nú er komið að Eiríki Hauks til að reyna sitt að koma okkur upp úr forkeppninni. Mun rauðhærði rokkarinn koma okkur upp úr lægðinni?

Evróvision-manían verður líklega ekki minni en hún hefur verið hin 19 skiptin en hún náði vissulega hámarki þegar Selma fór út árið 1999. Þá var ótrúlegasta fólk að missa sig yfir því hvernig Evrópa gat gefið silikonbombunni fleiri stig en Selmu okkar. Þetta sama fólk hafði gefið sig út fyrir það að horfa aldrei á þessa keppni en sagan segir líka að nokkur sjónvörp hafi fengið að fjúka út um glugga þegar ljóst var að Selma var ekki á leið heim með bikarinn.

Vonandi fjúka engin sjónvörp en gaman væri að fá bikarinn heim.

Áfram Eiríkur Rauði!

Latest posts by Stefanía Sigurðardóttir (see all)

Stefanía Sigurðardóttir skrifar

Stella hóf að skrifa á Deigluna í nóvember 2004.