Mikilvægur áfangi á Kóreuskaga

Norður-Kórea hefur gengið að samningaborði í sex ríkja deilunni vegna kjarnavopnaeignar og framleiðslu landsins. Skiptar skoðanir eru um þennan bráðabirgðasamning og telja sérfræðingar Norður-Kóreu fá heldur mikið fyrir sinn snúð. Aðrir segja tímamótabreytingu í stefnu stjórnar Bush.

Norður-Kórea hefur gengið að samningaborði í sex ríkja deilunni vegna kjarnavopnaeignar og framleiðslu landsins. Skiptar skoðanir eru um þennan bráðabirgðasamning og telja sérfræðingar Norður-Kóreu fá heldur mikið fyrir sinn snúð. Aðrir segja tímamótabreytingu í stefnu stjórnar Bush.

Bráðabirgðasamningur náðist við Norður-Kóreu síðastliðinn þriðjudag um að loka kjarnaofninum í Pyongyang og leyfa þar alþjóðlegt kjarnorkueftirlit. Segja má að samningurinn marki tímamót í þeirri miklu deilu sem ríkin sex, Bandaríkin, Rússland, Suður-Kórea, Kína og Japan ásamt Norður-Kóreu hafa átt í meira en þrjú ár. Vonir standa nú til að þetta séu fyrstu skrefin í átt til þess að Norður-Kórea hætti að smíða kjarnavopn.

Hvað kemur til að samið er nú?

Samningaferlið nú tók sex daga. Þegar niðurstöðu var náð sættust Norður-Kóreumenn á að loka kjarnaofninum í Pyongyang innan sextíu daga ásamt því að leyfa Alþjóðakjarnaorkumálastofnuninni (IAEA) að hafa eftirlit með ferlinu. Á móti fær Norður-Kórea andvirði 400 milljóna dollara í eldsneytis og olíuaðstoð. Sú upphæð jafngildir rúmum 27 milljörðum íslenskra króna og kann einhverjum að þykja hún duga skammt. Samt sem áður er hún rúmar þúsund krónur á mann í Norður-Kóreu sem telur um 23 milljónir manna. Til lengri tíma litið hefur Norður-Kóreu verið lofað efnahags-, orku- og mannúðaraðstoð að jafnvirði milljón tonna af hráolíu. Þetta fær Norður-Kórea gegn því að afhenda lista með öllum kjarnorkuáformum sínum og loka öllum kjarnorkustöðvum.

En ekki er öll sagan sögð. Þeir eiga þegar plúton og ekki er ætlunin – eins og stendur – að eyða því. Þeir eiga sprengjur og ekkert í fyrsta áfanga samninganna fjallar um að þeir losi sig við þær undir eftirliti. Þá er það talið víst að þeir hafi auðgað úran sem nota má í sprengjur en þeir hafa ekki viljað viðurkenna það. Það er því ljóst að með tímanum þarf að fá þá til að losa sig við það. Þegar þeir hafa hætt plúton framleiðslu innan tveggja mánaða eiga þeir að birta allar upplýsingar um kjarnorkuver og kjarnorkurannsóknir, borgaralegar og hernaðarlegar. Ef þeir gera það fá þeir hátt í eina milljón tunna af olíu.

Meira sem býr að baki

En það er annar hvati fyrir Norður-Kóreu í þessu máli. Christopher Hill, aðalsamningamaður Bandaríkjanna í deilunni, hefur lýst því yfir að land hans muni „leysa“ mál sem hafi verið ein aðalástæðan fyrir spennunni milli Bandaríkjanna og Norður-Kóreu. Það mál verði leyst innan þrjátíu daga. Málið varðar refsiaðgerðir Bandaríkjamanna gegn banka í Macau árið 2005. Bankinn var samsekur í ólöglegum millifærslum til Norður Kóreu og brugðu Bandaríkjamenn því á það ráð að frysta 24 milljónir dala eða 1,6 milljarða íslenskra króna af innlánum Norður-Kóreumanna. Bandaríkjamenn hafa ekki gefið það út hvernig málið verði leyst en fregnir herma að til þess að þóknast Norður-Kóreu verði hluti þessarar upphæðar losaður.

Christopher Hill sagðist hafa verið í sambandið við Condollesu Rice meðan á samningaviðræðunum stóð og var hann þess fullviss að samningurinn myndi falla Bandaríkjastjórn í geð. Verði svo þá má segja að kúvending hafi orðið á stefnu Bush en í Hvíta húsinu hefur verið rifist um það hvort semja ætti við Norður-Kóreu eða þrengja svo hart að stjórn landsins að hún gæfi sig. Þá hafa mikilvægir menn á bandi Dick Cheney verið harðir á því að veita Norður-Kóreu enga aðstoð fyrr en þeir losi sig við vopnabúr sitt.

Gary Samore, aðalsamningamaður við Norður-Kóreu í stjórn Clintons hrósaði stjórn Bush fyrir að semja en sagði jafnframt að þetta væri þremur árum, átta sprengjum og einni kjarnorkusprengjutilraun of seint – en þó betra seint en aldrei.

Kína á stóran hlut að máli

Þrátt fyrir að Kína hafi verið bandamaður norðursins í Kóreustríðinu og einn helsti verndari til margra ára þá voru það þeir sem þrýstu á Norður-Kóreumenn að ganga að samningaborðinu. Haft var eftir kínverskum embættismanni rétt áður en skrifað var undir að ef Norður-Kóreumenn gengju á bak orða sinna þá væru þeir að pota fingrum sínum í augu Kínverjanna.

The Economist gerir nánast lítið úr samningnum og segir svo lítið hafa gerst á þessum þremur árum sem sex ríkja viðræðurnar hafa staðið yfir að hið minnsta valdi stórum fyrirsögnum í dagblöðum. Þó verði að viðurkenna að nú hafi einhver árangur náðst en deilunni sé langt í frá lokið.

Bæði Bandaríkin og Japan hafa sammælst um að leita leiða til þess að koma á eðlilegum samböndum milli ríkjanna og Norður-Kóreu. Bandaríkjamenn segjast ætla að hefja það ferli með því að taka Norður-Kóreu af lista þeirra þjóða sem sagðar eru styðja hryðjuverkamenn ásamt því að aflétta viðskiptabanni við ríkið.

Á tímabili var allt útlit fyrir að samningaviðræður myndu mistakast vegna kröfu Norður-Kóreu um loforð fyrir enn frekari orkuaðstoð. Að lokum var sæst á að veita þá aðstoð gegn því að öll kjarnorkuvinnsla yrði stöðvuð. Banaríkin, Kína, Rússland og Suður-Kórea hafa sæst á að veita aðstoðina. Japan, sem á í deilum við Norður-Kóreu vegna mannráns þeirra á japönskum borgurum milli áranna 1970 til 1980, vildi ekki vera með.

Langt í land

Það er ljóst að enn er langt í land og fjöldinn allur af samningaviðræðum eftir. Taka þarf viðræður við Norður-Kóreu skref fyrir skref því byggja þarf upp traust við þjóðina. Næsti veggur til að klífa í þessum samningaviðræðum verður að ákveða hvað skuli gera næst. Bandaríkjamenn vilja að öllum kjarnorkuverksmiðjum verði lokað. Norður-Kóreumenn hafa hins vegar ekki viljað gefa út að þeir séu tilbúnir að ganga svo langt, né heldur viðurkenna þeir að búa yfir áætlunum um frekari auðgun úrans. Þetta segja þeir þrátt fyrir að Bandaríkjamenn hafi fyrir því skýrar sannanir frá því árið 2002 en það var einmitt deilan um úranið sem leiddi til þeirrar deilu sem nú stendur yfir milli ríkjanna sex.

Takmarkinu náð?

Það má segja að Norður-Kóreu hafi tekist ætlunarverk sitt. Frá því upp komst um kjarnorkuvopnaáætlun þeirra hefur landið reynt að nota þessa ógn sína sem skiptimynt til þess að knýja fram viðurkenningu og aðstoð annara ríkja. Það er því rík ástæða til hóflegrar bjartsýni þegar Norður-Kórea á í hlut. Þeir hafa gjarnan sett fram nýjar kröfur á síðustu stundu sem hamla þá frekari árangri í samningaviðræðum. Það er jafnframt ástæða til að hafa varann á því gagnrýnisraddir hafa verið uppi að það séu mistök að verðlauna kjarnorkuframleiðslu jafn ríkulega og raun ber vitni. Slíkt geti verið hvati fyrir aðrar þjóðir að gera slíkt hið sama.

– KMB

Kristín María Birgisdóttir
Latest posts by Kristín María Birgisdóttir (see all)

Kristín María Birgisdóttir skrifar

Kristín María hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2005.