Heilög Jóhanna, utanbæjarmenn og fjölgun mannkyns

Jóhanna Sigurðardóttir stendur nú á hátindi ferils síns. Pólitískt líf hennar hefur loks öðlast tilgang og merkingu með uppsögnum þriggja bankastjóra.

Jóhanna Sigurðardóttir stendur nú á hátindi ferils síns. Pólitískt líf hennar hefur loks öðlast tilgang og merkingu með uppsögnum þriggja bankastjóra.

Jóhanna þessi, sem nú hreinsar musterið af allri spillingu, var einu sinni ráðherra. Hún var ráðherra í sjö ár og á þeim tíma tók hún verulegan þátt í stjórn landsins. Hún hafði tækifæri í sjö ár til að láta gott af sér leiða í einu stærsta ráðuneyti ríkisins en afrek hennar þar eru nú öllum gleymd, því miður. Jóhönnu verður einungis minnst sem fyrsta þingmannsins sem helgaði sig algjörlega rannsóknarblaðamennsku; sem einsetti sér að koma í veg fyrir að spilltir karlar héldu áfram að sukka. Og það er auðvitað gott hjá Jóhönnu…

Akureyringar líta hornauga flest sem kemur að sunnan. Þessi tortryggni kemur hvað sterkast fram þegar Akureyringar taka sér orðið utanbæjarmenn í munn. Oftar en ekki, þegar fréttir berast af einhverjum ólátum í höfuðstað Norðurlands, er haft eftir varðstjóra lögreglunnar á Akureyri að þar hafi utanbæjarmenn verið á ferðinni. Hins vegar virðast þessir hræðilegu utanbæjarmenn hvergi vera til nema á Akureyri, alla vega heimsækja þeir aðra bæi landsins ekki af jafn miklu kappi og Akureyri…

Það er kunnara en frá þarf að segja, að Íslendingar eru of fáir. Fjölgun þjóðarinnar er brýn og því er það gleðiefni að segja frá því, að ritstjóri Deiglunnar hefur lagt sitt af mörkum til að fjölga þessari ágætu þjóð. Frumburðurinn mun fæðast í kringum 15. september og verður sá viðburður áreiðanlega tilefni sérútgáfu Deiglunnar.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.