Eftirlitsmyndavélar með veggjakroti

Þó það sé hægt að réttlæta hvert og eitt skref á leiðinni er óréttlætanleg sú átt sem skrefin feta. Það væri ömurlegt að búa í miðborginni ef eftirlitsmyndavélar fylgdust með hverju fótmáli fólks. Það vill enginn vera fangi í miðborginni þó að hún sé öruggari. Líf án frelsis er ekki fýsilegt, þó það sé öruggt.

Krot eða listaverk?
Þetta er gott dæmi um myndir sem eru víða í miðborginni. Í barnslegum huga sveitastúlkunnar er þetta nú frekar illa gert krot sem hefði ekki fengið háa einkunn í myndmennt.

Það er sérkennilegt fyrir sveitastelpu að flytjast í miðborg Reykjavíkur. Upp koma margvísleg vandamál sem áður voru vart til í hennar huga áður en hún flutti úr sveitasælunni. Sírenuhljóð hljóma í eyrum hennar oft á dag, sífelldur kliður frá götum borgarinnar og ómur frá öldurhúsunum fram á rauðan morgun. Það að fólk sé að athafna sig á ýmsa vegu fyrir framan útidyrahurð hennar var þó líklega eitt af því merkilegra sem hún hefur lent í.

Í sveitinni fer fólk ekki upp að útidyrahurð húss þíns nema eiga þar sérstakt erindi. Í miðborginni er þín eigin útidyrahurð hins vegar eins konar almenningseign. Sveitastelpan þurfti því að glíma við ýmsar aðstæður við útidyrahurðina sem hún hefur ekki lent í áður.

Hvað varð um klósett og striga?!?

Það að fólk hafi þvaglát beint fyrir framan hurð þína í miðborginni þykir sumum til dæmis ekkert tiltökumál. Í sveitinni fór maður þó út á tún eða bak við hól.

Þetta er þó ekki það sérkennilegasta. Það skrítnasta þótti henni þegar ungir nýlistamenn, svokallaðir veggjakrotarar, voru að tjá sig fyrir framan útdyrnar hennar. Þeir voru að lita og krota á veggina. Er ekkert uppeldi á þessum borgarbörnum? Þau bæði krota og pissa á veggina og útidyrahurðina hjá henni.

Líka krotað á löggur

Sveitastúlkur eru hins vegar ekki þær einu sem lenda í svona bobba. Meira að segja sjálf lögreglan lendir í þessu. Um síðustu helgi krotuðu nýlistamenn á útidyrahurð lögreglustöðvarinnar við Hverfisgötu. Þetta olli lögreglunni miklum vandræðum, því nú þurftu þeir að mála og þrífa hurðina sína, rétt eins og sveitastúlkan. Morgunblaðinu þótti þetta meira að segja frétt. Ekki mætir Mogginn og tekur viðtal við alla miðborgarbúa um hverja helgi þegar búið er að pára og pissa allt út hjá þeim en ætli fréttapunkturinn hafi ekki líka fremur verið viðbrögð lögreglunar en athæfið sjálft. Lögreglan segist nefnilega ætla að grípa til þess ráðs að setja upp eftirlitsmyndavélar fyrir framan útidyrahurð sína til þess að góma nýlistamennina.

Það er verið að fylgjast með þér!
Þó að nauðsynlegt sé að hafa eftirlit með því að lögum og reglum sé framfylgt er línan á milli frelsis og helsis fín og fáir vilja lifa í fangelsi, þó þar séu þeir öruggir.

Eftirlitsmyndavélar, lausn vandans?

Nú skal það tekið skýrt fram að eigendur fasteigna í miðbænum telja þetta hvimleiðan vanda. Það vilja fáir láta krota á fasteign sína. En hvað á til bragðs að taka? Á að setja myndavélar út um allan bæ í þeim tilgangi að reyna að góma nýlistamennina? Á lögreglan ein að gera það? Hvað þá með sveitastúlkuna? Á lögreglan líka að fylgjast með að ekki sé krotað á útidyr hennar? Vill hún að lögreglan fylgist með útidyrahurðinni sinni? Í sveitinni var það nú bara hundurinn sem sá um það, ekki lögreglan.

Að setja upp eftirlitsmyndavélar leysir kannski einhvern vanda, ef til vill myndu einhverjir hætta við að krota þegar þeir sæju eftirlitsmyndavél. Það er án efa hægt að færa rök fyrir því að aukið eftirlit lögreglunnar með eftirlitsmyndavélum leiði til einhvers ábata fyrir einhverja.

Hvernig væri að búa í miðbænum ef öryggismyndavélar fylgdust með hverju fótmáli okkar? Hver er á bak við myndavélarnar? Hver ætti að stjórna því hver er á bak við öryggismyndavélarnar? Erum við örugg með að þær séu ekki misnotaðar?

Það sem sveitastúlkan hefur ákveðið að gera er því að setja ekki upp öryggismyndavélar. Hún vill nefnilega geta farið út með ruslið um miðja nótt í náttbuxunum án þess að lögreglumaður sé að fylgjast með henni. Hægt er að kaup svokallað „silicon spray“ en það virkar þannig að þegar því hefur verið sprautað á vegginn loðir krot nýlistamannanna ekki við vegginn og hún getur bara spúlað listaverkin af um leið og hún sápuþvær pissufýluna í burtu.

Þó það sé hægt að réttlæta hvert og eitt skref á leiðinni er óréttlætanleg sú átt sem skrefin feta. Það væri ömurlegt að búa í miðborginni ef eftirlitsmyndavélar fylgdust með hverju fótmáli fólks. Það vill enginn vera fangi í miðborginni þó að hún sé öruggari. Líf án frelsis er ekki fýsilegt, þó það sé öruggt.

Latest posts by Kristín Hrefna Halldórsdóttir (see all)