Af hverju þetta væl?

Fyrirsögnin á leiðara nýjast heftis vikublaðsins The Economist gæti allt eins verið beint til Íslendinga. Titilinn er You´ve never had it so good og fjallar greinin um hvernig það megi vera þrátt að fyrir alla velgegni Breta á nær öllum sviðum samfélagsins þá eru þeir samt sem áður óánægðir og fúlir. Þetta hljómar eitthvað kunnuglega.

Fyrirsögnin á leiðara nýjast heftis vikublaðsins The Economist gæti allt eins verið beint til Íslendinga. Titilinn er You´ve never had it so good og fjallar greinin um hvernig það megi vera þrátt að fyrir alla velgegni Breta á nær öllum sviðum samfélagsins þá eru þeir samt sem áður óánægðir og fúlir. Bretar eru leiðir á pólitíkinni í landinu. Þeir eru óánægðir með hækkandi vexti og gjöld, áhyggjufullir yfir minnkandi samkennd meðal þjóðarinnar og óttaslegnir vegna mögulegrar hættu á hryðjuverkum. Þess fyrir utan eru þeir pirraðir vegna Íraksstríðsins og þola ekki George Bush. Til að toppa lélega stemmningu þá vinnur krikketliðið þeirra aldrei neitt. Í stað krikkets mætti setja handbolta og í stað hryðjuverka mætti fjalla um útlendinga og þá væri hér á ferð ágætlega hraðsoðinn lýsing á íslensku þjóðarsálinni.

The Economist telur hins vegar þetta svokallaða þunglyndi Breta einkennilegt. Ótrúleg velsæld hefur blásið um Bretland síðustu 14 ár. Atvinnuleysi er í sögulegu lágmarki, samfélagslegar umbætir hafi verið gríðarlegar til jafnt við efnahagslegt góðæri. Færri börn og ellilífeyrisþegar búa við fátækt en fyrir 10 árum og glæpatíðni hefur lækkað svo eitthvað sé nefnt. Hið sama má segja um íslenskt samfélag. Við höfum aldrei fyrr haft það eins gott og nú. En þrátt fyrir þessa velgegni og hagsæld eiga þessar tvær eyþjóðir það sameiginlegt að ákveðin órói er meðal almennings með ástand mála. Í Bretlandi er það, sögn The Economist, vegna áhrifa alþjóðavæðingarinnar á breskt samfélag og minnst er sérstaklega á fjölgun útlendinga sem gert hafa stórkostlega hluti fyrir efnahagslífið. Svipaða sögu má segja um Ísland og við getum lært ýmislegt af þeirri umræðu sem fram fer í Bretlandi um málefni útlendinga.

Engin lausn er fullkomin en ágætis byrjun er að hætta að skipta íbúum landsins upp í tvo hópa; Íslendinga og útlendinga. Þannig er hægt að efla þá hugsun að samfélagið samanstendur af einstaklingum sem allir eru jafnir fyrir lögum og eiga að njóta sömu tækifæra. Trúarbrögð eða tungumál koma þar lítið við sögu enda trú einstaklingsbundinn og tungumál einungis tæki til samskipta. Aðalatriði er að draga fólk ekki í dilka eftir því hvaða trú það aðhyllist eða tungumál það talar. Þá fyrst er farið að búa til útlendingavandamál.

Það sem fyrst og fremst sameinar íbúa þessa lands eru lögin. Á Íslandi gilda íslensk lög og hverjum og einum ber að fara eftir íslenskum lögum. Á Íslandi eru ekki leyft að berja börn eða þvinga konur til að bera slæður. Hér ríkir trúfrelsi og tjáningarfrelsi þannig ekki er hægt að meina mönnum að virða skoðanir sínar eða boða hvaða vitleysistrú sem er innan ramma laganna. Hér ríkir atvinnufrelsi og enginn getur meinað öðrum að vinna í verðbréfafyrirtæki eða frystihúsi. Það sem meira er – lögin tryggja hverjum og einum ákveðin réttindi. Réttindi til skólagöngu, heilsugæslu og almanntrygginga svo eitthvað sé nefnt.

Punkturinn með þessari röksemdafærslu er að benda á að það sem sameinar Íslendinga er ekki endilega tungumálið, litarhátturinn eða trúarbrögðin heldur sú samfélagsgerð sem allir búa við og það eru lögin lýsa skipulagi samfélagsins. Það fer svo eftir samskiptum einstaklinga á milli hvaða siðir og venjur myndast. Vilji núverandi íbúar Íslands tryggja að ákveðnar venjur og siðir haldi sér er að þeirra að axla ábyrgð á því að nýjum íbúum sé gert kleift og gefið tækifæri til að tileinka sér þá siði og venjur. Þessi kynning á siðum og venjum gengur sem betur fer í báðar áttir.

Það er ekki mikil reisn yfir því að væla út af engu eða geta ekki umborið viðleitni annarra til að sækjast eftir betri lífskjörum. Hættum því þessu væli um að hér sé allt að fara í hundana vegna þessa að hingað hafa komið einstaklingar sem vilja leggja sitt af mörkum að búa til betra samfélag. Við höfum aldrei haft það eins gott og aldrei haft betri tækifæri til að gera gott enn betra.

Latest posts by Teitur Björn Einarsson (see all)

Teitur Björn Einarsson skrifar

Teitur hóf að skrifa á Deigluna í febrúar 2006.