Ánægjuleg vinstrivilla SUS

Sem betur fer virðist SUS eitthvað vera farið að linast í frjálshyggjunni. Nýjar ályktandir sambandsins frá því um síðustu helgi hefðu fyrir nokkrum árum þótt hin versta vinstrivilla.

Um síðustu helgi var haldið málefnaþing á vegum Sambands ungra sjálfstæðismanna. Eins og gengur og gerist á slíkum málefnaþingum var talsvert af ályktunum um æskilega stefnu stjórnvalda samþykktar. Það sem kemur helst á óvart þegar þessar ályktanir eru lesnar er að hin mjög svo ákveðna frjálshyggja sem SUS hefur boðað á síðustu árum virðist eitthvað vera að linast.

Þetta eru svo sannarlega gleðileg tíðindi fyrir Sjálfstæðiflokkinn. Stefna SUS hefur á undanförnum árum einkennst af kreddu og trúarofsa. Frjálshyggja hefur verið boðuð innan SUS eins og um trúarbrögð væru að ræða. Fólk hefur keppst um það hver væri hreinastur í trúnni og þeim sem skrikar fótur í frjálshyggjunni hafa verið sakaðir um vinstrivillu. Nokkur ár eru síðan þessi þróun fór algerlega út fyrir öll skynsemismörk. Síðan þá hefur í mörgum málum verið lítið mark takandi á samtökunum. Ályktanir þeirra hafa hvorki verið raunhæfar né skynsamlegar. Þeim mun verra er að þær hafa ekki verið vel út hugsaðar. Lausnin hefur alltaf verið einföld: Meira frelsi, meira frelsi.

En nú virðist þetta eitthvað vera að breytast. Ég tek sérstaklega eftir því að nú leggur SUS til að tekjuskattar á einstaklinga verði lækkaðir niður í 30%. Fyrir tveimur árum hefði þetta þótt hin versta vinstrivilla. Þá var samþykkt ályktun um að tekjuskattar á fyrirtæki og einstaklinga skyldu afnumdir með öllu. Þá var því einnig haldið fram að Íslendingar gætu haft svo „ótrúlegan hag” af afnámi tekjuskatta að slík aðgerð myndi ekki einu sinni framkalla fjárlegahalla. Þessi ályktun varð til þess að ég skrifaði grein hér á Deigluna sem bar heitið Voodoo-hagfræði SUS og síðan aðra sem ég nefndi Enn um Voodoo-hagfræði SUS.

Annað sem ég tók eftir var að nú stefnir SUS að því að almannatryggingar verði færðar inn á frjálsan tryggingamarkað að hluta. Síðast var ályktað um að leggja ætti niður Tryggingastofnun Ríkisins með öllu. Sjálfur tel ég æskilegt að ríkið sjái um að veita þegnum sínum sjúkratryggingar. Ég hef fært rök fyrir þessu hér á Deiglunni í greininni: Kostir ríkisrekins sjúkratryggingakerfis. En þessi áherslubreyting SUS er samt sem áður ánægjuleg.

Margt fleira hefur breyst í ályktunum SUS og flest til betri vegar. Ég vil hvetja alla lesendur Deiglunnar til þess að kynna sér hina nýju stefnu SUS á vef sambandsins.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.