Leikrit í Laugardalnum

Þjálfaramál íslenska landsliðsins í knattspyrnu taka sífellt óvæntari stefnu. Í Morgunblaðinu í morgun gefur Eggert Magnússon, formaður KSÍ, í skyn að Atli Eðvaldsson komi ekki síður til greina í starf landsliðsþjálfara en Guðjón Þórðarson. Deiglan hefur áður fjallað um frábæran árangur landsliðsins undir stjórn Guðjóns og ljóst er að algjör kúvending hefur orðið eftir að hann tók við starfi landsliðsþjálfara síðla sumars 1997.

Þjálfaramál íslenska landsliðsins í knattspyrnu taka sífellt óvæntari stefnu. Í Morgunblaðinu í morgun gefur Eggert Magnússon, formaður KSÍ, í skyn að Atli Eðvaldsson komi ekki síður til greina í starf landsliðsþjálfara en Guðjón Þórðarson. Deiglan hefur áður fjallað um frábæran árangur landsliðsins undir stjórn Guðjóns og ljóst er að algjör kúvending hefur orðið eftir að hann tók við starfi landsliðsþjálfara síðla sumars 1997.

Þrátt fyrir þessa umbyltingu – eða ættum við kannski öllu heldur að segja vegna hennar – virðist ekki mikill vilji hjá forystu KSÍ til að halda Guðjóni Þórðarsyni við stjórnvölinn. Til marks um það viljaleysi má nefna, að formaður KSÍ hefur samkvæmt heimildum Deiglunnar enn ekki gert Guðjóni Þórðarsyni tilboð, á sama tíma og hann hamrar á því í fjölmiðlum að málið sé að falla á tíma. Á hádegi í dag [föstudag] var enn ekki komið fram tilboð frá KSÍ og samt segir formaðurinn að ganga verði frá málinu um helgina. Líklega leggur formaður KSÍ fram málamyndatilboð á fundi sínum með Guðjóni í dag.

Deiglan virðir vissulega rétt Knattspyrnusambands Íslands til að velja sér þjálfara. Forysta sambandsins á þá að greina frá þeim vilja sínum opinskátt og rökstyðja ákvörðun sína. Það er hins vegar lítilmannlegt að bera fyrir sig utanaðkomandi aðstæður til þess að þurfa ekki að rökstyðja valið.

Samkvæmt óstaðfestum heimildum Deiglunnar er tilboð það sem Atli Eðvaldsson er með í höndunum frá KSÍ mun hærra en það tilboð sem Eggert Magnússon hyggst leggja fyrir Guðjón Þórðarson í dag. Ef rétt reynist sýnir það enn frekar einbeittan vilja forystu KSÍ til að ganga framhjá Guðjóni við ráðninguna. Þannig á að stilla núverandi landsliðsþjálfara upp við vegg og síðan ætlar formaður KSí að birtast þjóðinni eftir helgina til að skýra frá því að KSÍ hafi ekki ráðið við launakröfur Guðjóns Þórðarsonar. En hvernig stendur á því að sambandið getur borgað Atla Eðvaldssyni hærri laun en Guðjóni Þórðarsyni? Það verður fróðlegt að heyra skýringar Eggerts Magnússonar á því.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.