Útsmogin aðferðarfræði I

Það er þekkt aðferð útsmoginna stjórnmálamanna að eigna sér heiðurinn af málum sem verið að koma í höfn. Röskva, ungliðahreyfing Samfylkingarinnar í Háskóla Íslands, leikur nú þennan leik í tengslum við kjör námsmanna hjá LÍN. Röskvuliðar hafa síðustu daga eytt miklu púðri í að krefjast nýrrar könnunar á grunnframfærslu stúdenta og óhikað haldið því fram að stjórnvöld vilji ekki gera slíka könnun.

Það er þekkt aðferð útsmoginna stjórnmálamanna að eigna sér heiðurinn af málum sem verið að koma í höfn. Röskva, ungliðahreyfing Samfylkingarinnar í Háskóla Íslands, leikur nú þennan leik í tengslum við kjör námsmanna hjá LÍN. Röskvuliðar hafa síðustu daga eytt miklu púðri í að krefjast nýrrar könnunar á grunnframfærslu stúdenta og óhikað haldið því fram að stjórnvöld vilji ekki gera slíka könnun.

En eins og ungliðarnir í Röskvu vita mæta vel, þá er vinna við slíka könnun þegar hafin. Menntamálaráðherra lét eftirfarandi orð falla í fyrirspurnatíma á Alþingi fyrir nokkru:

„Hv. þm. spyr hvort ég muni beita mér fyrir könnun á grunnframfærslu námsmanna. Þegar í maí sl. fól stjórn lánasjóðsins sérstökum starfshópi sínum að gera tillögur í þessu efni. Hann fjallar um framfærslugrunn námsmanns í leiguhúsnæði. Þar verði tekið mið af meginflokkum neyslukönnunar Hagstofu Íslands og tillögum fulltrúa námsmannahreyfinganna í stjórn lánasjóðsins. Er það stefna stjórnar sjóðsins að frá og með vori árið 2000 verði stuðst við þennan grunn við árlega endurskoðun grunnframfærslu lánasjóðsins að teknu tilliti til meðaltekna lánþeganna. Lánasjóðurinn aflar sjálfur upplýsinga um meðaltekjur og meðalleigukostnað lánþega. Varðandi aðra liði í framfærslukostnaði verða skilgreind eðlileg viðmið til að ákvarða lágmarkskostnað með hliðsjón af framfærslutölum Hagstofu Íslands. Starfshópur stjórnar lánasjóðsins sem vinnur að þessu mikilvæga verkefni mun ljúka störfum fyrir næsta vor og af minni hálfu mun ég bíða eftir niðurstöðu þessa starfs.“

Málið er því þegar komið á rekspöl en fáir virðast vita af því. Þetta er kjörin staða fyrir útsmogna stjórnmálamenn í Röskvu. Þeir geta nú hlaupið um háskólann með hrópum og köllum til að „krefjast“ einhvers sem þegar er hafið. Og því miður munu margir stúdentar láta blekkjast, þrátt fyrir að sams konar leikrit hafi áður verið sett á svið.

Í fyrra setti ungliðahreyfing Samfylkingarinnar í háskólanum á svið mikið sjónarspil í tengslum við opnunartíma Þjóðarbókhlöðunnar. Þá hafði þegar verið tekin ákvörðun af hlutaðeigandi aðilum, þ.á m. fulltrúum Vöku og Röskvu, að lengja opnunartímann. Það er nefnilega vænlegt til árangurs að krefjast einhvers sem þegar stendur til að gera. Þá sést árangur kröfunnar fljótt og tilganginum er náð…

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.