Sannlega mega þeir súpa hel

Þegar ráðamenn ríkisstjórna og peningastofnanna á Vesturlöndum ákváðu að veita rússneskum stjórnvöldum tugmilljarða dala lán, var það réttlætt með þeim rökum, að tryggja þyrfti stöðugleika í rússneskum stjórnmálum.

Þegar ráðamenn ríkisstjórna og peningastofnanna á Vesturlöndum ákváðu að veita rússneskum stjórnvöldum tugmilljarða dala lán, var það réttlætt með þeim rökum, að tryggja þyrfti stöðugleika í rússneskum stjórnmálum. Þessa dagana standa yfir þingkosningar í Rússlandi og virðist stuðningsflokkur ríkisstjórnarinnar ætla að verða sigurvegari kosninganna. Þannig má hefur ákveðinn stöðugleiki náðst í rússneskum stjórnmálum og það verður segjast eins og er, að fjárframlög Vesturlanda hafa gert þar gæfumuninn.

Sá gæfumunur er þó ekki með þeim hætti sem ráð var fyrir gert. Sigur ríkisstjórnarinnar í kosningum er að mestu, sumir segja eingöngu, að þakka stríðsrekstrinum í Tsjetsjníu. Þar sækir Rauði herinn fram af fullum þunga, endurnýjaður af fjárframlögum Vesturlanda og uppreisnarmenn mega sín að sjálfsögðu lítils. Almenningur í Rússlandi er yfir sig hrifinn, enda er um að ræða upreisn æru fyrir gamla stórveldið. Rússar hafa á ný eignast forystu sem vill og getur – og henni munu þeir áfram veita brautargengi, m.ö.o. stöðugleiki er kominn á.

Þannig hafa fjárframlög Vesturlanda náð markmiði sínu. Upplausn Rússlands virðist hafa forðað, í bili a.m.k., og tilkostnaðurinn er smávægilegur miðað við þá hagsmuni sem í hættu voru. Bankastjórar og þjóðarleiðtogar Vesturlanda geta nú gert orð Moskvuskáldsins, Halldórs Laxness, í fyrsta erindi Stríðsins að sínum:

Spurt hef ég tíu milljón manns
séu myrtir í gamni utanlands.
Sannlega mega þeir súpa hel
ég syrgi þá ekki, fari þeir vel.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.