Þrafað á þingi!

Grímulaust málþóf er nú ástundað á Alþingi eins og fram kom í máli formanns menntamálanefndar Sigurðar Kára Kristjánssonar í vikunni. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra tók síðan undir þessi orð formannsins og taldi að þau væru sögð með réttu.

Mikilvægt er að þingmenn séu vel tenntir, þegar þeir stunda málþóf. Úr þingsögunni má nefna nöfn eins og Sigurð Eggerz í tengslum við þingmenn sem voru sérlega vel tenntir!

Grímulaust málþóf er nú ástundað á Alþingi eins og fram kom í máli formanns menntamálanefndar Sigurðar Kára Kristjánssonar í vikunni. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra tók síðan undir þessi orð formannsins og taldi að þau væru sögð með réttu.

Orð þingmannsins um grímulaust málþóf gefa tilefni til athugunar að einu leyti, varðandi það hvenær málþóf er grímulaust og hvenær það fer fram með grímu? Getur þetta álitaefni verið ágætis gestaþraut í matarboðum næsta mánuðinn og skapað skemmtilegt ambiance í þorrablótum og erfidrykkjum!

En hvað er málþóf eiginlega?

Málþóf er þegar þingmenn, sem iðulega eru í stjórnarandstöðu, eru af grundvallarástæðum á móti því að lagafrumvarp verði samþykkt og nýta sér heimildir þingskaparlaga til þess að tala og tala og tala um allt milli himins og jarðar. Fer þetta mjög í taugar meirihluta þingmanna, þar sem þetta hægir verulega á störfum þingsins.
Mikilvægur hluti af málþófi er hins vegar ekki aðeins að kveða sér hljóðs og-eins og sagt var forðum daga í Vestmannaeyjum að: bí bí og blaka, andastaðan kvakar- undan lagafrumvörpum, heldur þurfa þingmenn minnihlutans einnig að nýta sér allar þær heimildir sem finnast í þingsköpum Alþingis, til þess að hægja enn þá meira á öllum þingstörfum. Gott dæmi um það eru umræður um fundarstjórn forseta, sem í málþófi, snúast minnst um fundarstjórn forseta heldur að því máli sem þæfa skal ásamt því að krefjast umræðna utan dagskrár um óskyld mál.

Markmið málþófs er að þreyta meirihluta þingsins á þann veg að hann dragi umdeilt frumvarp sitt til baka og komi með það aftur seinna í breyttri mynd. Tekst þetta hins vegar sjaldan þar sem stjórnarmeirihlutinn gerir sér grein fyrir því að um málþóf er að ræða og sefur vært á sínu græna eyra, eða les Morgunblaðið, meðan þingmenn minnihlutans fetta sig og bretta í ræðustól þingsins yfir næst því tómum þingsal. En svona virkar virkt lýðræði hér á landi!

Í þessu málþófi um ríkisútvarpið vonar helgarnestið að málþófsmenn hafi vikið að sögu ríkisútvarpsins og heimildum um þá merku stofnun svo að einhver menningarbragur verði . Kjörið er til dæmis að lesa bækur Jónasar Þorbergssonar útvarpsstjóra um Átök hans við Aldahvörf, og þá einnig ákærurit Helga Hjörvar um fjárdrátt þess sama útvarpsstjóra. Í kjölfarið mætti síðan lesa dóma Hæstaréttar, um niðurstöðu þess hvort útvarpsstjóri hefði dregið að sér fé, sem finna má í Hrd. 55/1949 og Hrd. 1952, bls. 132.

Rétt er í þessu stutta helgarnesti að víkja að frægasta málþófi Íslandssögunnar sem átti sér stað á áttunda áratug síðustu aldar. Þingmaðurinn Sverrir Hermannsson var þá á móti ákveðnum lagabreytingar sem lagt var til að gerð yrði á menntakerfi þjóðarinnar og að nýjar réttritunarreglur yrðu lögfestar. Glöggir lesendur hafa nú þegar áttað sig á því að hér er átt við hið fræga málþóf Sverris sem jafnan hefur verið kennt við mótmæli hans gegn afnámi Z í lögboðnum réttritunarreglum. Í ævisögu sinni, hinni fyrri, skýru og skorinortu, skýrir Sverrir frá því að hann hafi farið um víðan völl í málþófi sínu og hafi meðal annars lesið upp úr aflaskýrslum um veiðar á Íslandsmiðum. Forseti Sameinaðs þings hafi þá gert athugasemdir við að hann væri að fara út fyrir efnið sem var menntamál. Sverrir svaraði þessari athugasemd forseta á þann veg að lestur aflaskýrslna ætti sko aldeilis erindi í umræðu um menntamál, enda væru fiskveiðar og aflabrögð undirstaða þjóðarbúsins og þar með menntamála.

Er hægt að heimfæra þetta upp á samtímann?

Já! Helgarnestið á þess von að einhver þingmaður muni grípa til þess snilldar ráðs að lesa upp úr árskýrslum bankanna, enda bankar undirstöðuatvinnugrein nú á dögum. Er þar um að ræða lesefni sem duga mætti í allnokkrar klukkustundir af málþófi og gleður áhugamenn um arðsemi eigin fjár, EBIDTUR og víkjandi skuldir.

Málþófsmönnum og öðrum óskar Helganestið að sjálfsögðu farsældar

Góða helgi.

Latest posts by Ari Karlsson (see all)

Ari Karlsson skrifar

Ari hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2005.