Aukinn kaupmáttur í kjölfar skattalækkana

Um áramótin lækkaði tekjuskattur einstaklinga um eitt prósentustig. Skatthlutfall í staðgreiðslu á árinu verður því 35,72%, en var 36,72%. Jafnframt hækka skattleysismörkin í 90 þúsund krónur og hér eftir verður persónuafslátturinn verðtryggður, en hann er nú rúmar 32. þúsund krónur á mánuði eða tæpar 386. þús. kr. á ári, en var um 29. þús. kr. Flestir landsmenn ættu því að hafa séð örlítið þykkara launaumslag um síðustu mánaðarmót, sérstaklega þeir tekjuminni. En hve lengi varir lækkunin?

Um áramótin lækkaði tekjuskattur einstaklinga um eitt prósentustig. Skatthlutfall í staðgreiðslu á árinu verður því 35,72%, en var 36,72%. Jafnframt hækka skattleysismörkin í 90 þúsund krónur og hér eftir verður persónuafslátturinn verðtryggður, en hann er nú rúmar 32. þúsund krónur á mánuði eða tæpar 386. þús. kr. á ári, en var um 29. þús. kr. Flestir landsmenn ættu því að hafa séð örlítið þykkara launaumslag um síðustu mánaðarmót, sérstaklega þeir tekjuminni.

Með fyrrgreindum skattalækkunum er ríkisvaldið að taka minna til sín og minnka afskipti sín af því hvernig einstaklingarnir fara með það fé sem þeir hafa sjálfir unnið til, en það er segin saga að fé er best varið í höndum þeirra sem þess afla.

Það verður því miður að segjast eins og er að áhyggjuefni er að sveitarfélögin dragi þessa skattalækkun ríkisins til sín með einhverjum hætti. Hvort sem það er með hækkun útsvars eða annarra tekjustofna sem sveitarfélögin hafa yfir að ráða. Reyndar var meðalútsvar sveitarfélaganna 12,97% árið 2005 sem er mjög nærri hámarki og því ekki mikið sigrúm til hækkana þar sem hámarks útsvarsprósentan er 13,03%.

Stjórnvöld samþykktu fleiri skattalækkanir fyrir þinglok og til standa stórtækar breytingar á skattkerfinu þann 1. mars næstkomandi. Helsta markmið breytinganna er lækkun matvælaverðs á Íslandi, en það er með því hæsta í heiminum, og einföldun á skattkerfinu. Meginbreytingin felst í að gert er ráð fyrir að lægra skattþrepið í virðisaukaskatti fari úr 14% niður í 7%. Eins og staðan er í dag er aðeins ákveðinn hluti matvöru sem ber 14% virðisaukaskatt, en önnur matvara ber 24,5%. Lækkunin nær þó til fleiri þátta en matvæla. Breytingin hefur jafnframt í för með sér að virðisaukaskattur af ýmsum öðrum vörum og þjónustu lækkar í 7%. Til dæmis má nefna skatt af tímaritum, blöðum, geisladiskum, hótelgistingu og veitingaþjónustu.

Samhliða skattalækkuninni voru gerðar breytingar á lögum um vörugjöld á innlendum og innfluttum matvælum, en þau falla niður af öllum matvælum að undanskyldum sykri og sætindum. Þá er gert ráð fyrir allt að 40% lækkun tolla af innfluttum kjötvörum.

Þessar breytingar eru til þess fallnar að auka kaupmátt og bæta kjör einstaklinga, en gert er ráð fyrir að ofangreindar aðgerðir skili sér í allt að 12-13% lækkunar á matvælaverði skili þær sér alla leið til neytenda.

Þótt hugsjónamenn á hægri vængnum séu ekki alltaf hrifnir af öllu því sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks tekur sér fyrir hendur þá er ljóst að ekkert er hægt að klaga upp á ríkisstjórnina hvað varðar skattastefnu.

Latest posts by Erla Ósk Ásgeirsdóttir (see all)

Erla Ósk Ásgeirsdóttir skrifar

Erla hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2003.