Búmm!

Helgarnestið er vel saltað og reykt þessa vikuna eftir áttörn undanfarinna daga. Flugeldasala einkaaðila, einkaþjálfun og einkahúmor koma þar við sögu. Hattar, knöll, bíó og böll.

Frikki frændi í ham í fyrra

Áramótunum fylgir kærkominn hressleiki eftir hátíðleika og afslöppun jólanna. Þetta árið falla hátíðarnar í nágrenni helgar og má því búast við að margir, þar á meðal Grýla gamla, sletti ærlega úr klaufunum í þeirri samfellu frídaga sem nú hefur myndast. Skotgleði landans á sér lítil takmörk virðist vera og hvert ár virðist okkur takast að slá fyrri met. En vindum okkur í nesti vikunnar.

Uppgrip Frikka frænda – Flugeldasalan
Frikki frændi er kominn í feitt. Hann hefur alla tíð haft mjög gaman af flugeldum og fyrir nokkrum árum datt honum það snjallræði í hug að flytja sjálfur inn flugelda, en bara fyrir sig og örfáa vini sína. Reyndar spurðist þetta aðeins út og nú flytur Frikki inn nokkra gáma og það sem meira er, hann græðir á tá og fingri og þarf ekki að leggja neitt út fyrir þeim flugeldum sem hann skýtur upp. Frikki er líka mikið fyrir að fara á fjöll og skjóta rjúpur og annan fiðurfénað. Í einni slíkri ferð fyrir mörgum árum varð hann viðskila við félaga sína í hríðarkófi og týndist. Hálfum sólarhring síðar fundu björgunarsveitarmenn hann illa haldinn og komu honum til byggða. Frikki var reyndar ekkert í sérstökum fötum í þessari ferð, en núna, þegar hann er farinn að moka inn peningum á flugeldasölu, þá hefur hann efni á því að kaupa sér betri veiðfatnað og þarf því ekki að hafa áhyggjur þótt hann villist eitthvað smá. Ég meina í versta falli þarf björgunarsveitin að leita aftur að honum, það er ekki eins og það kosti eitthvað.

Veisluhöld – Skjótum upp góssinu
Nú þegar átveisla jólanna er að mestu yfirstaðin er kominn tími til að snúa sér að næstu veislu, sem felur í sér aðeins meira skak og tjútt en jólin. Það er sjálfsagt ekki vanþörf á því fyrir flest okkar að tjútta aðeins um áramótin og ná af okkur einhverju af jólamatnum. Fyrir jólin er vinsælt hjá líkamsræktastöðvum að bjóða upp á stutt, nokkurra vikna átaksnámskekið. Konur fara á námskeiðin Í kjólinn fyrir jólin, en enn er beðið eftir slíku námskeið fyrir karlana, (Sjáum tólin fyrir jólin?!?). Því miður hverfur árangur þessara námskeiða oft hraðar en smákökur í jólaboði, en ekki er ástæða til að örvænta, tilboðin um kort í stöðvarnar munur flæða til okkar um miðja næstu viku og hvetja okkur til dáða og góðra verka.

Meðal þess sem vinsælt er að bjóða upp á núna er eitthvað sem einkaþjálfarar kalla “hópeinkaþjálfun”, þar sem vinum, vinkonum eða pörum gefst kostur á að æfa saman hjá einkaþjálfara. Orðið sem slíkt hef ég aldrei skilið fyllilega. Í hverju felst munurinn á hópþjálfun og hópeinkaþjálfun? Er hópeinkaþjálfun og einkahópaþjálfun sami hluturinn? E.t.v. gengur þetta út á að allir í hópnum fá sérsniðið prógram en æfa saman, en er það í alvöru form af einkaþjálfun? Hvað sem því líður, þá hef ég ákveðið að halda hópeinkapartý einhvern tímann á nýju ári.

Pabbi kemur niður með prikinu
Svo er það Skaupið, sem undirritaður hélt reyndar í bernsku að væri Kaupið. Allir eiga sitt uppáhaldsskaup, uppáhaldsatriði. Enginn á sitt uppáhalds Ávarp útvarpsstjóra – eða hvað? Skaupið 1981 hefur alltaf verið í uppáhaldi hjá undirrituðum og hefur staðist vel tímans tönn. Sum Skaup skildi ég aldrei, en aðrir skildu þau hins vegar mjög vel . Það fólk skildi ég aldrei. Árlega verða þúsundir Íslendinga fyrir vonbrigðum með Skaupið og væntingar til þess virðast ekkert vera að dvína þrátt fyrir að það sé af sem áður var þegar Íslendingar fengu eina klukkustund á ári af gamanefni (svona um það bil). Það góða við Skaupið ár hvert er hins vegar það að það dregur vini, vandamenn og bandamenn saman að sjónvarstækinu þessa klukkustund, þar sem þeir geta átt góða stund saman. Reyndar verður þetta til þess að maður missir af stórum hluta Skaupsins. Hver kannast ekki við frændann sem hlær svo hátt og lengi að maður missir af næsta atriði og frænkuna sem nær ekki bröndurunum og biður um skýringar á þeim ofan í næsta atriði? En hvað um það, það er gaman að vera saman eins og Hemmi Gunn söng um árið.

Þá er það bara upp með öryggisgleraugun og húmorinn. Góða helgi og gleðilegt ár!

Latest posts by Birgir Hrafn Hafsteinsson (see all)