Ábyrgðin er okkar

Í október á þessu ári gaf hagfræðingurinn Nicholas Stern út skýrslu, að beiðni bresku ríkisstjórnarinnar, um efnahagslegar afleiðingar gróðurhúsaáhrifa. Skilaboð hennar eru nokkuð skýr: Ef ekki verður brugðist við hækkandi hitastigi á jörðinni sem fyrst er mikil hætta á að illa fari.

Hitastig á jörðinni hefur hækkað síðustu áratugina. Enginn efast um það þó væntanlega séu einhverjir sem eru ósáttir við þær skýringar sem þykja líklegastar og studdar eru sífellt fleiri rannsóknum, þ.e. auknu magni koltvísýrings í andrúmsloftinu vegna bruna jarðefnaeldsneytis.

Þrátt fyrir að blikur séu á lofti um að þessar breytingar geti haft umtalsverð áhrif á tilveru okkar á jörðinni og afkomu framtíðarkynslóða, virðast viðbrögð almennings í engu samhengi við hættuna sem af þróuninni gæti stafað.

Miklu púðri hefur verið eytt í að ræða hvort efnahagslega fýsilegt sé að snúa þessari þróun við í stað þess að leysa önnur vandamál heimsins, svo sem alnæmi eða hungursneyð. Skemmst er að minnast skýrslu sem hagfræðingurinn Nicholas Stern tók saman fyrir bresku ríkisstjórnina og gefin var út í október á þessu ári. Í henni var fjallað nokkuð nákvæmlega um rannsóknir á magni koltvísýrings og breytingar á hitastigi. Útreikningar í skýrslunni gefa til kynna að með óbreyttri þróun á losun koltvísýrings séu að minnsta kosti 77% líkur á að meðalhitastig á jörðinni hækki um 2°C næstu áratugina og geti jafnvel hækkað um 5°C. Þess má geta að meðalhitastig á síðustu ísöld var einmitt 5°C gráðum lægra en það er í dag.

Skýrslan fjallar einnig um efnahagslegan ávinning þess að bregðast við vandamálinu. Telur skýrsluhöfundur að það kosti um 1% af heimsframleiðslu að bregðast við vandanum sem geti komið í veg fyrir að hagkerfi heimsins minnki um 20% vegna gróðurhúsaáhrifa. Í stuttu máli er niðurstaða Stern sú að hvert ár sem við bíðum með að grípa til aðgerða sé okkur mjög dýrkeypt og að í raun megum við engan tíma missa ef verkefnið á ekki að verða óyfirstíganlegt.

En þessu eru ekki allir sammála og virðist gagnrýni á skýrsluna að miklu leyti snúast um hversu nákvæmar spár fyrir næstu 100 ár geta verið ef nærri ómögulegt er að spá um breytingar t.d. í veðurkerfum næsta árið. Eins hefur Stern skýrslan verið gagnrýnd fyrir hversu mikið vægi kostnaður í framtíðinni fær miðað við kostnað samtímans.

Þó að rannsóknir svo langt fram í tímann geti aldrei verið nákvæmar er engu að síður full ástæða til að skoða þær nánar, ekki síst í ljósi þeirra áhrifa sem við höfum nú þegar orðið vitni að. Nægir þar að nefna bráðnun jökla og aflmeiri fellibyli sem gengu yfir bæði Asíu og Ameríku á síðasta ári.

Eins stöndum við frammi fyrir siðferðilegri spurningu sem ekki auðvelt er að koma böndum á innan hagfræðinnar sem snýr að því í hvers konar ástandi viljum við skila umhverfinu í hendur framtíðarkynslóða.

Við þurfum að spyrja okkur að því hvort við viljum í raun taka áhættu á því að halda áfram á braut sem gæti valdið óbætanlegum skaða á lífríki jarðarinnar, valdið töluverðum vatnsskorti og svipt yfir 300 milljónum manns heimilum þeirra. Allt afleiðingar sem munu bitna verst á fátækum þjóðum heimsins. Hætta er á að við dveljum of lengi við að velta okkur upp úr óvissuþætti þessara rannsókna til að geta brugðist við vandamálinu með fullnægjandi hætti. Ef spár Stern ganga eftir eru miklar líkur á því að önnur ótengd vandamál muni sýnast smávægileg og við berum fulla ábyrgð á þeim gagnvart framtíðarkynslóðum.

Skýrslu Nicholas Stern má lesa hér:

Latest posts by Brynjólfur Stefánsson (see all)

Brynjólfur Stefánsson skrifar

Brynjólfur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.