Að okra börnin í megrun

Það er erfitt að gera öllum til geðs. Eftir að ríkisstjórnin kynnti langþráða lækkun á vörugjöldum og virðisaukaskatti og samþykkti frumvarp þess efnis á dögunum, hefur komið upp umræða um hvort eðlilegt sé að þessar lækkanir nái til gosdrykkja og sykraðra svaladrykkja. Lýðheilsustöð og nokkrir þingmenn gagnrýndu frumvarpið en gagnsemi slíkrar neyslustýringar hins opinbera er þó vægast sagt umdeilanleg. Og aðhyllist menn neyslustýringu á annað borð má velta því fyrir sér hve langt eigi að ganga í að stýra almúganum inn á rétta braut.

Það er erfitt að gera öllum til geðs. Eftir að ríkisstjórnin kynnti langþráða lækkun á vörugjöldum og virðisaukaskatti og samþykkti frumvarp þess efnis á dögunum, hefur komið upp umræða um hvort eðlilegt sé að þessar lækkanir nái til gosdrykkja og sykraðra svaladrykkja. Efnahags- og viðskiptanefnd þingsins barst umsögn frá Lýðheilsustöð þar sem lækkunin var gagnrýnd og í fjölmiðlum var haft eftir forstjóra stofnunarinnar að verið væri að senda röng skilaboð, sérstaklega til ungs fólks sem sé sérstaklega „verðnæmt“ fyrir vöru á borð við gosdrykki. Undir þessa gagnrýni tóku nokkrir þingmenn við umræður um daginn en frumvarpið var þó engu að síður samþykkt óbreytt.

Umræða sem þessi skýtur oft upp kollinum, þ.e. um verð og aðgengi á ýmsum „óæskilegum“ vörum og má þar t.d. nefna gos og áfengi. Yfirleitt eru sett fram þau sjónarmið að verðlækkanir eða það að gefa eftir í opinberum álögum séu óæskileg skref sem auki aðgengi almennings að drykkjunum. Nú er ég er reyndar ekki alveg sammála þessari röksemdafærslu, þar sem verð er sjaldnast afgerandi þáttur í því hvort fólk sæki í tilteknar vörur. Ef verðlag réði, ættum við Íslendingar t.d. trúlega ekki í miklum vandræðum með áfengi, enda finnast nánast hvergi á byggðu bóli jafndýrar guðaveigar. En gott og vel, einhverjir telja að þarna á milli séu mjög sterk tengsl og því séu verðlækkanir á gosi beinlínis ávísun á að börn fitni meira. Hver er þá rétta leiðin að þeirra mati? Núverandi verðlag hlýtur líka að vera óásættanlegt, því íslensk börn þamba víst endalaust af gosi.

Það hljómar vissulega ábyrgt að láta hafa eftir sér í fjölmiðlum eða á þingi þegar til stendur að lækka vörugjöld á gosdrykki að þetta séu röng skilaboð til barna. En samkvæmt þessum rökum ætti gosflaskan – sem börn sækja svo stíft í að kosta slíkar upphæðir að meðalunglinginn myndi ekki láta sig dreyma um gosdrykk nema kannski á jólunum. En það er samt spurning hvort nálgun sem þessi sé sú rétta. Á að okra börnin í megrun?

En svo má á móti velta því fyrir sér hvort það sé hlutverk ríkisins að velja og hafna fyrir okkur hin og hvort þetta val sem ríkið tekur að sér fyrir okkur eigi að birtast í hærra verði á tilteknum vörum. Þetta er sérstaklega varasamt í verðtryggingarlandinu Íslandi þar sem hækkun í vísitölu neysluverðs hefur þau áhrif að afborganir af lánum hækka. Einhverjum þætti fullmikill fórnarkostnaður að hækka afborganir á lánum til að fæla unglinga frá gosdrykkjaþambi.

Það má því velta fyrir sér hvort íslensk yfirvöld hyggist stíga sama skref og gert var í New York á dögunum. Þar tala yfirvöld enga tæpitungu um áhrif verðlags á gos, heldur gengu þau alla leið og bönnuðu feitan mat á veitingastöðum. Ég tek að vísu ekki undir þá leið heldur en það væri fróðlegt að fá fram hve langt fulltrúar lýðheilsu hér á landi eru tilbúnir að ganga til að fá okkur til að komast í kjólin. Hversu verulegar verða verðhækkanir á ruslfæðið að vera að þeirra mati? Eða er kannski bara rétt að banna þetta alveg?

Árni Helgason skrifar

Árni hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.