Hvað myndi ég gera ef ég væri einræðisherra?

Það getur haft kosti í för með sér að vera einræðisherra. Þann helstan að maður sjálfur er einræðisherrann og aðrir ekki. Spurning dagsins í þessu helgarnesti föstudagsins er hvað væri það fyrsta sem maður myndi gera ef maður væri einræðisherra?

Lykilatriði að fá sér svona flotta húfu

Spurning dagsins í þessu helgarnesti föstudagsins er hvað væri það fyrsta sem maður myndi gera ef maður væri einræðisherra?

Fyrsta skrefið væri auðvitað að huga að því hvernig maður gæti viðhaldið þeim alræðisvöldum sem maður hafi öðlast. Hér er ekki farið út í þau smáatriði hvernig stóð á því að skyndilega hafi maður orðið einræðisherra, látum það liggja á milli hluta. Það fyrsta í þessu fyrsta skrefi í átt að meiri völdum og tryggari væri að koma í veg fyrir að aðrir gætu tekið völdin. Væri maður til að mynda forsætisráðherra í krafti hernaðarstyrks og starfandi væri fulltrúaþing í landinu þá blasir við að skrúfa þyrfti fyrir völd þingins. Það væri hægt að gera með því að takmarka mjög svo alla lýðræðislega umræðu í landinu og koma í veg fyrir að almenningur gæti tekið þátt í stjórnmálastarfi. Sitjandi þingmönnum yrðu svo á einn eða annan hátt mútað til hlýðni. Mögulega gæti peningar ríkisins spilað þar stórt hlutverk.

Liður í þessu plotti væri að lama stjórnmálaflokka og gera þá algjörlega háða fjárstyrkjum frá ríkinu. Bannað yrði til að mynda að stjórnmálaflokkar gætu aflað sér fé frá öðrum en ríkinu. Einstaklingum og lögaðilum yrði meinað að styrkja alla stjórnmálastarfsemi því það gæti leitt til óeðlilegra áhrifa þessa fólks og fyrirtækja að stjórn landsins. Það væri ekki í anda lýðræðislegrar einræðisstefnu. Í framhaldinu væri komið á innra eftirliti á vegum ríkisins til að tryggja að farið yrði að þessum reglum. Einhvers konar endurskoðandi ríkisins gæti sinnt því hlutverki. Gott gott, þetta væri allt á rétti leið.

Veigamikið atriði í næstu skrefum væri að afla upplýsinga. Upplýsingar um hvar óvinir liggja á fleti eru ómetanlegar hverjum gegnum og góðum einræðisherra. Reglur sem skylda stjórnmálaflokka og stjórnmálamenn að gefa upp birta bókhald og upplýsingar um innra starf myndu skila miklu. Þannig væri hægt að fylgjast með öllum óeðlilegum stuðningi við flokkanna og því starfi sem þar væri fram.

Lagasetning í þessum anda væri auðvitað bara fyrsta skref. Svona rétt til þess að almenningur gæti hægt og bítandi vanist þeirri tilhugsun að verið væri að fjarlægja alla innviði heilbrigðs stjórnmálastarf í lýðræðislegu þjóðfélagi. Aðalatriði væri að fegra þetta með fögrum fyrirheitum um gegnsæi og eflingu á lýðræðinu. Þingmenn myndu alla vega kaupa það.

Lesendur eru auðvitað beðnir velvirðingar á þessari vitleysu svona síðla föstudags. Yfir í annað. Skemmtilegt mál var á dagskrá Alþingis í dag.

Góða helgi.

Latest posts by Teitur Björn Einarsson (see all)

Teitur Björn Einarsson skrifar

Teitur hóf að skrifa á Deigluna í febrúar 2006.