Þjóð í mótun

Innflutningur fólks af erlendum uppruna og samlögun þess að íslensku samfélagi er verkefni sem þarfnast meiri athygli en áður. En á forsendum hvers eigum við að nálgast það verkefni? Á forsendum hræðslu, fordóma og hafta? Eða forsendum upplýsingar, virðingar og frelsis? Og hvort er líklega til að skila árangri?

Einn helsti veikleiki mannkyns er sennilega eðlislæg hræðsla við breytingar. Hræðslan við það að breytingar á umgjörð einstaklingsins, fjölskyldunnar og samfélagsins rýri aðstæður og ríkjandi hagsmuni. Það virðist vera mjög rík mannleg tilhneiging að reisa efnislega og huglæga múra utan um eigin hagsmuni í því skyni að tryggja eigin hag. Menning og samfélag er hluti af þeim múrum sem manneskjunni er hætt við að reisa utan um eigin hag. Að bæla niður óttann við breytingarnar með því að sannfæra sjálfan sig um að engar breytingar séu góðar breytingar. Að hagsmununum sé best borgið með status quo.

Fólki af erlendum uppruna hefur fjölgað verulega hér á landi undanfarin misseri. Fólk sem hingað hefur komið í leit að atvinnu. Í leit að uppbyggilegri umgjörð fyrir sig og sína fjölskyldu. Í leit að öryggi og frelsi. Í leit að framtíð. Allt er þetta að þakka hinni ótrúlega efnahagslegu velgengi íslenska hagkerfisins undanfarin ár og þeirri stefnu að bjóða þeim að taka þátt í velgengninni sem það kjósa. Eftirspurn er eftir vinnuafli á nánast öllum vígstöðvum, og sem betur fer höfum við haft vit á því að opna fyrir framboðið.

En fjölgunin virðist í dag vera komin á það stig að ákveðinn ótti sé að byggjast upp meðal hluta þjóðarinnar. Ótti sem á sennilega rætur að rekja til hinnar eðlislægu hræðslu manna við breytingar. Þeirri mannlegu tilhneigingu að stilla upp þeirri tilgátu um að breytt umgjörð vinni hagsmunum þeirra nær ætíð ógagn en ekki gagn.

Þessi sami hópur telur sig fá tilgátuna staðfesta með fréttum af glæpum fólks af erlendum uppruna, fréttum um ráðningar erlends vinnuafls á kostnað Íslendinga o.s.frv. Samt standast tilgáturnar yfirleitt ekki nánari skoðun: hlutfall fólks af erlendum uppruna sem situr inni á Litla-Hrauni hefur staðið í stað síðustu árin. Og í raun er hlutfallið mjög lítið. Og vandamál er tengjast atvinnumálum virðast fremur tengjast ólöghlýðni íslenskra atvinnurekenda. T.a.m. ólögmætra starfshátta starfsmannaleiga. Nýlega féll dómur yfir starfsmannaleigunni 2B og var gert að greiða pólskum verkamönnum á sínum vegum vangreidd laun. Það ólíklegt að þessi tiltekni aðili sé sá eini sem ekki fylgi lögum og reglum.

Nú er svo komið að ákveðin stjórnmálahreyfing hefur kosið að vekja athygli á málefnum innflytjenda. En hefur kosið að gera það á röngum forsendum. Hreyfingin – og talsmenn hennar – hafa kosið að nálgast hana á forsendum hræðslunnar. Á forsendum óskhyggju. Þeirrar óskhyggju að vandamál tengd fólki af erlendum uppruna megi rekja til innstreymisins sjálfs. Að orsök ákveðinna vandamál megi rekja til þess fólks sem hingað kýs að flytjast. Helstu talsmenn hreyfingarinnar hafa kosið að ala á fyrrgreindum tilgátum í því skyni að afla sér fylgis. Til að tryggja sér áframhaldandi völd. Sem er hryggilegt.

Víða í löndunum í kring um okkur eru vandamál er tengja má innflytjendum. Og við eigum að fjalla um þau. Samfélagsbreytingum sem þessum geti fylgt raunveruleg vandamál. Það er hætta á því að hópur innflytjenda gangi illa að fóta sig í íslensku samfélagi. Sú hætta er til staðar að hópar innflytjenda kunni að einangrast og fjarlægast aðra. En reynslan frá öðrum Norðurlöndum bendir til þess það sé í raun mun meira undir Íslendingum sjálfum komið hvort þau vandamál skapist eður ei. Og ekki með því að setja hömlur og höft, heldur að kjósa að taka vel á móti nýju fólki og finna bestu leiðirnar til að aðstoða það við að fóta sig á nýjum stað. Í nýju samfélagi.

Grundvöllur góðra samskipta felst nefnilega í gagnkvæmri virðingu og viljanum til að læra hvert af öðru. Að finna fyrir því að á þig sé hlustað og að þú meðtakir önnur sjónarmið. Forsenda jákvæðrar og uppbyggilegrar samlögunar fólks af erlendum uppruna felst mjög líklega í jákvæðum og uppbyggilegu viðmóti okkar. Það er kjánalegt að ætla annað en að þeir sem hingað kjósi að flytjast geri það með því hugarfari að vilja ekki samlagast okkur. Að vilja ekki taka þátt í að móta íslenskt samfélag. Það er því algerlega undir okkur komið hvernig tekst til. Okkar viðmóti.

Verkefnið er í raun sáraeinfalt. Að tryggja það að nýir Íslendingar fái þau skilaboð að þeir séu velkomnir í því landi sem það flytur til. Að þeir finni að það sé borin virðing fyrir uppruna þess, menningu og siðum. Að því finnist það fá sömu tækifæri og aðrir til að búa sér og sínum fjölskyldum uppbyggilega umgjörð. Það er fáránlegt að ætla að besta lausnin séu haftir og hömlur. Frjálst flæði vinnuafls fylgir ákveðnum grunnlögmálum markaðarins. Þar sem atvinnu er að finna þangað flytur vinnuaflið. Og er öllum til hagsbóta. Þegar mettun verður eru engin rök fyrir áframhaldandi flutningi vinnuafls. Hvers vegna ætti fjölskylda í Austur-Evrópu (t.d.) að leggja á sig þá óvissu og hættu að flytjast til lands þar sem væri viðvarandi atvinnuleysi? Þar sem góð hætta væri á að ekki fyndist nokkuð örugg atvinnu nokkuð fljótt eftir að komið væri þangað?

Í heildina litið er verkefnið það að læra af reynslu nágranna okkar á Norðurlöndum. Læra hvaða strategíur hafa virkað og hverjar ekki. En lykillinn að velgengi samlögunar hlýtur alltaf að felast í virðingu fyrir hinum nýju íbúum. Þannig munu þeir jafnframt bera virðingu fyrir menningu okkar og sögu. Þannig eflum við best þann hvata að nýir Íslendingar læri að meta menningu okkar og leggi sig fram við að taka þátt í samfélaginu. Ef við tökum á móti þeim með fordómum, vanvirðingu og neikvæðu viðmóti, þá munum við uppskera eins og við sáum.

Latest posts by Samúel T. Pétursson (see all)

Samúel T. Pétursson skrifar

Sammi hóf að skrifa á Deigluna í maí 2005.