Er Framtíðarlandið Draumalandið?

All tént virðist Draumlandið liggja að baki Framtíðarlandinu. Framtíðarlandið saman stendur af fólki innblásnu af boðskap Andra Snæs í Draumlandinu, fólki sem hefur fengið sig fullsatt af stóriðju og virkjanaframkvæmdum, en sér sig ekki endilega sem vinstrivillinga í lopapeysum, kastandi skyri.

All tént virðist Draumlandið liggja að baki Framtíðarlandinu. Framtíðarlandið saman stendur af fólki innblásnu af boðskap Andra Snæs í Draumlandinu, fólki sem hefur fengið sig fullsatt af stóriðju og virkjanaframkvæmdum, en sér sig ekki endilega sem vinstrivillinga í lopapeysum, kastandi skyri.

Félagsskapurinn sprettur upp úr þeim óánægjujarðvegi sem virkjanaframkvæmdirnar fyrir austan höfðu í för með sér. En Framtíðarlandið lætur ekki staðar numið við að gagnrýna stóriðju- og virkjanaframkvæmdir heldur reynir það að svara þeirri langlífu spurningu: „Hvað eigum við að gera ef við fáum ekki álver?“ Það þarf ekki að lesa yfir hausamótunum á hámenntuðum Reykvíkingum um það hvað eigi að gera ef ekki verður byggt álver, en það hljómar væntanlega ósannfærandi í eyrum atvinnulauss Húsvíkings að Ísland geti orðið að fjármálamiðstöð á borð við London eða New York. Boðskapurinn þarf að berast til þeirra sem búa ekki við jafn traust lífsviðurværi og þeir sem að félagsskapnum Framtíðarlandinu standa. Það þarf að sannfæra alla sem búa á Húsavík, Reykjanesbæ, Fjarðarbyggð og annars staðar um að til séu aðrar lausnir og lausnin felist ekki í ríkinu heldur okkur sjálfum. Því það er jú, landsbyggðarfólkið sem kýs flesta þingmenn (a.m.k. hlutfallslega) og það er fólkið á hverjum stað sem mun taka ákvörðun um álver eða aðra stóriðju. Það er þetta fólk sem þarf að sannfæra um að við séum á rangri braut. Stjórnmálamenn munu svo bara halda áfram að hoppa eftir því hvernig landsbyggðin togar í spotta.

Gildi Framtíðarlandsins eru kjarkur og frumkvæði, sjálfstæði og sköpunargleði, virðing og fjölbreytni, ábyrgð og náttúruvernd. Grundvöllurinn fyrir því að þessi gildi fái að njóta sín er að allir sem hér búa hafi tækifæri til að rækta og virkja krafta sína. Framtíðarlandið þarf að sannfæra okkur um að það getum við gert, ef ekki er hljómgrunnur fyrir því hjá fólki að þetta geti verið grundvöllur að draumalandinu, þá mun krafan um álversbjörgunina halda áfram að hljóma.

Aflið og hugmyndaauðgin sem felst í nútíðarlandinu og verður grundvöllur framtíðarlandsins er það sem á að fá að njóta sín, óáreitt af ríkisvaldinu og atvinnuaðgerðum þess sem gera ekkert annað en að skekkja markaðinn. Ríkið mun ekkert bjarga því ef menn missa trúnna á því að hægt sé að búa á þessu landi. Við verðum sjálf að skapa okkur lífsviðurværi, tryggja að allir hafi jöfn tækifæri og viðskiptalífið fái að starfa í friði við hagstæðara umhverfi en það sem í kringum okkur er. Þannig er að minnsta kostið draumalandið mitt.

Latest posts by Katrín Helga Hallgrímsdóttir (see all)

Katrín Helga Hallgrímsdóttir skrifar

Katrín Helga hóf að skrifa á Deigluna í október 2003.