Mikilvægi hvalveiða

Mjög skiptar skoðanir virðast vera um hvalveiðar Íslendinga sem hafa vakið mikla athygli erlendis. En hversu góðar eru ástæður okkar fyrir því að hefja veiðar nú og hversu mikilvægar eru þær okkur?

Ákvörðun Íslendinga um að hefja atvinnuhvalveiðar hefur verið misvel tekið. Eflaust eru margir ánægðir með að sjávarútvegsráðherra hafi tekið af skarið og ýtt málinu í gegn þrátt fyrir mótbárur alþjóðastofnana. Íslendingar hefðu nú sýnt að við séum fullvalda þjóð sem tekur sjálfstæðar ákvarðanir um eigin hag og mótmæli annarra ríkja séu á misskilningi byggð. Hvalveiðar séu nauðsynlegar fyrir hagkerfið, ekki síst vegna afráns hvala og áhrif þess lífríki hafsins. Aðrir benda á að með þessari ákvörðun höfum við fórnað meiri hagsmunum fyrir minni sem geti haft alvarlegar afleiðingar í för með sér, ekki einungis fyrir ferðaþjónustu heldur alla viðskiptahagsmuni Íslendinga.

Oft er sagt að umræður um hvalveiðar erlendis séu blandaðar of miklum tilfinningum og gerður sé greinarmunur á því að drepa hvali og önnur dýr. Hjá þessari tilfinningasemi viljum við helst sneiða og fá að ræða málið út frá efnahagslegum og vísindalegum forsendum. Þannig viljum við að fólk myndi sér skoðun á veiðunum út frá því hvort hvalir séu raun og veru í útrýmingarhættu og ef svo er ekki, hvort þjóðir heims eigi yfir höfuð að skipta sér af nýtingu Íslands á auðlind innan eigin lögsögu.

En ef við gerum slíka kröfu til annarra verðum við að mæla okkar eigin rök með sömu mælistiku. Erum við að verja trúverðugan málstað þegar við höldum því fram hvalveiðar séu efnahagslega mikilvægar fyrir Íslendinga eða erum við sek um að reyna að beina athygli málsins frá raunverulegum ástæðum þess að við viljum hefja veiðarnar?

Varla trúir nokkur maður því að við séum að hefja hvalveiðar vegna gjaldeyristekna af sölu hvalkjöts þar sem lítil von er á að slík vinnsla væri nema lítið brot af heildarútflutningi okkar. Eins er mjög hæpið telja fólki trú um að Hvalur 9 hafi verið ræstur út á miðinn til að bæta atvinnuástand í landi þar sem atvinnuleysi er hverfandi. Margt hefur breyst á þeim tuttugu árum sem hafa liðið síðan hvalveiðar gátu flokkast sem atvinnugrein og mjög ólíklegt að þær geti nokkurn tíma orðið mikilvægur hluti íslensks efnahags þar sem við höfum í ríkari mæli byggt afkomu okkar á öðru en auðlindum hafsins.

Einu rökin sem hægt væri að taka alvarlega í þessu máli eru hvort hvalveiðar séu okkur nauðsynlegar til þess að viðhalda fiskistofnum okkar. Líklegt er að fólk sýni slíkum rökum skilning þar sem um er að ræða sjálfbæra nýtingu auðlinda hafsins. Þess vegna er umhugsunarvert hversu lítið hefur verið rætt um áhrif hvalveiða á fiskveiðar.

Þeir ráðamenn sem hafa varið hvalveiðarnar hafa ekki gert það á þeim forsendum að við séum að viðhalda fiskistofnunum, heldur iðulega bent á efnahagslega þýðingu hvalveiðanna sjálfra og gefið í skyn að um væri að ræða mikilvæga forsendu velsældar á Íslandi. Í yfirlýsingu á heimasíðu sjávarútvegsráðuneytisins sem var væntanlega ætluð til að skýra ákvörðunina fyrir erlendum ríkjum og fjölmiðlum, er hvergi minnst á rannsóknir sem sýna ótvírætt að tengsl séu á milli hvalveiða og stofnstærða helstu nytjastofna við strendur Íslands.

Skortur á vísindalegum sönnunum þess að samband sé þarna á milli skortir ekki einungis í tilkynningu sjávarútvegsráðuneytisins því ekki hefur mikið farið fyrir slíkri rannsókn í íslenskum fjölmiðlum. Þó ættu rannsóknargögn að liggja fyrir, ekki síst þar sem mjög litlar hvalveiðar hafa verið stundaðar á síðustu tuttugu árum og Hafrannsóknarstofnun mælir stofnstærðir nytjastofna árlega. Þar til að slík rannsókn er kynnt alþjóðasamfélaginu er ljóst að staðhæfingar um afrán hvalsins verða dæmdar sem tilgátur og er þá til lítils að ræða um efnahagslega nauðsyn veiðanna.

Nú skal ósagt látið hvort slík rannsókn hafi verið gerð en ef svo er ekki, hefði kannski verið skynsamlegra að bíða með að hefja hvalveiðar þangað til að sýnt hefði verið fram á slíkt samband, ekki síst í ljósi þess hvaða hagsmunum við höfum nú teflt í hættu. Eins hefðu íslensk stjórnvöld kannski átt að leggja meiri áherslu á að vinna málinu stuðning erlendis, því sá misskilningur virðist ríkja að hvalirnir sem við ætlum okkur að veiða séu í útrýmingarhættu. Hvað þætti okkur um að frétta af því að Kínverjar hæfu skiplagðar veiðar á pandabjörnum?

Staðreyndin er sú að við höfum farið gegn vilja bæði Alþjóðahvalveiðiráðsins og Evrópusambandsins í máli sem virðist ekki hafa neina þýðingu fyrir okkur fyrir utan þá að svala fortíðarþrá þeirra sem sjá hvalveiðar í hillingum. Ákvörðunin um að hefja hvalveiðar hefur því ekki einungis áhrif viðskiptahagsmuni okkar heldur einnig trúverðugleika okkar á alþjóðavettvangi. Trúverðugleika sem við höfum lagt hart að okkur að byggja upp og er Íslendingum mikilvægari en hvalveiðar.

Latest posts by Brynjólfur Stefánsson (see all)

Brynjólfur Stefánsson skrifar

Brynjólfur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.