Sundrung í Ungverjalandi

Mikillar ólgu hefur orðið vart í höfuðborg Ungverjalands, Búdapest, síðan síðla septembermánaðar. Þá fékk ungverska þjóðin staðfestingu á því að forsætisráðherra landsins og ríkisstjórn höfðu vísvitandi logið til um efnahagsástandið í landinu til að tryggja sigur sinn í þingkosningunum sem fram fóru í vor. Forsætisráðherrann neitar að víkja, ríkisstjórnin er rúin trausti og Ungverjar mótmæla af þrótti.

Mikillar ólgu hefur orðið vart í höfuðborg Ungverjalands, Búdapest, síðan síðla septembermánaðar. Þá bárust ungversku þjóðinni í fyrsta skipti til eyrna upptökur af fundi forsætisráðherra landsins, Ferenc Gyurcsany, með þingflokki sínum sem haldinn var nokkrum vikum eftir sigur þeirra í kosningum í apríl á þessu ári.
Í upptökunni fer Gyucsany mikinn í ræðu þar sem hann segir flokk sinn hafa logið blákalt og viðstöðulaust að almenningi um efnahagsástand í landinu til að tryggja sér sigur í kosningunum. Þá sagði hann að í raun hefði flokkurinn logið sig í gegn um síðustu tvö árin af stjórnartíð sinni, og að ekkert Evrópuríki hafi klúðrað málunum á jafn aulalegan hátt og þau hafi gert, og að mjög strangra efnahagsaðgerða væri þörf.

Það er því ekki að undra þó að allt hafi bókstaflega orðið vitlaust í Búdapest í framhaldi af spilun ungverska útvarpsins á upptökunni. Hörð mótmæli almennings og stjórnarandstöðuflokka hófust undir eins, undu upp á sig og náðu hápunkti sínum á sjöunda degi þegar um 50 þúsund manns söfnuðust saman við þinghúsið í Búdapest og kröfðust afsagnar Gyurcsany. Forsætisráðherrann gekkst við því að hafa logið að ungversku þjóðinni og bað hana afsökunar, en þverneitaði jafnframt að tilefni væri til þess að hann segði af sér.

Rödd almennings var langt í frá þögnuð og lét hún í sér heyra á lýðræðislegan máta svo um munaði því að viku seinna vann stjórnarandstaðan stórsigur í sveitastjórnarkosningum í landinu. Gyurcsany forsætisráðherra fór í framhaldi fram á traustsyfirlýsingu þingsins á stjórn sína, sem hann og fékk léttilega í ljósi samsteypustjórnar sinnar. 165 þingmenn samþykktu hinsvegar vantrauststillögu á forsætisráðherrann meðan 207 studdu hann.

Tíðindalítið hefur verið af pólítískum átökum í Búdapest síðan í byrjun október, þar til núna síðastliðinn mánudag. Mikil hátíðahöld voru skipulögð þann dag í tilefni þess að 50 ár eru liðin frá uppreisn Ungverja gegn Sovétríkjunum. Komu þjóðarleiðtogar hvaðanæva að til að minnast frelsisbaráttunnar og þeirra sem féllu í henni. Ekki fór þó eins og ráðgert var, því að á ný kom til harðra mótmæla sem enduðu þannig að um 170 almennir borgarar og 12 lögreglumenn særðust. Gúmmíkúlum og táragasi var beitt til að ryðja mótmælendum af götunum, svo hátíðarhöldin gætu gengið sinn gang – sem þau gerðu, nokkuð vandræðalega – því þeim var framhaldið án nokkurrar sýnilegrar þátttöku almennings.

Mótmælendur hafa í framhaldi sakað stjórnvöld um að nota lögregluna til að brjóta á bak friðsamleg mótmæli. Þeir fullyrða sömuleiðis að stjórnvöld noti framferði öfgakenndra hægrisinnaðra jaðarhópa til að koma óorði á meginþorra mótmælenda. Mótmælendur vonast því til þess að umdeildar athafnir lögreglu gagnvart þeim í vikunni muni kynda undir frekari stuðningi við þeirra málstað, en dagleg mótmæli hafa nú verið skipulögð fyrir framan þinghúsið þar sem krafist verður breytinga á ríkisstjórninni.

Stjórnarandstaðan fer í raun fram á þrennt. Þjóðaratkvæðagreiðslu um aðhaldsaðgerðir, afsögn Gyurcsany forsætisráðherra og að utanþingsstjórn sitji næstu tvö árin. Gyurcsany þvertekur enn fyrir þetta og neitar í ljósi fyrrnefndrar traustsyfirlýsingar þingsins að segja af sér. Sakar hann stjórnarandstöðuna um að vera að skaða þjóðina og hafa hana að leiksoppi í svekkelsi sínu yfir að hafa tapað þingkosningunum í apríl.

Ljóst þykir orðið að seint grói um heilt, þvílíkur sé tilfinningaofsinn vegna málsins, og að hverfandi líkur séu á því að takist að koma á samhentum aðhaldsaðgerðum í efnahagsmálum þegar sitjandi ríkisstjórn virðist algjörlega rúin trausti almennings.

Heimildir:
The Economist
Mbl.is

Latest posts by Ásdís Rósa Þórðardóttir (see all)

Ásdís Rósa Þórðardóttir skrifar

Ásdís Rósa hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2003.