Aukin umræða um bensínskatt í Bandaríkjunum

Neikvæðni Bandaríkjamanna í garð bensínskatta gæti verið að breytast. Fleiri og fleiri sérfræðingar eru farnir að tala fyrir hækkun bensínskatts þar í landi. Bensínskattur er hagkvæmur þar sem notkun bensíns veldur kostnaði sem aðrir bera en þeir sem nota bensínið, s.s. mengun, sliti á vegum og umferðartöfum.

Skattar á bensín eru mun lægri í Bandaríkjunum en í flestum öðrum vestrænum ríkjum. Lágir skattar á bensín hafa átt þátt í því að gera mikinn akstur að snörum þætti í borgarmenningu Bandaríkjanna. Bandaríkjamenn eru því mjög háðir miklum akstri og þar af leiðandi neikvæðir á hækkun skatta á bensín.

Neikvæðni Bandaríkjamanna í garð bensínskatta gæti hins vegar verið að breytast. Að minnsta kosti hefur orðið vart við mjög aukna umræðu um hærri bensínskatta á meðal sérfræðinga sem taka þátt í stjórmálaumræðu í Bandaríkjunum. Þannig hefur til dæmis Greg Mankiw, fyrrverandi efnahagsráðgjafi Bush, stofnað klúbb á blogsíðu sinni sem nefnist Pigou klúbburinn og berst fyrir Pigou-sköttum svo sem bensínskatti og kolefnaskatti.

Pigou var frægur hagfræðingur á fyrri hluta 20. aldarinnar sem sýndi meðal annars fram á hagkvæmni þess að skattleggja vörur sem valda öðrum kostnaði en þeim sem notar þær. Notkun bensíns veldur mengun, sliti á vegum og umferðartöfum sem koma niður á öllum í samfélaginu. Ef sá sem notar bensínið er ekki látinn greiða fyrir þann samfélagslega kostnað sem notkun þess veldur mun hann nota of mikið bensín frá hagkvæmnissjónarmiði.

Ein leið til þess að kom í veg fyrir óhagkvæmnina sem fylgir slíkum “ytri áhrifum” af notkun bensíns er að skattleggja bensin þannig að verðið á bensíni endurspegli þann samfélagslega kostnað sem notkun þess veldur. Slíkir skattar eru oft nefndir Pigou-skattar.

Mankiw skrifaði nýlega grein í Wall Street Journal þar sem hann leggur til að Bandaríkjamenn hækki skatta á bensín um $1 á gallon á næstu 10 árum. Hann færir mörg rök fyrir slíkri skattlagningu: Í fyrsta lagi, veldur brennsla bensíns gróðurhúsaáhrifum sem munu líklega valda verulegum samfélagslegum kostnaði í framtíðinni. Í öðru lagi, veldur ódýrt bensín umferðartöfum. Í þriðja lagi, er slík skattlagning betri en það reglugerðafargan sem nú einkennir tilraunir bandarískra stjórnvalda til þess að hemja eftirspurn eftir bensíni þar í landi. Í fjórða lagi, er bensín skattur hagkvæmari leið til þess að afla tekna fyrir ríkissjóð en margir aðrir skattar sem nú eru notaðir. Í fimmta lagi, myndu Bandaríkjamenn ekki greiða nema hluta af bensínskattinum þar sem skatturinn myndi lækka heimsmarkaðsverð á olíu og því myndu olíuframleiðsluríki heims í raun greiða hluta skattsins. Í sjötta lagi, myndi skatturinn draga úr innflutningi á olíu og þannig hafa þau jákvæðu áhrif að minnka mikilvægi Mið-Austurlanda í heiminu.

Grein Mankiw er aðgengileg á blogsíðu hans.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.