Séð úr lofti

Það vakti mikla athygli þegar Borgarstjóri bauð blaðamönnum í flugferð yfir Reykjavík til að kynna aðalskipulag borgarinnar.

Á morgun verður aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2024 tekið til lokaafgreiðslu í borgarstjórn Reykjavíkur. Í tilefni af því hefur borgarstjórinn í Reykjavík, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, boðað til blaðamannafundar. Líklega eru engar loftmyndir af Reykajvík til því fyrri hluti hans verður 30 mínútna flugferð yfir borgina. Það er ekki á hverjum degi sem fréttafólki er boðið í útsýnisflug og því megum við búast við öflugum fréttaflutningi af tillögum borgarstjóra. Auðvitað hlýtur tímasetningin að vera tóm tilviljun enda langt í kosningar og engin ástæða fyrir borgarstjóra til að koma sér í náðina hjá fjölmiðlum. Það væri samt gaman ef einhver tæki sig til og spyrði borgarstjóra um kostnaðinn við blaðamannafundinn.

Stærsti gallinn við aðalskipulagið er að sjálfsögðu sá að gert er ráð fyrir að flugvöllurinn í Vatnsmýrinni fari ekki fyrr en 2016 í fyrsta lagi. Þetta er auðvitað fáranleg hugmynd enda flugvöllurinn algjör tímaskekkja og nauðsynlegt að nýta landið fyrir íbúðabyggð og uppbyggingu á atvinnusvæði í tengslum við Háskóla Íslands. Þar væri hægt að búa til öflugan vettvang fyrir hátækniiðnað og rannsóknir en nálægðin við öflugustu menntastofnun landsins skapar grundvöllinn fyrir því. Því miður er ekki gert ráð fyrir því í stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins að flugvöllurinn fari og ólíklegt er að R-listinn leggi það til.

Það virðist vera töluverð óánægja með skipulagsmál í borginni og reyndar hefur hópur manna tekið sig til og stofnað framboð í kringum þessi mál. Það á þó eftir að reyna á hversu áberandi þau verða í komandi kosningabaráttu en margir hafa furðað sig á því hvers vegna Sjálfstæðismenn sækja ekki meira inn á þessi mið en þeir hafa gert hingað til. Sóknarfærin eru fjölmörg enda Reykjavík frekar illa skipulögð borg í alla staði.

Vonandi mun fjölmiðlafólk spyrja fjölmargra spurninga í flugferð sinni á morgun yfir Reykjavík. Það gæti til dæmis spurt borgarstjóra hvers vegna Lína.net hefur ekki greitt íbúum fjölbýlishúsa víðs vegar um borgina fyrir leyfi til að hafa lofnet á þökum húsa þeirra. Auðvitað kemur það skipulagsmálum ekkert við en það væri eflaust gaman að heyra borgarstjóra snúa sig út úr þessu. Staðreyndin er nefnilega sú að þetta litla mál hefur mikil áhrif á líf þeirra sem búa í húsunum og þurfa jafnvel að fresta viðgerðum vegna skulda Línu.net við húsfélögin. Gleymum því ekki að jafnvel þótt stóru málin taki mestan tíma framboðanna í Reykjavík, þá eru það oft litlu hlutirnir sem aldrei komast í fjölmiðla, sem ráða úrslitum um sigur eða tap í kosningum.

baldvin@deiglan.com'
Latest posts by Baldvin Þór Bergsson (see all)