Kraftmikil bloggfréttamennska

Bloggfréttamennska er ekkert ný af nálinni hvorki hér heima né erlendis, hins vegar hafa aldrei fleiri stundað þessa fréttamennsku hérlendis. Þetta hefur sett mikið líf í bloggheiminn hér á landi, hins vegar er oft erfitt að átta sig á því hvað er satt og hvað er logið á þessum vefjum.

Undanfarið hefur orðið gríðarleg aukning á svokallaðri bloggfréttamennsku hér heima. Oft eru þetta eru gamalreyndir fjölmiðlamenn sem hafa komið sér fyrir í bloggheimum með eigin síður og skrifa af miklum móð. Líklega eru þessir aðilar virkustu bloggarnir um þessar mundir.

Víða erlendis hefur svona fréttaþjónusta náð gríðalegum vinsældum og náð að flytja fréttir sem aðrir fjölmiðlar hafa ekki treyst sér til að segja, jafnframt sem notkun mynda og myndbanda síma hefur aukið upplýsingaflæði frá fólki sem verður vitni að atburðum.

Bloggfréttamennska er ekkert ný af nálinni hérna heima, en sumir þeirra sem standa að baki þessum vefjum hafa áður verið með sambærilega vefi og aðrir hafa verið að í mörg ár. Hins vegar er það nýtt hversu margir hafa lagt stund á þessa fréttamennsku undanfarið en aldrei hafa fleiri slíkir vefir verið í gangi samtímis.

Fyrir áhugasama um pólitík hefur þetta óneitanlega sett líf í umræðurnar og margar skemmtilegar samsæriskenningar komið fram. Þessir aðilar hafa verið ótrúlega duglegir að koma fram áhugaverðar upplýsingar, samsæriskenningar og prófkjörsfréttir. Jafnvel hafa þessir vefir deilt innbyrðis um hver kom fyrstur með fréttina. Auk þess sem hinir hefbundnu fréttamiðlar hafa verið gagnrýndir fyrir að stela fréttum frá þeim án þess að geta heimildarmanna.

Helsti ókosturinn við þessa vefi er þó að þeir birta nánast allt sem að þeim berst, eða svo virðist. Ótrúlega hátt hlutfall virðist vera spuni frá rótum, en það er þó ekki verið að saka vefina sjálfa um að búa til fréttir, heldur eru spindoktorar að nýta sér vefina til að koma búa til reyna að koma af stað atburðarrásum eða koma höggi á andstæðinga.

Vonandi halda þessir vefir áfram að vera svona lifandi, með þeim kostum og göllum sem þeir hafa. Það lífgar upp á annars daufa umræðu oft á tíðum og heldur umræðunni gangandi. Það er þó ekki verra þótt á endanum komi í ljós að sagan sé sönn.

Latest posts by Tómas Hafliðason (see all)

Tómas Hafliðason skrifar

Höfundur hefur skrifað á Deigluna frá árinu 2002. Höfundur er verkfræðingur frá Háskóla Íslands og rekur eigið fyrirtæki.