Á götum Dhaka

Ég er staddur í Dhaka, Bangladesh. Ramadan mánuðurinn hófst fyrir nokkrum dögum síðan svo það er erfitt að finna opinn veitingarstað á daginn. Í gær fór ég því út í KO-MART búðina og keypti Oreo kex og óáfengan bjór…

Ég er staddur í Dhaka, Bangladesh. Ramadan mánuðurinn hófst fyrir nokkrum dögum síðan svo það er erfitt að finna opinn veitingarstað á daginn. Í gær fór ég því út í KO-MART búðina og keypti Oreo kex og óáfengan bjór — hugsaði sem svo að það væri betra en ekki neitt. Á leiðinni heim kom upp að mér lítill strákur. Hann hefur sennilega verið í kring um 5 ára en tággrannur og örugglega ekki mikið meira en 15 kg (en ætti að vera í kring um 20 kg miðað við aldur). Klæddur í nánast ekki neitt rétti hann fram hendina í von um að betla nokkrar Taka (sem er gjaldmiðillinn hér, ein Taka er c.a. 1 kr).

Í fyrstu leit ég ekki almennilega á hann því ég var staðráðinn í því að gefa ekki neitt. Þegar hann elti mig sá ég að hann var öðruvísi en hin börnin á götunni. Munnur hans var verulega afmyndaður eins og slæmt tilfelli af holgóm. Þó leit þetta einhvernvegin aðeins öðruvísi út en holgóma börn sem ég hef séð áður.

Ég gekk áfram og hann gafst upp á að elta mig á endanum. Ég gaf honum ekki neitt þó ég væri með fulla vasa af Taka og munaði að sjálfsögðu ekki neitt um nokkrar þeirra.

Hvort maður eigi að gefa betlurum er sennilega erfitt að svara á einfaldan hátt en margt bendir til þess að slíkt hafi meiri neikvæð áhrif en jákvæð. Ýmsar rannsóknir [1, 2] benda til að víða í þróunarlöndunum séu börn misnotuð af foreldrum eða glæpasamtökum og þau látin betla á götunum. Öllum tekjunum er haldið eftir en börnunum bara séð fyrir lágmarks fæði. Í rauninni er fæðinu oft stjórnað til að vera vel undir þörfum til að vannæringin og heftur vöxturinn sjáist á börnunum. Einnig er útlit þeirra í mörgum tilvikum afskræmt með ásetningi, en hvort tveggja eykur tekjumöguleika þeirra.

Með því að gefa betlurum er búinn til markaður sem er auðvelt að misnota. Ekki aðeins eru búin til tækfæri fyrir glæpamenn að misnota börn og veikburða fólk heldur er auðvelt fyrir fólk frá vesturlöndum að gefa betlara daglaun einhvers sem vinnur við þjónustustörf. Þannig skapast jafnvel markaður fyrir fullfrískt fólk til að ná sér í margföld daglaun á dag. Slíkt eykur aðeins á vandann með því að letja fólk til vinnu og skapa illúð í garð betlara.

Að ganga fram hjá stráknum með afmyndaða munninn var ekki létt — nokkrar Taka hefðu kannski hjálpað honum eitthvað. En með því að ganga framhjá minnka kannski líkurnar á því að litli bróðir hans endi með svipað afmyndaðan líkama.

Latest posts by Snæbjörn Gunnsteinsson (see all)