Minnisvarði um mistök

Núna er liðið rétt ríflega ár síðan nýja Hringbrautin var opnuð fyrir umferð sumarið 2005. Framkvæmdin var mjög umdeild í þjóðfélaginu og háværar raddir gagnrýndu legu hennar og tilgang. Í þeim hópi voru m.a. Deiglupennar, sem lýstu yfir undrun sinni á þeirri ákvörðun að byggja þetta risastóra mannvirki á
verðmætasta byggingarlandi borgarinnar
og auk þess var vandséð hvaða vanda umferðarlega séð Hringbrautin nýja átti að leysa.

Núna er liðið rétt ríflega ár síðan nýja Hringbrautin var opnuð fyrir umferð sumarið 2005. Framkvæmdin var mjög umdeild í þjóðfélaginu og háværar raddir gagnrýndu legu hennar og tilgang. Í þeim hópi voru m.a. Deiglupennar, sem lýstu yfir undrun sinni á þeirri ákvörðun að byggja þetta risastóra mannvirki á
verðmætasta byggingarlandi borgarinnar
og auk þess var vandséð hvaða vanda umferðarlega séð Hringbrautin nýja átti að leysa.

Í þetta ár frá opnun nýju Hringbrautarinn hef ég verið tíður gestur á götum hennar enda búsettur í Vesturbænum og starfa í Kópavoginum. Sem betur fer þýðir sú samsetning að ég hef ferðast á móti umferðinni sem er mest í vestur átt á morgnana og í austur eftir klukkan fjögur á daginn. Staðreyndin er nefnilega sú að umferðin er hrikalega mikil á álagstímum og það eru ekki ýkjur að það taki hátt í hálftíma að keyra úr Vesturbænum í Kringluna milli fjögur og fimm á daginn, og jafnvel lengur á föstudögum. Þetta sex akreina gímald sem þverar Vatnsmýrina og eyðileggur stóran hluta af verðmætu landi hefur því ekki leyst neinn umferðarvanda nema síður sé. Ástæða þess er væntanlega sú að flöskuhálsarnir eru hinir sömu og áður, þ.e.a.s. hringtorgið á gatnamótum Hringbrautar og Suðurgötu og svo gatnamót Hringbrautar og Bústaðavegar. Reyndar hefur ástandið við bústaðaveg versnað ef eitthvað er þar sem nú eru komin beygjuljós inn á Bústaðaveginn þar sem áður var afrein án ljósa.

Það er í raun ótrúlegt að þessi framkvæmd hafi hlotið hljómgrunn innan borgarstjórnar og enn ótrúlegra er að henni hafi verið hrint í framkvæmd. Á sínum tíma lágu ekki fyrir haldbær rök um ástæður hinnar nýju Hringbrautar og ef það var ekki ljóst fyrir fram þá er það staðreynd í dag að brautin leysir engan vanda síaukinnar umferðar. Það er illskiljanlegt að hönnuðir brautarinnar hafi ekki gert sér grein fyrir því að umferðarlega séð var tilgangur hennar lítill sem enginn. Hafi þeir hins vegar gert sér grein fyrir því er enn ótrúlegra að hugsa til þess að ákvörðun um lagningu hennar hafi verið tekin í borgarstjórn. Það var einfaldlega eins og R-listinn hefði ekki haft á takteinunum á sínum tíma aðrar hugmyndir um nýtingu fjármuna sem buðust frá ríkinu til gatnagerðar.

Lagning hinnar nýju Hringbrautar var byggð á illa ígrundaðri ákvörðun. M.a.s. Árni Þór Sigurðsson fyrrum formaður borgarráðs og borgarfulltrúi R-listans sáluga, viðurkenndi fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar að framkvæmdin hafi verið mistök. Það er því kaldhæðnislegt til þess að hugsa að síðasti minnisvarðinn sem R-listinn reisti sér um stjórnartíma sinn í borginni og standa mun í tugi ára hafi verið minnisvarði um mistök.

Latest posts by Þórður Heiðar Þórarinsson (see all)