Að þekkja sinn vitjunartíma í pólitík

Nú hefur sá tími runnið upp að sitjandi alþingismenn lýsi því yfir hvort þeir hyggist sækjast eftir endurkjöri á þing vegna kosninga til Alþingis næsta vor eða draga sig í hlé. Þegar hafa flestir þingmanna lýst fyrirætlan sinn í þessum efnum. Ljóst er af þeim yfirlýsingum mörgum að sá plagsiður íslenskra þingmanna að þekkja ekki sinn vitjunartíma er enn við lýði.

Nú hefur sá tími runnið upp að sitjandi alþingismenn lýsi því yfir hvort þeir hyggist sækjast eftir endurkjöri á þing vegna kosninga til Alþingis næsta vor eða draga sig í hlé. Þegar hafa flestir þingmanna lýst fyrirætlan sinn í þessum efnum. Ljóst er af þeim yfirlýsingum mörgum að sá plagsiður íslenskra þingmanna að þekkja ekki sinn vitjunartíma er enn við lýði.

Á Alþingi Íslendinga situr enn nokkur fjöldi þingmanna sem tók þar sæti við þingkosningar 1991 eða fyrr. Þeir munu þá hafa setið á þingi í 16 ár eða lengur við næstu þingkosningar. Sumir þessara þingmanna hafa nú þegar lýst því yfir að þeir hyggist ekki gefa kost á sér til endurkjörs. Þar er um að ræða Halldór Blöndal og Sólveigu Pétursdóttur Sjálfstæðisflokki, Jóhann Ársælsson, Margréti Frímannsdóttur og Rannveigu Guðmundsdóttur Samfylkingu, og Halldór Ásgrímsson og Jón Kristjánsson Framsóknarflokki. Aðrir þingmenn úr þessum flokki þingsetulengdar virðast ætla að sækjast efir endurkjöri, a.m.k. flestir hverjir.

Höfundur þessa pistilis er þeirrar skoðunar að almennt séð séu 16 ár á þingi feykinógur tími til setu þar. Á þeim tíma geti þingmenn, þó einkum stjórnarþingmenn, komið mörgu því til leiðar sem þeir hafa sannfæringu fyrir, að minnsta kosti meginlínum í þeirri sannfæringu. Þingmenn Sjálfstæðisflokks sem komu inn á þing árið 1991 eða fyrr hafa til að mynda haft öll tækifæri í þessum efnum og nýtt þau reyndar býsna vel. Nú er hins vegar að mati pistilshöfundar komið að leiðarlokum.

Þingmenn í öllum flokkum sem komu inn við þingkosningar 1991 eða fyrr ættu nú flestir hverjir að þekkja sinn vitjunartíma og gera okkur kjósendum ekki þann grikk að þurfa að kjósa þá enn einu sinni í prófkjörum og/eða við þingkosningar. Það er líka miklu meiri sómi að því að fara sjálfviljugur út en að vera fleygt á dyr. Nú er tækifæri til að hleypa nýju fólki að og ferskari vindum. Augljóst er að ungt fólk til að mynda á erfiðara með að komast að eftir því sem hinir eldri eru þaulsetnari. Hið sama á við um annað hæfileikafólk á ýmsum aldri sem fullt erindi á inn á Alþingi með nýjar hugmyndir og ferskari nálganir.

Þaulseta er ekki göfug hvort sem er í veislum eða á Alþingi. Það er almenn kurteisi að standa upp úr sætum sínum fyrir nýju fólki þegar menn hafa setið að borðum alltof lengi. Þessari kurteisi er almennt ekki fyrir að fara í nægjanlegum mæli hjá þeim þingmönnum sem komu inn á Alþingi vorið 1991 eða fyrr. Að þekkja sinn vitjunartíma er góður eiginleiki í pólitík sem öðru.

Latest posts by Arnar Þór Stefánsson (see all)