Stærsta vandamál veraldar

Áætlað er að hitastig á jörðinni muni aukast um allt að 5,8 gráður á þessari öld. Við kæmumst af með hækkun um 1,5 gráður en hærra hitastig gæti haft alvarlegar afleiðingar í för með sér eins og fellibylji, flóð og þurrka.

Undanfarin ár hefur umræða um gróðurhúsaáhrif færst í aukana. Margir hafa áhyggjur af miklum loftslagsbreytingum sem orðið hafa síðustu áratugi. Segja má að umræðan sé nú fyrst að verða nokkuð alvarleg og sífellt fleiri telja aðgerða þörf áður en það verður um seinan.

Sýnt hefur verið fram á að fyrir um 10.000 árum dró úr miklum sveiflum í andrúmslofti jarðar sem höfðu verið fram að því. Verksmiðjur, útblástur bíla og eyðing regnskóga hefur gert það að verkum að þessum stöðugleika andrúmsloftsins er nú ógnað. Sérfræðingar áætla nú að meðalhitastig á jörðinni muni aukast um 1,4 til 5,8 gráður á celcius á þessari öld.

Við kæmumst líklega af með hækkun um 1,4 gráður eða rúmlega það en mikið meiri aukning myndi hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér. Yfirborð sjávar myndi hækka umtalsvert, fellibyljum, flóðum og þurrkum myndi fjölga svo um munar. Þá væri hætta á uppskerubrestum víða um heim sem gæti leitt til enn meiri hungursneyðar og auk þess gríðarlegra fólksflutninga.

Það verður að segjast eins og er að spádómar um þróun loftslags á jörðinni fela ekki í sér mjög nákvæm vísindi. Vissulega er margt af mannanna völdum sem hefur mikil áhrif, en einnig eru fjölmargar breytur sem við höfum enga stjórn á og í raun vitum við lítið um þróun þessara ytri þátta þegar fram í sækir. Þetta er þungamiðja vandamálsins. Kostnaðurinn við breytingar á andrúmsloftinu er afar óljós og þar með erfitt að átta sig á þeim ávinningi sem felst í að gera eitthvað til þess að stemma stigu við áhrifunum.

Eins og staðan í heiminum er nú má segja að tæknilega sé ekkert sem stendur í vegi fyrir því að draga úr magni gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu. Sama má segja um kostnaðinn. Flestir hagfræðingar sem reynt hafa að kasta tölu á kostnaðinn við það að takmarka gróðurhúsalofttegundir eru sammála um að hann sé vel yfirstíganlegur og þurfi ekki að hafa teljandi áhrif á hagvöxt til langs tíma.

Kyoto bókunin:
Þekktasta plagg síðari tíma sem fjallar um þessi málefni er líklega Kyoto bókunin. Tilgangur hennar var að fá þær þjóðir sem menguðu hvað mest til þess að draga úr myndun gróðurhúsalofttegunda. Þrátt fyrir nokkra annmarka er Kyoto bókunin ekki algjörlega misheppnuð eins og sumir vilja halda fram. Hún hefur orðið til þess að lönd Evrópusambandsins og Japan ná líklega þeim markmiðum sem þar eru sett fram, þrátt fyrir að Kanada geri það líklega ekki. Einnig varð til með Kyoto bókuninni heimsmarkaður fyrir útblásturskvóta og þannig hægt að draga úr skaðlegum lofttegundum með nokkuð skilvirkum hætti.

Stærstu annmarkar Kyoto bókunarinnar eru þó þeir að hún tekur ekki til þróunarlanda, sem þó eiga stóran þátt í útblæstri og jafnframt viðurkenna Bandaríkin hana ekki. Bandaríkin valda mestum útblæstri allra þjóða heims, en þó er líklegt að það standi ekki mikið lengur. Í Kína eru á hverju ári reist orkuver með getu á við öll orkuver Bretlands og þau brenna nánast öll kolum – sem valda versta útblæstrinum. Útblástur Kína verður brátt meiri en Bandaríkjanna og Indland er ekki langt undan.

Til þess að einhver árangur náist í að minnka gróðurhúsalofttegundir í andrúmsloftinu þarf tvennt til. Annars vegar einhvers konar ferli eða aðferð til þess að verðleggja útblástur viðkomandi lofttegunda. Þetta gæti verið skattur eða kvótakerfi, þar sem kvóti gæti gengið kaupum og sölum á frjálsum markaði. Hins vegar þurfa stjórnvöld allra landa að vera tilbúin að leggja fé í rannsóknir á nýjum aðferðum við að minnka gróðurhúsalofttegundir á einhvern hátt.

Þegar öllu er á botninn hvolft þurfa Bandaríkin að taka forystu í þessum efnum af þeirri einföldu ástæðu að þau menga mest allra. Sem betur fer virðist nú þegar vera nokkur vakning meðal fyrirtækja þar í landi og eru mörg þeirra farin að kalla á löggjöf um þessi efni. Bush Bandaríkjaforseti gæti sannarlega endað forsetatíð sína með reisn með því að láta til skarar skríða gegn loftslagsbreytingum. Gróðurhúsaáhrifin eru jú stærsta vandamál veraldar.

Heimild: The Economist, September 9th-15th 2006

Kristín María Birgisdóttir
Latest posts by Kristín María Birgisdóttir (see all)

Kristín María Birgisdóttir skrifar

Kristín María hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2005.