Upplýsingar um kynferðisafbrotamenn

Pistillinn fjallar um frumvarp til breytinga á barnaverndarlögum, sem kveður m.a. á um um rétt til upplýsinga úr sakaskrá um kynferðisafbrotamenn í tilteknum tilvikum.

Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp til breytinga á barnaverndarlögum. Meðal nýmæla frumvarpsins er ákvæði sem kveður á um rétt til upplýsinga úr sakaskrá um kynferðisafbrotamenn í tilteknum tilvikum. Þar segir m.a. að Barnaverndarstofa eigi rétt til upplýsinga úr sakaskrá um menn sem hlotið hafi refsidóm fyrir brot gegn ákvæðum almennra hegningarlaga um kynferðisbrot, þegar brotin beinast gegn einstaklingi sem ekki hefur náð 18 ára aldri. Barnaverndarstofa getur tilkynnt viðkomandi barnaverndarnefnd ef maður sem veruleg hætta er talin stafa af flytur í umdæmi hennar. Ef rík barnaverndarsjónarmið mæla með, getur barnaverndarnefnd gert öðrum viðvart, að fengnu samþykki Barnaverndarstofu.

Í athugasemdum með frumvarpinu segir að réttmætt þyki vegna hagsmuna barna að hægt sé að fylgjast með aðsetri kynferðisafbrotamanna á hverjum tíma og jafnvel grípa til ráðstafana ef ríkar ástæður eru fyrir hendi. Heimildir barnaverndarnefnda til aðgerða á að skýra þröngt samkvæmt athugasemdum við frumvarpið, og er talið að tilkynningar til annarra eigi fyrst og fremst við um heimilismenn þar sem viðkomandi maður hefur aðsetur, en að til greina komi að láta nágranna vita ef þeir eiga börn sem geti verið í hættu.

Lagaákvæði af þessu tagi hafa tíðkast erlendis um nokkurra ára skeið. Þau hafa iðulega verið sett í kjölfar hörmulegra atburða og oft fyrir kröfu frá aðstandendum fórnarlamba þeirra. Í Bandaríkjunum gilda lög um tilkynningarskyldu til almennings um dæmda kynferðisafbrotamenn sem hætta er talin stafa af. Sambærileg lög gilda í Bretlandi, en þar er um að ræða heimild til að miðla upplýsingum um kynferðisbrotamenn í tilteknum tilvikum.

Framkvæmd þessara laga, einkum í Bandaríkjunum, hefur verið harðlega gagnrýnd. Þar hafa mörg ríki sett upplýsingar um kynferðisafbrotamenn á netið, og einnig þekkist það að lögreglan gangi í hús og kynni kynferðisafbrotamann sem hyggst flytja í hverfið. Hefur þetta eðlilega valdið miklu uppnámi og múgæsingu meðal almennings. Í Bretlandi birti dagblað eitt, að kröfu lesenda sinna, myndir af mönnum sem höfðu verið dæmdir fyrir kynferðisafbrot, ásamt upplýsingum um þann stað sem blaðið taldi líklegt að þeir dveldust á. Tók almenningur málið í eigin hendur og bitnuðu aðgerðir þeirra aðallega á þeim sem ekkert höfðu til saka unnið, en líktust kynferðisafbrotamönnunum í sjón eða bjuggu á svipuðum stað.

Með þessum breytingum á barnaverndarlögunum er ekki gengið eins langt og með lagasetningunni í Bandaríkjunum og Bretlandi. Verði frumvarp þetta að lögum, er þó ljóst að Barnaverndarstofu og barnaverndarnefndum eru veittar skýrar heimildir til upplýsingagjafar um aðsetur kynferðisafbrotamanna við tilteknar aðstæður. Í ljósi reynslunnar erlendis frá, er mikilvægt að þessum heimildum sé beitt af varfærni og aðeins þegar brýna nauðsyn ber til.

Latest posts by Drífa Kristín Sigurðardóttir (see all)