Vinstri hroki

Vinstrimenn eru oft pirraðir út af hinu og þessu. Það er skiljanlegt þar sem stefna þeirra hefur ekki náð að heilla kjósendur um þó nokkuð skeið. Það eru líka skiljanlegar ástæður fyrir því. En furðulegt er að vinstrimenn í hreyfingunni grænt framboð hafa látið umræður hægrimanna um umhverfismál fara í taugarnar á sér. Á flokksþingi VG var gefið sterkelga í skyn að umhverfisvernd væri einkamálefni vinstrimanna. Það sem meira er þá var látið í það skína að umhverfisvernd yrði að vera róttæk og þar með sé VG eini umhverfisverndarflokkur hér á landi. Það er skemmtilega ómálefnaleg ályktun.

Það má vera að stefna VG í umhverfismálum sé afgerandi. Það er hins vegar ekki málefnaleg afstaða umhverfisverndarflokks að afgreiða umhverfisstefnu annarra flokka með því að segja þá stefnu ekki vera umhverfisstefnu. Ástæðan fyrir þessu óþoli er þó líklegast sú að stefna hægrimanna í umhverfismálum er í senn trúverðug og líkleg til árangurs.

Til einföldunar verður gerð tilraun til að aðgreina stefnu hægrimanna og vinstramanna í umhverfismálum í stuttu máli. Vinstrimenn telja umhverfið svo mikilvægt að einstaklingum er ekki treystandi til að umgangast það á skynsamlegan hátt. Hægrimenn telja umhverfið það mikilvægt að ríkisvaldinu er ekki treystandi til að umgangast það skynsamlega. Þetta er klassík aðgreining á hægristefnu og vinstristefnu almennt. Það sem einkennt hefur vinstri umhverfisstefnu um á síðkastið eru upphrópanir og ofstæki. Látið er í veðri vaka að öll nýting á náttúrunni sé vafasöm og ef nýta þurfi náttúruna þá sé best að ríkisvaldið sjái um það og engin annar, allra síst gróðafyrirtæki (öfugt við skuldafyrirtæki?). Miðað við umræður undanfarin misseri mætti jafnvel þrengja stefnuna í að einkennast af andstöðu við vatnsvirkjanir og stóriðju.

Aðkoma hægrimanna að þessu málaflokki hefur verið með nokkrum öðrum og öfgaminni hætti. Viðurkennt er að fari verði varlega í umgengni um náttúruna og að tryggja verði að náttúruauðlindir sé nýttar á sem skynsamlegastan og hagkvæmastan hátt. Um þetta er svo sem ekki deilt. Það sem deilt er um er hvernig ná eigi því markmiði að nýta auðlindir náttúrunnar á sama tíma og stuðlað verði að vernd viðkvæms umhverfis. Árangursríkast er að byggja á hlutlægum viðmiðunum um hvert sé verðmæti náttúrunnar. Slíkt viðmið fæst með eignaréttinum sem tryggir að sá sem á ákveðna auðlind er sá sem mun tryggja skynsamlegustu nýtingu hennar. Þetta á við um eignarétta að landi, vatni, veiðirétti á land- og láðsdýrum, nýtingu orkuauðlinda og jarðefna, takmörkun á umferð túrista og lagningu vega svo eitthvað sé nefnt. Eignaréttarfyrirkomulag fiskveiðistjórnunarkerfisins er skref í rétta átt en eitt brýnasta verkefnið þar á bæ er að afnema ríkiseinokunina á vísindarannsóknum

Svar vinstrimanna við þessu er að þetta sé stefna markaðsins með græðgi og sóun að leiðarljósi. Reynt er að snúa út úr öllu sem sagt er og ryki slegið í augun á almenningi með því að hamra á orðunum álver, virkjun, gróðafyrirtæki og Framsóknarflokkur. Rökræðan er svo afgreidd með orðatiltækjum eins og sjálfbær þróun og viðgangi lífs á jörðu. Skoðum þetta nánar. Í nýlegri grein eftir Kolbrúnu Halldórsdóttur sem birt var á vefnum www.vg.is, þann 19 ágúst sl., fjallar Kolbrún meðal annars um hugtakið sjálfbær þróun. Hún finnur að því að hægrisinnuð stjórnvöld hafa skotið inn orðtakinu hér og þar inni í lög og greinagerðir. En það sé til lítils þar sem hugtakið sé ekki skilgreint í lögum. Kolbrún kýs að útskýra hugtakið með því að vísa til skilgreiningu Brundtland-nefndarinnar frá 1987 á hugtakinu. Um það segir Kolbrún:

„Í þeirri skýrslu segir eftirfarandi […] „Sjálfbær þróun er… þróun sem fullnægir þörfum núlifandi kynslóða án þess að skerða möguleika komandi kynslóða á að uppfylla sínar þarfir. […] Þegar upp er staðið er sjálfbær þróun þó enginn eilífur samhljómur heldur breytingaferli þar sem nýting auðlinda, stjórnun fjárfestinga, tækniþróun og skipulagsbreytingar eru samræmdar þörfum samtímans og framtíðarinnar.“ […] „Sjálfbær þróun felur í sér þrjá innbyrðis nátengda þætti: efnahagslegan, félagslegan og umhverfislegan þátt. Sjálfbær þróun krefst þess að þessar þrjár víddir séu samþættar betur og þá innan ramma umhverfislega þáttarins […]“ “

Það er ekki hægt að efast um þetta því það er varla hægt að skilja þetta. Kolbrún er að gagnrýna stjórnvöld fyrir styðjast við hugtak sem ekki sé skilgreint í lögum en ofangreindur texti gæti allt eins verið inngangur í bókinni Saga tímans eftir Stephen Hawking þar sem víddir heimsins eru samþættar innan ramma rúmsins og tímans. Það sem má þó lesa út þessu er að sjálfbær þróun merkir að nýta verður umhverfið skynsamlega. Undir það tekur Kolbrún því síðar í greininni segir hún að með sjálfbærri þróun sé skynsamleg nýting auðlinda tryggð. Getur þá ekki verið að í lögum, þar sem kveðið er á um sjálfbæra þróun, sé verið að vísa í að haga verður nýtingu náttúrunnar á skynsaman hátt? Hvað er Kolbrún þá að gagnrýna?

Ef látið er af pólitískum keiluleik eitt augnablik blasir við að vel er hægt að ræða á vitrænum nótum um hvernig ná eigi fram skynsamlegri nýtingu á umhverfinu. Það er það sem hægrimenn stefna að og samkvæmt Kolbrúnu þá er það líka markmið vinstrimanna í grænu framboði. Eftir stendur þó að menn greina á um hvernig skuli ná þessu markmiði. Nú þegar hægrimenn hafa komið fram undan farinn misseri með skynsamar lausnir og trúverðugar leiðir í þessum efnum bregðast vinstrimenn við með yfirlætisfullum hætti og hroka með því að segja að eina sanna umhverfisstefnan felist í róttækum vinstrihugmyndum. Með öðrum orðum hugmyndum um þjóðnýtingu og afturhaldsinnuðu ofstæki. Það er þó ágætt það komi loksins skýrt fram umræðunnar vegna.

Þannig er Vinstri hreyfingin grænt framboð hægt og rólega að dæma sjálfan sig úr leik í mótun skynsamlegrar umhverfisstefnu fyrir land og þjóð. Það er pínu kaldhæðnislegt.

Latest posts by Teitur Björn Einarsson (see all)

Teitur Björn Einarsson skrifar

Teitur hóf að skrifa á Deigluna í febrúar 2006.