Nýgræðingur á Skuggagörðum

Undir lok ágústmánaðar voru nýjar stúdentaíbúðir teknar í notkun á Lindargötunni; Skuggagarðar. Með þeim var ekki einungis stigið þarft skref í uppbyggingu íbúða fyrir nemendur Háskólans, heldur var úthlutunarreglum FS einnig breytt. Breytingin fólst í því að draga úr forgangi landsbyggðarinnar, úr 100% í 85%. Því komust fleiri Reykvíkingar að en vanalega, þar á meðal ég. Hér verður þó ekki fjallað um pólitískt réttlæti breytinganna á háfleygan og vitrænan hátt, heldur gefin örlítil innsýn í líf nýgræðings á Görðunum.

Undir lok ágústmánaðar voru nýjar stúdentaíbúðir teknar í notkun á Lindargötunni; Skuggagarðar. Með þeim var ekki einungis stigið þarft skref í uppbyggingu íbúða fyrir nemendur Háskólans, heldur var úthlutunarreglum FS einnig breytt. Breytingin fólst í því að draga úr forgangi landsbyggðarinnar, úr 100% í 85%. Því komust fleiri Reykvíkingar að en vanalega, þar á meðal ég. Hér verður þó ekki fjallað um pólitískt réttlæti breytinganna á háfleygan og vitrænan hátt, heldur gefin örlítil innsýn í líf nýgræðings á Görðunum.

Við lyklaafhendingu voru 96 einstaklingar samankomnir – spennan og tilhlökkunin minnti nokkuð á súkkulaðikökuröð í barnaafmæli. Þegar svona margir einstaklingar eru að flytja inn á garða sem þessa myndast einhver alveg sérstök stemning. Ákveðið kommúnuyfirbragð, þar sem fólk hjálpast við fylla og tæma lyftur af kössum, sófanum og ruggustólum.

Það er mjög fróðlegt að fylgjast með hve misjafna hluti fólk flytur með sér. Þeirri hugmynd mætti varpa fram að mynda hverja einustu íbúð og setja myndirnar á netið. Til að gera þetta spennandi mætti síðan mynda ísskápa nemenda og vera með samstæðuleik þar sem fólk gæti parað saman ísskáp og íbúð. Kæmi sterkt inn í prófalestrinum. Verðlaun gætu verið 100 króna inneign á þvottakortið…

Það þarf þó ekki mikið til að komast af á Görðunum. Íbúðirnar koma mjög vel búnar, ísskapur og örbylgjuofn kemur námsmanni langt. Helst þarf að eiga sófa, glös og kíki – en honum má heldur beina að Esjunni eða næstu blokk, kynjahlutfallið er ásættanlegt. Svo myndi uppþvottavél ekki skemma fyrir. Uppþvottavél, örbylgjuofn, Esjan, Chicago Town – helvíti gott.

Eitt herbergi kom skemmtilega á óvart. Aldrei hefði maður ímyndað sér að þvottahús yrði uppspretta jafnmikillar gleði og raun hefur borið vitni. Ekki nóg með að vélarnar séu á stærð við meðal smábíl, heldur eru þær sjö talsins. Þetta kann að hljóma ómerkilega í eyrum leikmanns, en hér fær atvinnumaðurinn perlusvita á efrivörina. Samhliða næturþvottur. Undirritaður þvoði eina nóttina parallel í 4 vélum og tókst að ganga frá öllum sínum þvottamálum yfir Rockstar Supernova.

Í raun eru möguleikar þvottahússins endalausir. Ákveðnir drengir hafa verið staðnir að því að þvo sama þvottinn trekk í trekk, í þeirri von að ganga í augu sambýliskvenna. Aðrir vilja meina að þar skuli halda þvottapartý. Þá myndu strákarnir hittast að kvöldi til, skella í þvotti í nokkrar vélar, bjór í sig sjálfan og ræða heimsmálin. Ekki slök hugmynd það.

Líklega má deila um breytingar á úthlutunarreglunum, aðbúnað í íbúðum og bílastæðavandamál en flestir íbúar Lindargötu 42-46a geta sammælst um að fyrstu dagarnir á Görðunum séu hálfgert örævintýri. Ég er nú þegar farinn að ítra Kennsluskrá Háskólans í leit að þægilegum aukakúrsum næstu 13 árin. Ef eitthvað gerir mann að eilífðarstúdent, þá er það Lindargata 42.

Latest posts by Björn Patrick Swift (see all)